02.09.1918
Efri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg býst varla við, að jeg hafi þolinmæði til þess að rekja öll þau orð sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir látið sjer um munn fara um frv., enda er margt af þeim staðleysuatafir. Það er ósköp hægt að setja út á þetta frv., því að við hefðum allir kosið að orða sumt öðruvísi, ef við hefðum átt einir öllu að ráða. En hjer var um samninga að ræða.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) reyndi til að gera þetta frv. óvinsælt með því að vitna til þeirra orða minna, að þetta hefði verið verslun. En þetta hlýtur hann að hafa sagt í spaugi, því að allir samningar eru í raun og veru verslun. Það mun því vel geta verið, að jeg sje ekki síður stórkaupmaður á rjettindi landsins heldur en stórsali.

Hann heldur því fram, hv. þm. (B. Sv.), að vjer hefðum getað fengið það, sem vjer vildum. En mjer verður á að spyrja: Hvernig stóð á því, að við gátum ekki fengið fánann? Ekki vantaði oss rjettinn. Nei, spurningin verður þessi: Hvernig getum vjer fengið það, sem haldið er fyrir oss með ofríki? Vjer verðum því að athuga, hvort það sje tilvinnandi að fá þetta, sem fengið er, gegn því að leggja eitthvað af mörkum, þangað til við getum tekið alt í vorar hendur. Var á þessum tíma rjett að ganga að svona löguðum samningi eða ekki? Það hefði verið rjettara af hv. þm. (B. Sv.) að verja sínum dýrmæta tíma til þess að sýna fram á, að það hafi verið heimskulegt og vond verslun, í staðinn fyrir að eyða svona mörgum orðum um það, sem allir vita.

Það var rjett, sem háttv. þm. (B. Sv.) sagði, að það, sem vjer fórum fram á 1909, var ekkert hámark, heldur að eins lágmark, og það er rjett, að tímarnir eru breyttir síðan, svo að vjer hefðum með rjettu mátt gera oss vonir um, að meiri kröfur hefðu gengið fram nú heldur en þá. Og það er líka meira fengið nú en þá, því að 1909 var að eins um að ræða málefnasamband, en hjer er að ræða um konungssamband eitt, og mótmæli hann því, ef hann þorir.

Þar sem háttv. þm. (B. Sv.) segir, að ekki hafi alt verið borið undir samþykki flokkanna áður en að því var gengið, þá mótmæli jeg því og lýsi það ósannindi, því að það var ekki nema um eitt mál, sem svo mætti um segja, en þó var það borið undir flokkana síðar. (B. Sv.; Þetta er ósatt). Jeg get leitt vitni að þessu (B. Sv.: Það get jeg líka).

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hjelt því fram, að Íslendingar hefðu ekki verið að sækjast eftir fullveldinu til þess að geta stært sig af því, heldur til þess að geta haft hag af því. Þetta er að nokkru leyti rjett, en þó er það enginn gróðahugur, sem rekur Íslendinga til þess að krefjast fullveldis, heldur sá karlmannshugur, að vilja vera sjálfum sjer ráðandi. En það er alveg rjett, að hver fullvalda þjóð þarf og að gæta hagsmuna sinna og nota auðsuppsprettur lands síns. Jeg hefi nýlega fengið upp í hendurnar rauða bók, sem fjallar um þær miljónir hestafla, sem fossar vorir hafa að geyma, og útlend fjelög ætla sjer að kasta eign sinni á og notfæra sjer. Það væri rangt af landinu að kasta slíkum auði frá sjer. En hvort verður betra að verja þessar auðsuppsprettur og önnur gæði með eða án samninganna? Nú skyldu það vera Danir eða danskir fjáreignamenn, sem tækju saman og ætluðu að starfrækja fossana, með erlendum lýð, sem mundi tortíma þjóðerni voru. Ef til þess kæmi, að vjer vildum setja lög til þess að hindra þá, ætli það gæti ekki komið fyrir, að þeim logum yrði neitað um staðfestingu, eins og fánafrv., ef svo stæði, sem verið hefir? En mjer er spurn: Hver getur neitað að staðfesta slík lög eftir að samningarnir eru komnir á og samþyktir?

Viðvíkjandi athugasemdum háttv. þm. (B. Sv.) við 6. gr., þá, er því að svara, að ekki er verið að veita nein ný rjettindi, því að borgararjett hafa Danir hjer nú, og er því að eins verið að staðfesta, að þeir fái að njóta sömu rjettinda um tiltekið árabil, sem þeir nú hafa. Mundu Danir því nota land vort hvort sem samningarnir eru feldir eða sampyktir. Hættan er því alveg sú sama, nema hvað nú er vopnlaus maður í veginum, en ef samningarnir komast á, þá mæta þeir vopnuðum manni; samningurinn færir oss því vopn til þess að verja oss með.

Þá varð jeg hissa, er jeg heyrði hv. þm. (B. Sv.) tala um hæstarjettinn. Það stendur í samningnum, að Íslendingar geti tekið hann heim til sín þegar þeir æski þess. (B. Sv.: Jeg tók það fram). Hvers vegna vill þá háttv. þm. (B. Sv.) vera að fella burt þetta ákvæði? Hvers vegna er hann þá að amast við því? Getur ekki hann og við allir komið fram með frv. á næsta þingi, sem mælir svo fyrir, að hæstarjettinn skuli flytja heim. (E. A.: Þm. getur komið með frv. þegar í dag).

Þá var háttv. þm. (B. Sv.) að tala eitthvað um sjermál, en það vil jeg láta hann vita, að þau eru ekki lengur til eftir að samningarnir eru samþyktir.

Þá mintist háttv. þm. (B. Sv.) og á, að þetta frv. væri hvöt fyrir Dani til þess að flytja inn í landið, til þess að aftra skilnaði eftir 25 ár. Hvernig getur háttv. þm. (B. Sv.) sagt þetta, eftir að Danir hafa viðurkent fullveldi vort.

Mundi það ekki miklu fremur hafa verið hvöt fyrir þá að flytja inn í landið nú þegar, til þess að aftra því, að þessir samningar næðu fram að ganga?

Af sambandslögunum stafar engin hætta, en mikilli hættu er afljett með þeim.

Það þótti mjer harla undarlegt, að háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) taldi eitthvað háskalegt við þetta orðalag á. 19. gr.: »Danmörk tilkynnir erlendum ríkjum, að hún samkvæmt efni þessara sambandslaga hafi viðurkent Ísland fullvalda ríki«. Í þessu er ekkert annað fólgið en skýring á samningnum sjálfum. Það er ekki svo, að hjer standi: »svo langt, sem þessi samningur nær«, eða eitthvað slíkt; það hefði verið hættulegt. En síst hefði mátt búast við því af jafnmerkum þm. hann teldi þá skýringu 19. greinar í samningnum, að þar væri Ísland viðurkent fullvalda ríki, hættulega.

Svo hugsar þm. (B. Sv.) sjer, að sambandsþjóð vor standi upp, þegar Ísland er búið að vera fullvalda ríki í 25 ár, ef vjer viljum þá slíta samningnum, og segi: »Nú tek jeg aftur yfirlýsinguna, sem jeg gaf fyrir aldarfjórðungi um, að Ísland væri fullvalda ríki«. Þetta er hlægileg hræðsla hjá þm. (B. Sv.). Hví gefa Danir nú þessa yfirlýsingu um fullveldi vort? Auðvita af því, að þeir samkvæmt 7. gr. sambandslaganna fara með utanríkismál Íslands í umboði þess. Svo ættu þeir eftir 25 ár að taka yfirlýsingu sína aftur, þegar þeir eru búnir að missa umboðið!

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir borið fram nokkrar brtt. Jeg verð að segja það um þær, að jeg hefði haft þær betri, ef jeg hefði komið með þær. (B. Sv.: Þær eru bornar fram til samkomulags við þingheim). En það er hætt við, að slíkt samkomulag náist ekki, og mun háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) aldrei hafa gert sjer von um það. Ef farið væri að gera breytingu á frv., mundi það leiða til þess, að frv. lenti í langvarandi hrakningum milli ríkjanna. Væri það stórhættulegt landi voru. Eitt aðaltakmark vort Íslendinga með þessum samningum er að girða fyrir, að Ísland geti vafist inn í heimsstyrjöldina miklu, er nú geisar. Ekki er langt síðan háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) var mjer samdóma um, að það væri svo langt frá, að Íslandi geti verið vörn að sambúðinni við Danmörku, eins og henni hefir verið háttað, að því miklu fremur stafaði af henni stórmikil hætta. En hví sjer hann ekki hættuna nú, þegar hún vofir yfir? Bandamenn hafa þegar rætt um það opinberlega að setja vígstöðvar sínar í Danmörku. Við það er jeg hræddastur, að Danmörk sogist inn í hringiðu ófriðarins fyrir 1. desember 1918. Það er því lítil björg að þeirri till. þm. (B Sv.), að sambandslögin gangi í gildi 1. des. 1920! Það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hjelt fram annarlegum skoðunum, sem jeg trúi varla að hann hafi. Hann taldi, að Íslandi stafaði engin hætta af því, þótt Danmörk lenti í ófriðnum, og nefndi því til sönunar, að Englendingar hafi í »Order in Council« í febrúar 1810 viðurkent hlutleysi Íslands og leyft siglingar hingað, en staðið þó í ófriði við Dani. Þetta er að vísu rjett, og er kunnugt, að sumir menn á Íslandi tóku þá að vona, að Englendingar mundu losa landið við þá óstjórn, er það átti þá við að búa. Ýmsir vitrir og framsýnir Englendingar munu þá hafa hugsað eitthvað líkt. En hvað varð? Skömmu síðar sviku Danir Napóleon og gerðust vinir Englendinga. Fanst þá Englendingum þeir þurfa að taka tillit til vina sinna, og hættu að hugsa um að hjálpa Íslendingum að losna við hina illu stjórn. Gæti háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) nú ekki hugsað sjer eitthvað líkt, að tillitið til einhverra mikilsverðari vina yrði sterkara hjá Englendingum en umhyggju fyrir Íslendingum?

Háttv. þm. N -Þ. (B. Sv.) talaði um skilnaðinn sem grýlu, sem afturhaldamenn væru vanir að koma með. Jeg er ekki hörundsár og læt mjer liggja í ljettu rúmi, hvað jeg er kallaður. Þar sem okkar leiðir hafa nú skilist og hann fer um mig hrakyrðum, vil jeg benda honum á, að jeg var ekki vanur að sækja vit eða þor í hann eða aðra, sem nú hafa frá mínum málstað skilist. Þeir ábyrgist sjálfir, hvort þeir hafa aldrei sótt vit og traust til mín. Jeg hefi eigi sagt, að þessir menn vildu skilnað, heldur að þeir eigi milli að velja ástandsins eins og það nú er og skilnaðar.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) kvað mig vera stórsala á rjettindi Íslands. En það er líka hægt að vera stórkaupmaður á rjettindi, og dæmi menn um, hvort jeg hafi heldur verið. Jeg hefi keypt viðurkenningu Dana á fullveldi voru og rjett til að fara með öll vor mál því verði, að Danir njóti um 25 ár að öllu leyti sama rjettar á Íslandi sem íslenskir ríkisborgarar fæddir þar. Sumir eru svo heimskir að halda, að danskir menn, hvar í heiminum sem þeir eru niður komnir, njóti samkvæmt þessu sama rjettar hjer og Íslendingar búsettir hjer heima. En þetta er hin mesta firra. Við Íslendingar höfum fullan rjett til að gera búsetu að skilyrði fyrir atvinnurjetti hjer á landi. Um langan tíma höfum við barist fyrir að fá búsetuskilyrðum þessum framgengt. En í móti hafa staðið selstöðukaupmennirnir dönsku. Nú þegar Ísland verður fullvalda ríki, er enginn þess máttugur að hindra það í að setja þau skilyrði fyrir rjettindum hjer í landi, er því gott þykir. Eru sambandslög þessi og full hvöt til að setja búsetuskilyrði fyrir atvinnurjetti, þar sem bandamenn vorir, Danir, hafa slíkt skilyrði í lögum hjá sjer.

Þá gerðist háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hjartnæmur og þótti illa til stofnað þessa máls, þar sem frv. væri svo úr garði gert, að deilur gætu af leitt síðar. Í þessum hugðnæma kafla ræðu hana virtist það aðalstefna hans að koma í veg fyrir deilur við Dani. Hann vildi gera garð þann, er væri granna sættir. Það hefir eigi verið mitt takmark, heldur hitt, að stilla svo til, að vjer Íslendingar stæðum betur að vígi, er deilur næst koma upp með oss og Dönum.

Sumir hafa talið það hættulegt, og þar á meðal háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að sambandslögin gengju í gildi áður en stjórnarskrárbreyting, er af þeim leiðir. En hver hætta er það fyrir oss Íslendinga? Látum svo heita, að Danir segðu: »Þið hafið brotið á okkur samninginn, þar sem öll atriði hans hafa ekki komið til framkvæmda l. des. 1918«. Látum svo heita, að þetta kæmi fyrir gerðardóm og dómurinn dæmdi Dönum rjett. Þá hefðu Danir rjett til að segja upp samningnum, og stæði þá ekki eftir annað en 1. grein sambandslaganna. Jeg fæ ekki skilið, að þetta geti verið svo ægilegt í augum háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og hans sinna. Hitt er sanni næst, að hann hefir ekki hugsað svo málið, að hann hafi sjeð, hversu þetta mundi skipast.