02.09.1918
Efri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Áður en jeg skil við þetta mál vil jeg geta þess, að aldrei hefi jeg haft svo mikið traust á sjálfum mjer, að jeg hefði ekki ekki löngun til að bera mig saman við mjer vitrari menn. Meðan á samningunum stóð var þess ekki kostur að bera sig saman við aðra. En eftir á vildi jeg fá prófstein fyrir því, hvort mjer gleptist ekki sýn í þessu máli. Varð mjer þá að leita til þeirra Ragnars Lundborgs og N. Gjelviks. Hafa þeir jafnan verið taldir óheimskir og velviljaðir okkur Íslendingum. Jeg var svo heppinn að ná tali af Gjelsvik, og taldi hann frv. mikinn sigur fyrir Íslendinga óðar en hann hafði lesið það. Hann er mikill vinur Íslands og hefir jafnan haldið fast á máli voru. Er hann og talinn með bestu fræðimönnum á Norðurlöndum. Taldi hann íslensku samningamennina hafa farið viturlega að ráði sínu er þeir gengu að samningunum, er þeir höfðu þokað Dönum svo langt sem mátti. Þennan prófstein taldi jeg mikilsverðan. Jeg þurfti ekki að óttast, að Gjelsvik væri samdauna þeim ágætu mönnum, er jeg hafði starfað með og samið við og hefðu getað vilt mjer sýn.

Annan prófstein hafði jeg kosið í þessu máli. Mjer var ekki óljúft, að nokkur mótspyrna kæmi fram hjer á landi móti frv. Vjer þurftum að kaupa við Dani, og mátti gjarnan líta svo út, að ekki væri öllum ljúft að kaupa um rjettindi vor. Nú hefir nokkur mótstaða orðið hjer í þinginu, þar sem einn af merkustu mönnum þingsins hefir nú hafið herskjöld móti frv. og hvergi hlífst við. Árásir hans hafa þó orðið með þeim hætti, að hann hefir ekki getað fært nein skynsamleg rök fyrir því, að frv. bæri að hafna. Má því telja víst, af því að þingmaðurinn (B. Sv.) er skýr maður, að engin stórlýti sjeu á smíð okkar. Hefir því þessi prófsteinn einnig orðið til þess að festa mig í þeirri trú, að frv. sje til hinna mestu þjóðheilla. Get jeg því lokið þessu máli með góðri samvisku.