07.09.1918
Efri deild: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. meiri hl. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg skal vera stuttorður. Það mun vera almennur vilji hv. þingmanna, að 3. umr. um málið verði einnig lokið í kvöld, og skal jeg gera mitt til, að svo geti orðið, enda er meiri hlutanum það ekkert kappsmál að draga umr. um málið.

En fáeinum orðum verð jeg þó að fara um ræðu háttv. frsm. minni hl. (M. T.).

Hann kveðst hafa farið með löndum í andmælum sínum og brtt., og er nokkuð hæft í því. Hann hefir ekki farið nærri eins langt og eða háttv. þm. (B. Sv.), sem fyrir andmælum var í háttv. Nd. En þó tel jeg hjer of langt farið í einstökum atriðum.

Hann (M. T.) kvaðst leggja aðaláhersluna á brtt. sína við 6. gr. frv., enda er það mergurinn málsins hjá honum.

En nú veltur alt á því, hvort rjettur er skilningur hana eða allra annara. En ekki fanst mjer honum takast að færa rök fyrir því, að skilningur hans sje rjettur, og mig sannfærði hann ekki.

Hann (M. T.) sagðist ekki sjá það, að Íslendingar fengju neinn sjerstakan fæðingjarjett, heldur sameiginlegan með Dönum.

En það er þó skýrt tekið fram í 6. gr. frv. og í aths. samninganefndanna við hana, að hvort ríki hafi sjerstakan ríkisborgararjett. Og 6. gr. talar um bæði danska og íslenska ríkisborgara.

Ef ekki væri nema einn ríkisborgararjettur, þá væru ekki heldur til nema dansk-íslenskir ríkisborgarar. Og í athugasemdunum við 6. gr. er lögð áhersla á, að ríkisborgararjettindin sjeu gagnkvæm.

Á þessu atriði getur því enginn vafi leikið.

Jeg skal játa það, að nokkur munur er á, hvort orðin »á Íslandi« standa á undan orðinu »njóta« í frv. eða ekki.

En þó er sá munur ekki svo mikill, að rjettlætt geti skilning háttv. þm. (M. T.), enda er með skilningi hans, að búsetuskilyrðin sjeu þurkuð út, alt of langt gengið.

Það leiðir af orðalagi öllu, að Danir sæta sömu kostum og Íslendingar. En ef búsetuskilyrðin væri þurkað út, gætu Danir t. d. komið hingað til kosninga og Íslendingar einnig farið til Danmerkur og greitt atkv. þar.

En jeg tel þó vafasamt, hvort háttv. þm. (M. T.) vogar sjer að fylgja sínum eigin skilningi svo langt.

Háttv. minni hlutinn misskilur orðið »jafnrjetti«. Kemur það fram í nál. hans á bls. 3 í þessum orðum:

»Frekari skilyrði fyrir rjettindanautn en Danir setja hjá sjer er oss bannað að setja þeim hjer á landi samkvæmt skýlausum fyrirvara þeirra við 6. gr.«

En í aths. við 6. gr. stendur ekki annað en það, að Danir og Íslendingar njóti gagnkvæms jafnrjettis. En það þýðir það, að Danir á Íslandi njóti sama rjettar og Íslendingar á Íslandi, og Íslendingar í Danmörku sama rjettar og Danir í Danmörku, en alls ekki hitt, að Danir á Íslandi njóti sama rjettar og íslendingar í Danmörku, og gagnkvæmt.

Það er því ekki rjett, að þurft hefði í aths. að slá varnagla við þessu ákvæði með ákvæði um búsetuskilyrði.

Þá gerði háttv. þm. (M. T.) mikið úr því, að breyta þyrfti 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 12, 19. júní 1915. En hann virðist ekki skilja, hvers vegna sú breyting þarf að fara fram.

En samkvæmt því ákvæði eiga Íslendingar, sem fæddir eru hjer, atkvæðarrjett, ef þeir hafa dvalið hjer eitt ár. En Danir þyrftu að hafa dvalið hjer 5 ár til þess. Þetta er því ekki jafnrjetti. Það er eins auðsjeð eins og að munurinn á árafjöldanum 5 og 1 er 4.

En þessu þarf ekki að breyta þannig, að sett verði inn það ákvæði, að Danir þurfi ekki að dvelja hjer nema eitt ár til þess að fá atkvæðisrjett.

Það má eins hafa ákvæðið svo, að Íslendingar verði að hafa verið búsettir hjer 5 ár samfleytt til þess að geta neytt atkvæðisrjettar síns. Því skilyrði mundu Danir þá einnig verða að hlíta.

Í háttv. Nd. var látið í veðri vaka af háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að breyta þyrfti fjölda laga til að samrýma þau samningnum. Jeg man þó ekki eftir einu einasta ákvæði, að þessu undanskildu, sem breyta þurfi, og hefi jeg þó athugað mál þetta allítarlega. (M. T.: Jú, fossalögunum). Fossalögunum þarf einmitt ekki að breyta eftir rjettum skilningi á frv. Öðru máli er að gegna, ef skilningur háttv. þm. (M. T.) væri rjettur, því að fossaeign er af gildum ástæðum engum skilyrðum bundin í Danmörku. En hversu mikið mundu Danir þá ekki þurfa að nema úr lögum hjá sjer, ef farið væri eftir skilningi háttv. minni hl. (M. T.).

Þá yrði að nema burt öll ákvæði, sem banna öllum öðrum en búsettum mönnum verslun og atvinnu í landinu.

Þeir, sem hafa próf hjeðan, myndu þá hafa jafnan rjett til embætta þar og þeir, sem hafa próf þaðan.

Jeg býst við, að Danir myndu pakka fyrir slíkt og fleira, sem af þessum skilningi leiðir.

En eins og jeg hefi áður tekið fram, þá ber ákvæðið um fiskiveiðarjettinn vott þess, að minn skilningur sje rjettur. Það væri beinlínis villandi að hafa það ákvæði, ef skilningur háttv. minni hl. (M. T.) væri rjettur.

En það, sem háttv. frsm. minni hl. (M. T.) sagði um stjórnarskrána, að hún hljóðaði um sjermál, og þar sem við værum neyddir til að nema burt ákvæði úr henni, þá mundum við eins neyðast til að nema burt ákvæði úr öðrum lögum, það fellur um sjálft sig, þar sem þetta er eina lagaákvæði, sem nema þarf burt eða breyta, og skora jeg á háttv. þm. (M. T.) að benda á önnur eða fleiri, ef hann getur.

Þá fór hann (M. T.) mörgum orðum um meðferð málsins í fullveldisnefnd, og gerði að mínu áliti fullmikið að því að skýra frá, hvað gerðist á fundum þar. Það þykir nefnilega ekki eiga við að fara langt út í þá sálma að segja úr nefndum.

Skal jeg því ekki lengja umræður um það, og sömuleiðis mun jeg algerlega leiða hjá mjer ummæli hans um hæstv. fjármálaráðherra.

Yfirleitt var allur fyrri hluti ræðu hans ekki stílaður til mín, heldur almenns efnis. En jeg get ekki sjeð að það hafi neina þýðingu fyrir málið, hvernig það hefir fengið búning þann, sem það er í nú; hitt er aðalatriðið, hvernig sá búningur er.

Jeg spurði háttv. þm. (M. T.), á hverju hann bygði þau ummæli, að bestu menn Dana væru komnir á þá skoðun, að við værum fullvalda í konungssambandi einu við Dani.

Hafa sjálfsagt allir heyrt svarið, að það er bygt á orðum hana hátignar Friðriks konungs VIII á Kolviðarhóli — Mine begge to Riger —.

Skal jeg ekki fara frekar út í það atriði. En veigamikil geta rökin ekki talist, og sje margt annað í nál. hans á líkum rökum bygt, þá verð jeg að segja það, að ekki er sem traustastur grundvöllurinn.

Háttv. þm. (M. T.) sagði, að það væri algengt, að ríki takmörkuðu umráðarjett sinn yfir ýmsum málum, ef þau sæju sína hagsmuni við það. En slíkt er einmitt verið að gera hjer.

Það, sem veitt er í 6. gr. frv., er veitt gegn samskonar rjetti í Danmörku og gegn viðurkenningu þess, að við sjeum fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku.

Álitum við það tilvinnandi og meira en það. Þetta, er því gert í hagsmunaskyni voru, því að það er ekki nóg að segjast hafa rjettinn, ef hann er ekki viðurkendur. Viðurkenningin getur jafnvel verið meira virði en rjetturinn sjálfur, einkum ef sá, er heldur rjettinum, er ofjarl hina, er rjettar síns leitar. Og þá fyrst er hægt að neyta rjettarins, þegar hann er viðurkendur.

Háttv. þm. (M. T.) sagði, að það væri óhugsandi, að samninganefndin hefði ekki tekið það fram í athugasemdunum við 6. gr., ef hana bæri að skilja eins og jeg hefi gert, þar sem hann hefði þegar bent á, að skilja mætti hana öðruvísi.

En þar til er því að svara, að meiri hl. gat alls ekki skilið greinina eina og háttv. minni hl. (M. T.) gerir, og í athugasemdum eins frv. er ekki hægt að gera ráð fyrir öllum hugsanlegum lagaskýringum, allra síst jafnfáránlegum og þessari, eða viðeigandi að fara að hrekja þær fyrirfram.

Þá sagði háttv. þm. (M. T.), að jeg hefði talað um það, að stuðningur hins andlega sambands Íslands og Danmerkur væri meir í þágu Íslendinga en Dana. Það voru ekki mín orð. En jeg benti á, að það er fleira, sem á að verja vöxtum sjóðsins til, meðal annars til þess að efla íslenskar vísindarannsóknir og styrkja íslenska námsmenn. Og það vona jeg að sje frekar í þágu Íslendinga en Dana.

Háttv. þm. (M. T.) sagði út af ummælum mínum um það, sem stendur í nál. hans á bls. 3, »að önnur ríki muni sennilega krefjast að fá, eigi verri rjett hjer á landi en Danir« — að það væri gott fyrir okkur að eiga skjól í því, að hafa aldrei veitt Dönum þann rjett; þá mundu aðrar þjóðir ekki heldur ásælast hann. En samkvæmt þessari kenningu ættum við að sækjast eftir því að vera óaðskiljanlegur hluti Danaveldis um aldur og æfi, með öðrum orðum, halda fast við stöðulagakenninguna gömlu.

Jeg skil þó ekki, að háttv. minni hl. (M. T.) vilji í raun og veru leggjast á móti því, að við losnum við stöðulagakenninguna og göngum í hreint konungssamband við Danmörku. En um leið verðum við auðvitað að taka á okkur alt, sem því er samfara, meðal annars það, að verjast áleitni annara þjóða.

Þá mintist háttv. þm. (M. T.) á leppmenskuna. Get jeg ekki sjeð, að frv. auki danska leppmensku hjer, þar sem það veitir Dönum í engu meiri rjett hjer en þeir njóta nú.

Þá sagði háttv. þm. (M. T.), að taka yrði tillit til þess, að Garðstyrkurinn væri hærri nú en áður vegna verðfalls peninga, en þess ber að gæta, að líklegt er, að hann yrði lækkaður aftur, ef peningar hækkuðu í verði.

Þá talar hann (M. T.) í nál. sínu um nefnd þá., sem getur um í 16. gr., og kallar hana lögjöfnunarnefnd. En rjettu nafni heitir hún ráðgjafarnefnd.

Hefir nú verið sýnt fram á, að sú nefnd muni verða aðgerðalítill, enda höfum við ekki sóst eftir að hafa hana, heldur voru það Danir, sem það gerðu.

En við sáum ekki, að hún gæti orðið til neins tjóns, þar sem það mun verða á valdi þingsins, hve mikil áhrif hennar verða.

Jeg held því fram enn, að aðferðin við samningsslit eru alveg á okkar valdi. Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að stjórnarskráin ákvæði, að atkvæðagreiðslan skyldi vera leynileg. Það er rjett, að nú er svo ákveðið í stjórnarskránni. En stjórnarskráin er okkar mál, og það er á okkar valdi að ákveða, hvernig því skuli hagað eftirleiðis. Um það hafa Danir ekkert að segja.

Háttv. þm. (M. T.) sagði, að landið myndi þykja æ fýsilegra, eftir því sem tímar liðu fram, í augum útlendinga, og að miklum fjárstraumi myndi veitt inn í landið. Jeg óska og vona, að hann reynist sannspár. Jeg óska og vona, að landið verði því fýsilegra, sem tímar liðu fram. Vjer höfum nú nógu lengi orðið að sæta fjárskorti í landinu, sem staðið hefir framförum öllum fyrir þrifum. Svo að það er ekki ægilegt í mínum augum, þótt þetta breyttist og farið yrði að nota þær auðsuppsprettur, sem landið á, og legið hafa ónotaðar hingað til. Og jeg vona, að þjóð og þing og stjórn hafi bæði vit, vilja og þrek til að reisa skorður við því, að oss stafi nein hætta af því, sem háttv. minni hl. (M. T.) spáir, og vafalaust báðir óska að verði.

Háttv. frsm. minni hl. (M. T.) talaði um, að það væri rjett, að samningar væru gerðir á sama hátt og þeim ætti að slíta. Til þess finst mjer ekki ástæða. Það er ekkert öðruvísi um þennan samning en aðra, og þeir eru venjulega gerðir öðruvísi en þeim er slitið.

Jeg tók það fram og tek það fram enn, að út af fyrir sig gæti meiri hl. vel felt sig við brtt. minni hl. (M. T.) og vildi gjarnan kjósa, að þær næðu fram að ganga, en eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, getum vjer eigi gert breytingar á neinu atriði samninganna nema eiga það á hættu, að allur árangur af þessum samningum fari í mola. Því get jeg ekki greitt atkvæði með þessum brtt. og jeg býst ekki við, að aðrir háttv. deildarmenn sjái sjer það fært.