07.09.1918
Neðri deild: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm, (Bjarni Jónsson):

Jeg skal ekki þrátta við háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) um þegnrjettinn í breska ríkinu, en að honum ólöstuðum og blaðinu Times mun jeg heldur hallast að því, er góður vísindamaður, eins og Ragnar Lundborg er, segir og lesið var upp fyrir skemstu.

En þar sem hann (B. Sv.) lauk máli sínu með því að segja, að ekki mundi til vera skaðlegri mistilteinn þjóðerni Íslendinga en þetta frv., ef það yrði samþykt, þá tel jeg það vera munu öfugmæli, því að ekki væri hægt að hnekkja Íslendingum með öðru meir en að fella þetta frv. Það lítur því ekki öðruvísi út en að snöggleg blinda hafi gripið háttv. þm. (B. Sv.) og að einhver hafi rjett að honum þann mistiltein, er hann svo ætlar að skjóta að þeim Baldri, er hjer er á ferðinni. En hann mun ekki hitta, því að ekki mun sá Loki, sem rjetti að háttv. þm. (B. Sv.) þennan mistiltein, vera jafnhnyttinn og sá Loki, er löngu er liðinn. Mun það vera gæfumunurinn, að Íslendingar samþykki frv. þetta og Ísland hljóti blessun af.