09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (185)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Flm. (Sigurður Stefánsson):

* [*Þingmaðurinn (S. St.) hefir hvorki lesið nje leiðrjett þessa ræðu og vill að, það sje tekið fram.]

Mig furðar á, að hæstv. fjármálaráðh. skuli voga sjer að bera fram þau ósannindi, að mitt mesta áhugamál hafi í sumar verið að komast heim, til að koma glundroða í sambandsmálið. Jeg var því fylgjandi þó, að þinginu væri frestað, og var það í raun og veru vilji mikils meiri hl. þingsins. Hefði stjórnin þá verið svo forsjál að fresta þinginu, hefði verið hægt að taka til óspiltra málanna strax er það kom saman aftur, og hefði það í engu spilt fyrir sambandsmálinu.

Það, sem hæstv. fjármálaráðherra var að segja um fánamálið, var ein af þessum skáldsögum, sem hann hefir verið að reiða fram í kvöld. Þó jeg hafi fallið frá einhverju frv., þarf það alls ekki að vera sama og að jeg hafi brugðist fánamálinu. Það er þvert á móti dagskránni, sem jeg bar fram, að þakka, á hvern rekspöl fánamálið, og þá sambandsmálið einnig, nú er komið.

Orðum hv. þm. Ísaf. (M. T.) þarf jeg ekki að svara. Að eins hjó hann nokkuð nærri sjálfum sjer þar, sem hann var að tala um að fara í gegnum sjálfan sig, því hafi nokkur farið í gegnum sjálfan sig, þá hefir hann gert það og það margsinnis.