07.09.1918
Efri deild: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. meiri hl. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg skal að eins lýsa yfir því, að jeg þykist ekki þurfa að svara síðustu ræðu háttv. frsm. minni hl. (M. T.). Hann talaði svo hóglega, sem hann hefir altaf gert í þessum umræðum. Það gleður mig, að hann hefir ekki haldið fram sem óyggjandi skilningi sínum á 6. gr., því að þá geta þeir menn í Danmörku, sem vilja halda fram þeim skilningi, ekki bygt á óyggjandi fullyrðingum svo mikilsmetins þingmanns, sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.)

Jeg skal geta þess, að mjer þykir mjög óviðfeldið þetta orð »gagnkvæmt«, sem þýðing á »omvendt«, en hjer er það þó alveg sömu þýðingar.

Það er misskilningur háttv. þm. Ísaf. (M. T.), að jafnrjettið eigi að vera »uniformt«. Þetta jafnrjetti segir ekki annað en það, að Danir á Íslandi eigi að njóta sama rjettar á Íslandi og innfæddir Íslendingar þar, en alls ekki, að Danir eigi að njóta sama rjettar á Íslandi og Íslendingar í Danmörku.

Þá gat háttv. þm. (M. T.) þess, að ástæða væri til að fresta 3. umr. þessa máls, til þess að fá þær upplýsingar, er hann nefndi, því að það gæti haft þau áhrif, að frv. gæti orðið samþykt af allri Ed. En jeg vildi benda á það, að þar sem málinu hefir nú verið ráðið til lykta í háttv. Nd. og síminn enn í ólagi og engin trygging fyrir, að hann komist bráðlega í lag, þá býst jeg við, að það sje varhugavert að fresta umræðunni, ef þingið fær engin önnur mál til meðferðar.