07.09.1918
Efri deild: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Forsætisráðherra (J. M.):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er stjórnarfrv., og hefir það verið samþykt í hv. Nd., nærfelt í einu hljóði. Frv. þetta er orði til orðs samhljóða frv. því, er samningamenn Alþingis og Ríkisþingsins komu sjer saman um og ráðuneytis hefir fallist á.

Mjer finst ekki ástæða til þess að fara út í einstök atriði frv.; athugasemdir þær, er fylgja frv. og áliti fullveldisnefadarinnar, sýna greinilega, hvað felst í frv., og jeg býst ekki heldur við, að hv. þingmenn finni ástæðu til að ræða þessi atriði nú við 1. umr.

Það hefir verið fundið að því, að málinu væri hraðað með atbrigðum frá þingsköpum. Mjer finst það vera misskilningur að finna að þessu, því að Alþingi hefir lengi haft mál þetta til meðferðar og athugunar, og á síðasta þingi var frv. þetta samþykt á þingmannafundi með 38 atkv., en 2 þm. greiddu ekki atkv. Það hefir því verið nægur tími til umhugsunar fyrir Alþingi, og þarf því að eina að gæta þess, að nefndin hafi nægan tíma til þess að semja og koma fram með álit sitt, og svo var hjer.

Háttv. þm. hafa haft umhugsunartíma um þetta frv. að minsta kosti síðan 18. júlí, svo að það er meira en sex vikna umhugsunartími, og ætti það að vera nóg fyrir háttv. þm. Og eigi hefir það heldur mikla þýðingu að ræða málið hjer mikið; það eru tiltölulega fáir af þjóðinni, sem hafa tækifæri til að hlusta á þingræður, og því hefir það ekki áhrif á atkvæðagreiðslu þjóðarinnar, hvort málið er rætt hjer mikið eða lítið, og niðurstaða háttv. þm. um frv. verður hin sama, hvort ræðurnar eru margar eða fáar.

Og þar sem niðurstaða málsins er vís, er engin ástæða til að finna að því, þótt málinu sje hraðað.