02.09.1918
Efri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Benedikt Sveinsson:

Meiri hl. þgdm. hefir nú með atkvæði sínu girt fyrir, að umræður geti orðið um mál þetta á þann hátt, sem ætlast er til í stjórnarskránni, en notað sjer undanþágu þá, er þingsköpin veita til afbrigða og auðvitað er eigi ætlast til að beitt sje, nema brýn nauðsyn beri til, eða um auðsæ smámál sje að tefla. En meiri hlutinn vill girða fyrir umræður og rannsókn þessa máls; hefir hann í þessu trúlega fylgt vilja hæstv. forsætisráðherra.

Sökum þess afskaplega hraða, sem hafður er á málinu, hefi jeg ekki haft tíma til að kynna mjer málsskjöl þau, er háttv. meiri hl. hefir lagt fram. Í þingsköpunum er svo um mælt, að nefndaráliti skuli útbýtt að minsta kosti tveim nóttum áður en málið er að nýju tekið til umræðu, en þetta nefndarálit hefir verið litlu fleiri klukkutíma í höndum þingmanna en það á að vera sólarhringa, samkvæmt 18. gr. þingskapanna. Er þó nefndarálit þetta alllangt skjal og skrifað af æfðum málflutningsmönnum og með allmiklum málflutningskeim. Það er því síst að undra, þótt jeg hafi eigi haft tíma til þess að gagnrýna það út í æsar.

Í nefndarálitinu er langt mál um það, að fullveldi landsins sje trygt með sambandslagafrv. Því hefi jeg ekki neitað. Jeg tók það einmitt fram við 1. umr., að fulltrúar vorir hefðu reynt að ganga svo frá því atriði, að eigi geti orkað tvímælis um fullveldi Íslands. En þeim hefir mistekist að gera samninginn hagfeldan Íslendingum í öðrum greinum.

Það er alkunna, að þótt samningar líti vel út á pappírnum, geta þeir verið næsta óhagfeldir, er til framkvæmda kemur. Þess eru jafnvel dæmi í veraldarsögunni, að fullvalda ríki hafa gert svo óhagkvæma samninga við önnur ríki, að til tortímingar hafi leitt hagsæld þeirra og sjálfstæði.

Hæstv. forsætisráðherra gat þess, að leyft mundi að ræða um málið á víð og dreif við 2. umr., og af því að jeg geri ráð fyrir, að háttv. deild muni verða jafnfrjálslynd, mun jeg nota mjer þessi ummæli og minnast á fleira en strangt tekið heyrir 2. umr. til.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók sjer fyrir hendur að verja stjórnina, en hann fór jafnframt rangt með um afstöðu mína til frv. 1909. Þá framfylgdi jeg ekki hámarki í kröfum vorum, heldur lágmarki. En eins og hv. 2. þm. Árn. (E. A.) kannaðist við, var það eðlilegt, að menn gætu þá sætt sig við lægri kröfur en nú. Landsmenn hafa þroskast síðan 1909, og tímarnir hafa breyst, og skoðanir manna út um heiminn á rjettindum þjóðanna hafa stórum breyst. Afstaða Íslendinga í sjálfstæðismálum þeirra er önnur og betri nú en þá, og því síst ástæða til að saka menn um, þótt þeir geri fyllri kröfur nú en fyrir 10 árum.

Þá var annað, er háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sakaði mig um; hann kvað mig hafa gert hlutdrægan samanburð á frv. 1908 og frv. 1918. Jeg bið hv. þdm. að gæta þess, að jeg gerði engan fullan samanburð á, þessum tveimur frumvörpum, en gat þess einungis að þetta frv. væri í sumum greinum lakara en frv. 1908.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) fann ástæðu til að gera bragarbót á samanburði hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) á hinum tveim frv. En þótt samanburður háttv. þm (E. A.) á þeim væri allrækilegur, þá gleymdi hann einu mikilvægu atriði, þar sem voru uppsagnarskilyrðin í frv. 1909, móts við allar þær umbúðir, er fylgja uppsögninni eftir þessu frv. Háttv. þm. (E. A.) slepti alveg samanburði á þessu tvennu. (E. A: Um það er rætt í nefndarálitinu (A. bls. 35) í samanburðinum á, 9. gr. frv. 1908 og 18. gr. frv. 1918). Það mun rjett vera, en það er eitt af því, sem jeg hefi ekki haft tíma til að átta mig á, sökum flaustursmeðferðar þeirrar, er málið sætir, og í hinum langa samanburði háttv. þm. (E A.) á frv. við 1. umr. gat hann ekki um þetta, en hefir svo áttað sig á því síðar.

Jeg ætla ekki að þessu sinni að tala um nefndarálitið í heild, því að eins og jeg hefi getið um, hefir mjer og öðrum háttv. þdm., þeim er eigi voru í nefndinni, ekki gefist kostur á að athuga nefndarálitið að nokkru ráði. Jeg mun því aðallega tala um brtt. mínar; þó skal jeg geta þess, að við fljótlegan yfirlestur nefndarálitsins hefi jeg rekið mig á eitt atriði í því, sem ekki er rjett hermt. Í nefndarálitinu stendur svo skráð: »Báru milligöngumennirnir íslensku sig saman um hvarvetna bæði við þingflokka, fullveldisnefndir þingsins og stjórn«. Jeg neita því, að þetta sje rjett. Það var að minsta kosti eitt mikilvægt atriði, sem ekki var borið undir þann þingflokk, sem jeg heyri til, hvað sem um hina hefir verið. Þannig má vera að farið hafi um fleiri atriði. Það sjest fyrst til fulls, þegar fundarbók og önnur skjöl samninganefndanna verður gefin út, og má vænta, að það verði gert áður em þjóðin gengur til atkvæða um málið.

Þá hverf jeg að brtt. mínum, og tek jeg það þegar fram, að jeg hefi ekki grandgæfilega breytt öllu því, sem ástæða gat verið til að breyta, heldur því, sem mjer þótti mestu máli skifta. Þannig hefði verið viðkunnanlegra, að fyrirsögn frv. hefði verið breytt, og að Ísland stæði á, undan Danmörku í íslenska textanum í 1. gr. frv. Reyndar býst jeg við, að hæstv. forsætisráðherra muni á sínu máli nefna slíkt »fyrirkomulagsatriði«.

Þá kem jeg að brtt. minni við 6. gr. frv. Þar vil jeg, að ekki sje farið lengra í rjettindagjöfum til Dana en svo, að danskir ríkisborgarar skuli að engu leyti sæta óhagkvæmari kjörum en ríkisborgurum nokkurs annars lands eru hjer veitt. Þetta eru þau vildarkjör, sem vinátturíki, er mikið hafa saman að sælda, veita hvort öðru; þetta er og í samræmi við það, sem síðast í sömu grein er kveðið að um afurðir og afrek beggja landanna.

Þá hefi jeg og látið halda sjer í 6. gr. ákvæðið um undanþáguna frá herskyldu, þótt það ákvæði hefði í sjálfu sjer ekki átt að þurfa. En jeg vildi þó ekki fella það niður, ef slíkt kynni á einhvern hátt að valda misskilningi.

6. greinin er langveigamesta greinin í frv. Þar er mergur málsins fólginn. Íslendingar hafa viljað fá fullveldi til þess að geta notið gæða landsins í fullum mæli. Það er ekki af stærilæti tómu, að þeir hafa verið að keppa eftir fullveldinu, heldur til þess að geta búið frjálsir að sínu. Þótt nú Ísland eigi að verða fullvalda ríki eftir frv., þá er í þessari grein tekinn af Íslendingum mikill rjettur yfir ótakmarkaðri notkun gæða landsins, með því að margfalt fjölmennari og auðugri þjóð er veittur sami sami rjettur sem Íslendingum til að nota auðsuppsprettur Íslands.

Að vísu eru Íslendingum heimilar fiskiveiðar í landhelgi Danmerkur, en eins og allir vita, er það fremur nokkurskonar skop en alvara. Það er rjett eins og tveir bændur semdu með sjer, að hvor skyldi hafa rjett til veiða í landareign hins. Á annari jörðinni eru 30–40 vinnumenn, og þar í landareigninni hornsílaleirtjörn, en hinn bóndinn er einyrki, en á ágætt veiðivatn í sínu landi. Allir sjá, hversu slíkur samningur væri hagfeldur einyrkjanum.

Íslendingum var sárt um fiskiveiðarjett sinn árið 1908, og hann var eitt þeirra atriða, sem uppkastinu góða varð að fótakefli. Og eins myndi fara um þetta frv. ef þingi og þjóð gæfist nægur frestur til þess að athuga það til hlítar.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) var að gera lítið úr því við 1. umr., þótt Danir fengju þennan rjett, vegna þess, að þeir hefðu ekki verið mikil fiskiveiðaþjóð og mundu lítt nota þennan rjett. Því er ærið valt að treysta. Það er ekki langt síðan Íslendingar voru ekki mikil fiskiveiðaþjóð og höfðu ekki náð sjer í þau tæki, sem mest gefa af sjer. Á jeg þar aðallega við botnvörpuveiðarnar. (E. A.: En botnvörpungar veiða ekki í landhelgi). Síldveiðin hjá oss er ekki heldur nema 10 ára gömul. Það er næsta ólíklegt, að Danir sjeu svo miklu ólagnari en Íslendingar, að þeir gætu ekki á stuttum tíma koma sjer upp flota til þess að nota sjer þær auðsuppsprettur, sem þeim er hjer veittur aðgangur að.

Þá var það annað, sem hann færði til, að Danir væru ekki vanir að seilast hingað til atvinnufyrirtækja. Það vita allir, að þjóðirnar standa í þessum efnum á tímamótum. Norðurlönd hafa stórgrætt á ófriðnum. Danmörk er þjettbýlt land og vel ræktað. Danir þurfa því út fyrir land sitt til þess að beita auð sínum og dugnaði. Fossaiðnaður er ný atvinnugrein, og á Norðurlöndum hafa þegar verið mynduð fjelög til að nota sjer fossa vora. Því fremur er þess nú stór þörf Íslendingum að ljá ekki útlendingum fangstaðar á sjer, og síst að veita svona víðtækan atvinnurjett, er dönskum ríkisborgurum er veittur sami rjettur og innfæddum mönnum, og það með jafnríkum orðum og gert er í athugasemdunum við 6, gr., þeim er jeg las upp við síðustu umr. Að vísu hafa háttv. andmælendur mínir vilja snúa því svo, að ekki væri hundrað í hættunni, og að Íslendingar gætu útilokað Dani með búsetulögum. En mjer virðist það fara í bága við það, sem af Dana hálfu er tilskilið með orðunum »án nokkurs fyrirvara eða afdráttar« og því, sem þar fer á eftir: »Af þessari gagnkvæmni leiðir, að afnema verður allar þær takmarkanir, sem nú eiga sjer stað á fullu gagnkvæmu jafnrjetti« o. s. frv.

Jeg sje, að verjendur málsins gera litið úr því, sem plokka þurfi burt úr íslenskri löggjöf af því, sem gert hefir verið til þess, að Ísland sje fyrir Íslendinga. En þeir eru ekki einir um hituna. Nú koma dönsku nefndarmennirnir og ríkisþingið og halda fram sínum skilningi. Svo verður þræta úr, og leiðir hún til þess, að málið kemur fyrir gerðardóm. Þá er jeg hræddur um, að gerðardómurinn dæmi eftir ákvæðum laganna og athugasemdunum við þau, en eigi eftir því, sem þeir segja, háttv. 2 þm. Árn. (E. A.) og háttv. þm. Dala. (B. J.). (E. A.: Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gæti verið í gerðardóminum). Enginn má við margnum. Þótt við háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) værum þar báðir, þá mættum við minna en 2 bræður vorir frá Eyrarsundi og oddamaðurinn. (E. A.: Þeir yrðu að dæma eftir samningnum og skýra hann óhlutdrægt).

Þá hefi jeg gert brtt. við 7. gr., að Íslendingar geti tekið utanríkismálin í sínar hendur hvenær sem þeir vilji og farið með þau sjálfir. Það liggur í hlutarins eðli, að fullvalda ríki ræður því sjálft, hvenær það tekur mál sín í sínar hendur. Það er ekki óbilgjörn krafa. En fyrir margra alda óhagkvæma sambúð við Dani eru Íslendingar má ske ekki í svip færir til að fara með öll utanríkismál sín. Og þar sem jeg vil vinsamlegan skilnað Danmerkur og Íslands, vil jeg gjarnan unna Dönum þeirrar sæmdar, að fara með þau nú fyrst um einhvern tíma, með þeim takmörkunum, er brtt. mínar fara fram á. Brtt. mín miðar og til þess, að íslenska stjórnin geti sjálf ákveðið mennina, sem með utanríkismálin fara, en ekki í samráði við dönsku utanríkisstjórnina.

Í frv. stendur og:

»Samningar þeir, sem þegar eru gerðir milli Danmerkur og annara ríkja og birtir og Ísland varða, gilda og þar«.

En hjer er talað um þá samninga, sem gerðir hafa verið þar til í júlí í sumar, er samið var, en ekki þá, sem gerðir verða hjer eftir þar til er lögin ná staðfestingu. En nú geta það verið mikilsvarðandi samningar, og Íslendingum mikilvægt að geta synjað þeim um gildi hvað Ísland snertir. Hefi jeg því orðað greinina svo:

»Ríkjasamningar, gerðir af hálfu Danmerkur, er Ísland varða, skuldbinda ekki Ísland nema fengið sje samþykki íslenskra stjórnarvalda«.

Við 8. gr. hefi jeg ekki gert neina brtt. Einnig læt jeg standa 11. gr. óbreytta, þar sem stendur, að hlutdeild Íslands í ýmsum kostnaði, er leiðir af meðferð málanna, skuli ákveðin eftir samningi milli stjórna beggja ríkja. Samkvæmt því ákvæði geta Íslendingar samið um að greiða Dönum eitthvað fyrir strandgæsluna, í stað þess að láta þá hafa veiðirjettinn.

10. gr. vil jeg fella burt. Finst mjer ótilhlýðilegt, að fullvalda ríki hafi æðsta dómstól sinn í öðru landi. Það er engin ástæða til að láta heimflutning dómsvaldsins dragast neitt úr hömlu. Býst jeg við, að hæstv. forsætisráðherra fallist fúslega á þá tillögu, þar sem hann hefir áður lýst því sem stefnuskráratriði sínu að flytja dómsvaldið inn í landið. Skil jeg ekki, hvers vegna hikað er við að koma þessu í framkvæmd um leið og aðrar breytingar eru gerðar á sambandi landanna. Það er óvíst, að það verði auðsóttara síðar, þegar Danir hafa eflst hjer í landi að auði og fjölmenni. Varnaglinn, sem og var í frv. 1908 og 1909, að 1 Íslendingur skuli eiga sæti í hæstarjetti Dana, finst mjer fremur lítilfjörlegur, og vafasamt, hvort það er til nokkurra bóta. Margir munu líta svo á, að sá maður megi vera í meira lagi rjettvís, ef hann á ekki að hagga mundanginu fyrir vini sína, er honum er svo mikið vald gefið.

Við 12. gr. hefi jeg ekkert að athuga. Það er sjálfsagt, að þeim málum, er bæði ríkin varða, sje skipað með samningi stjórnanna í milli.

Þá hefi jeg lagt til, að 13. gr., sem jeg hefi í sjálfu sjer ekkert að athuga við, falli niður. Hefi jeg tekið þau þrjú atriði, er hún fjallar um, upp í brtt. mínar. En 14. gr. vil jeg fella alveg burt, þar sem talað er um þessa ráðstöfun á fjenu, að stofna skuli tvo sjóði »til þess að efla auðlegt samband milli Danmerkur og Íslands« o. s. frv. þar sem þetta er að rjettu lagi íslenskt fje, eiga Íslendingar einir yfir því að ráða. Það verða hrein viðskifti. Hafi Íslendingar sinn fjárhag og Danir sinn!

Jeg hefi lagt til, að upphæðin sje 2½ miljón kr. Hefi jeg þar ekki farið eftir fylstu kröfum Jóns Sigurðssonar, heldur miðað við 60 þús. kr. tillagið sem vexti; eru það 4% af 1½ miljón kr. En Garðstyrkinn og hitt annað vil jeg meta sem vexti af 1 miljón kr. Verða það þá 2½ miljón kr. Er hjer mjög hóflega í sakirnar farið, og alls ekki miðað við verðfall peninga, sem þó hefði mátt koma til greina. Ætlast jeg svo til, að það sje algerlega á Íslendinga valdi að ráðstafa fjenu, hvernig sem þeir vilja, til íslenskra vísinda eða til þess að senda íslenskan æskulýð utan að framast eða til annara þarfa.

Þá hefi jeg og lagt til, að 16. gr. falli niður. Vil jeg þar ganga milli bols og höfuðs á stofnun þessarar ráðgjafarnefndar, sem reidd er sem öxi yfir allri sjermálalöggjöf Íslands. Jeg sje, að meiri hlutinn telur í nál. sínu, að nefndin taki að eins til stjórnarfrumvarpa; og ber fyrir sig orðalag greinarinnar.

Jeg sje ekki, að það sje ljóst. Því að þótt stjórnin eigi að sjá um, að nefndinni sjeu send frv., þá þarf það ekki að vera annað en »fyrirkomulagsatriði«, og þarf ekki að þýða það, að það sje einungis stjórnarfrv., er nefndin á að ræða. Þetta getur vel orðið deilumál, því að hver veit, nema bræðurnir við Eyrarsund leggi annan skilning í þetta atriði. En hvað sem því líður, er það gersamlega óhæfilegt fullvalda ríki að eiga slíka nefnd yfir höfði sjer. Hún hlýtur að valda vafningum og töfum, og af henni getur ekkert gott stafað fyrir Ísland. En hún getur vel orðið til aðstoðar í því starfi að »danísera« Ísland, ef jeg má nota það orð. Íslendingar hafa hingað til viljað ráða lögum í landi sínu og ekki hirt um að sníða lagaákvæði sín einhliða til samræmis við löggjöf annars lands. Annað mál er það, að landið noti erlenda löggjöf sjer til stuðnings og hliðsjónar, en slíkt á ekki að gera að skyldu. Það er áreiðanlegt, að þessi nefnd særir bæði í bráð og lengd tilfinningar hvera einasta Íslendings.

Greinina um gerðardóminn hefi jeg ekkert að athuga við og læt hana því standa óbreytta.

Þá er 18. gr. Hefi jeg lýst því áður, að hún er alveg óaðgengileg eins og hún er. Og það er ekki jeg einn, heldur jafnvel sumir velunnarar frv., sem vilja fá þessu breytt. (G. Sv.: Hverjir?). Það hefir einhver ritað um það í blað, sem er hlynt samningnum, og veit jeg ekki, hver sá er. Vjer eigum að sjálfsögðu að hafa óbundnar hendur til þess að segja samningunum upp, þegar tíminn er liðinn, án þess að eiga það nokkuð undir högg að sækja. En refarnir eru auðsælega til þess skornir að girða fyrir, að skilnaður geti átt sjer stað. Það eru allar líkur til þess, að hin fjölmennari þjóðin í litlu, þjéttbýlu landi, ætli sjer að leggja Ísland undir sig, og senda hingað nógu marga menn á næstu áratugum, til þess að búa svo um hnútana, að atkvæðafjöldi með samningsslitum verði ónógur eftir það árabil. Enda er þessi samningur stórlega aukin hvöt Dönum að senda hingað sem flesta menn, eða að minsta kosti svo marga, að þeir geti aftrað sambandsslitum. Ef þetta ákvæði væri ekki í samningnum, hefðu þeir ekki slíka hvöt. Bið jeg menn að taka vel eftir þessu.

Þá hefi jeg leyft mjer að gera brtt. við 19. gr., þar sem stendur: »Danmörk tilkynnir erlendum ríkjum, að hún samkvæmt efni þessara sambandslaga hafi viðurkent Ísland fullvalda ríki« o. s. frv.

Þetta þykir mjer heldur ófimlegt ákvæði, því að jeg vil, að það komi fram, að Ísland sje og hafi verið fullvalda ríki, en sje það ekki að eins fyrir þennan samning, heldur og í eðli sínu.

Í þessu, »samkvæmt efni þessara sambandslaga«, virðist það jafnvel geta legið, að Danir geti haldið því fram eftir 25 ár, ef samningurinn fjelli úr gildi: »Ísland var fullvalda eftir sambandslögunum og meðan þau giltu, en ekki eftir að þau eru úr sögunni. Því eru Íslendingar nú ekki lengur fullvalda«. En fyrir þetta er alveg girt með brtt. minni.

Þá hefi jeg að lokum gert breytingu á 20. gr. Í henni er komist svo að orði: Sambandslög þessi ganga í gildi 1. desember 1918. En þetta er óhæfilega stuttur tími fyrir þjóðina til þess að átta sig á lögunum og leggja dóm á þau; enda er ómögulegt á svo naumum tíma að koma í framkvæmd ýmsum þeim breytingum, sem lögunum hljóta að verða samfara, svo sem er um breytingar á stjórnarskránni. — Þess vegna legg jeg til, að lögin öðlist ekki gildi fyr en 1920. Þá fyrst verða um garð gengnar þær breytingar á stjórnarskránni, sem allir sjá að hljóta að vera samfara lögum þessum.

Það er nú fyrst og fremst brot á stjórnarskránni að flytja hjer á þinginu slíkt frv. sem þetta, sem ekki hefir það í heiti sínu, að það sje breyting á stjórnarskránni. Það verður úr þessu hin mesta lögleysa, þar sem íslenskir þegnar eru í sambandslögum þessum sviftir rjetti, sem þeir hafa nú eftir stjórnarskránni, sem sje kosningarrjetti og kjörgengi, samanber athugasemdirnar við 6. gr., þar sem allur mismunur á kosningarrjetti Dana og Íslendinga hjer á landi, er upphafinn.

Allir geta nú sjeð, hversu ósamræmið verður mikið, ef stjórnarskránni verður ekki breytt jafnframt því sem lögin öðlast gildi, því að eftir hverju á að fara, ef árekstur verður milli þessa tvenns? Jeg skal játa, að 1. des. 1920 er valinn nokkuð af handahófi, en hugsunin, sem til grundvallar liggur, er rjett, og skal jeg í sambandi við þetta minna á, að Matzen prófessor hjelt því fram 1908, að gera yrði breyting á grundvallarlögum Dana samfara »uppkastinu«, ef það yrði að lögum.

Háttv. meiri hlutinn hefir haldið því fram, að mikið liggi á að knýja málið fram, vegna þeirrar hættu, sem Íslendingum geti stafað af því, ef Danir lentu í ófriði, en satt að segja er Íslendingum enginn sjáanlegur ótti búinn, þótt Danir lentu í ófriði. Danir hafa áður lent í ófriði, og var það ekki nema til góðs fyrir Íslendinga, er nutu mikillar mannúðar af óvinum Dana, og skyldi maður ætla að mannúðartilfinningin hafi fremur glæðst síðan 1809. Það kæmi og mjög í bága við þær yfirlýsingar, sem bæði bandamenn og Þjóðverjar hafa gert frammi fyrir alheimi, ef þeir færu að beita Íslendinga yfirgangi, þótt eitthvað slettist upp í vinskapinn með þeim og Dönum. Þetta er ein af þeim grýlum, sem afturhaldsmenn ota að fólkinu, til þess að skjóta því skelk í bringu.

Afturgengin grýla

gæist yfir mar;

ekki er hún börnunum

betri en hún var.

Þá leggur háttv. meiri hluti töluverða áherslu á, að ef málinu verði ekki flýtt, geti svo farið, að ekkert verði úr samningum. Þetta er sömuleiðis grýla, sem bræður vorir við Eyrasund hafa reynt að hræða bræður sína á Íslandi með. Slík orð flugu um eyru manni 1851, og jeg man ekki betur en að 1908 hafi því verið otað að þjóðinni, að ef hún samþykti ekki frv., þá stæði skilnaður einn fyrir dyrum, eða alt stæði óbreytt. Nú eru það frumherjar þjóðarinnar, sem tekið hafa sjer þessi orð í munn og hvetja þjóðina til þess að ganga að því, »sem í boði sje«. Og mig undrar það stórlega að sjá þessa sveit skipaða sumum þeim mönnum, sem áður hafa staðið fremstir í frelsisbarátttu þjóðarinnar. Jeg hefði síst búist við því að sjá, þá gerast stórsala á rjettindi Íslendinga.

Það er annars um þennan sáttafund Íslendinga og Dana, eins og um fleiri slíka fundi, að sinn segir hvað af fundunum, þegar heim er komið. Mjer dettur í hug sáttafundurinn, sem getið er um í Sturlungu, milli þeirra Sturlu Sighvatssonar og Þorleifs í Görðum. Urðu þeir sáttir á fundinum, en þegar heim kom, bar ekki sögum þeirra alveg saman, því að sinn sagði hvað. Hlaust af þessu enn verri fjandskapur en nokkru sinni áður og lauk með mannskæðum bardaga.

Jeg býst við, að líkt fari um þennan sáttafund, sem Íslendingar og Danir hafa með sjer átt, því að einn segir hvað í sínu landi, og munu aldrei af þessu frv. hljótast þær grannasættir, sem að haldi komi, en ef brtt. mínar verða samþyktar, þá hefi jeg mikla von um, að frv., svo breytt, verði sá garður, er geri grannasættir; þá munu þessar tvær þjóðir fá bundið með sjer það vináttuband, er lengi mun duga, og þá fyrst hafa Danir viðurkent til fullnustu kröfur tímans. Þá fyrst væri fundinn sá vináttugrundvöllur, sem leiðir til samvinnu milli þessara frændþjóða, samvinnu, sem ekki er bygð á ásælni og eigingirni. En með því að samþykkja frv., eina og það nú er, mun stofnað til hinnar mestu deilu, ekki síst þegar svo hatramlega er að gengið, að þjóðinni er ekki leyft að ræða málið og átta sig á því. Allir vita og margir viðurkenna það, að ef svo mikill hraði hefði verið hafður á málinu 1908, eins og nú er til stefnt, þá mundi þjóðin hafa ginið yfir uppkastinu, eins og lag yfir flugu, en af því að þjóðin hafði nægan tíma til þess að átta sig, þá fór sem fór. Sama mundi verða uppi á teningnum nú, því að ef fresturinn yrði nógu langur, segjum eitt ár, þá býst jeg við, að ¾ hlutar þjóðarinnar mundu greiða atkvæði á móti þessu frv. Mætti líka vel vera, að Danir áttuðu sig á því, að þeir hefðu um of gengið á rjett Íslendinga og alitu sjer það sæmdina meiri að gera bragarbót.

Þá ber og eins að gæta, að ekki er að vita, nema aðrar þjóðir krefjist þess að njóta sömu rjettinda hjer á Íslandi sem Danir, og stæðum vjer Íslendingar þá illa að vígi gagnvart slíkum kröfum.

Það er leiðinlegt, að háttv. þm. skuli ekki hafa nægan tíma til þess að athuga þetta mál alt saman gaumgæfilega, því að ekki efast jeg um, að þeir mundu sampykkja brtt. mínar, ef þeir gæfu sjer tíma til þess að grannskoða málið. Og þótt tíminn sje naumur til athugunar, vona jeg, að svo fast loði í mörgum hin gamla krafa, »Ísland fyrir Íslendinga«, að meiri hluti atkvæða samþykki þær.