07.09.1918
Efri deild: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Kristinn Daníelsson:

Jeg hafði að vísu ekki hugsað mjer að biðja mjer hljóðs, að minsta kosti ekki við þessa umr. málsins. Athugasemdir þær, sem jeg hafði hugsað mjer að gera, hefðu einna helst átt við 3. umr. En þar sem hjer liggja nú fyrir brtt , sem gengið verður til atkvæða um og ráðið til fullnaðarúrslita, þá, þótti mjer rjett að segja það nú, að þótt jeg sjái mjer ekki fært að greiða atkv. með þeim, vil jeg þó láta þeim fylgja þá viðurkenningu, að með þeim er farið fram á að bæta úr því, sem að mínu áliti getur helst talist ljóður á frv., þótt sá ljóður sje ekki svo mikill, að hann fái mig eða aðra háttv. þm. til að leggjast á móti frv. En jeg skal játa, að væri svo hjer, að hægt væri að ræða um breytingar, mundi jeg yfirleitt geta felt mig vel við þessar brtt. En jeg lít svo á, að þess sje enginn kostur. Þetta þing hefir þegar gengið svo frá málinu. En að öðrum kosti gátu þær vel komið til mála, og jeg skil fyllilega þá góðu meiningu, sem í þeim felst. En hins skal jeg geta, að brtt. þessar eru mjög misjafnar að gæðum.

Sjerstaklega hefði jeg talið brtt. við 6. gr. sjálfsagða bót, ef hún hefði getað komið til mála.

Aftur er það svo um hinar aðrar brtt., að jeg legg ekki mikið upp úr þeim, þótt þær sjeu allgóðar. Sjerstaklega get jeg ekki sjeð ástæðu til brtt. við 16. gr. Nefndarskipunina, sem þar ræðir um, tel jeg lítt nauðsynlega, en hefi aldrei getað skilið, að það atriði hefði nokkra aðalþýðingu í þessu máli.

Um atkvæðatöluna skal jeg játa það, að jeg gæti vel felt mig við, að hlutfallið væri lækkað nokkuð, en þó hefi jeg í huga mjer gert þannig upp, að þetta væri nokkurn veginn tryggilegt ákvæði, því að jeg hugsa mjer, að mjög vandlega væri frá því gengið, að allir kjósendur landsins ættu kost á að greiða atkvæði. Vil jeg í því sambandi geta þess, að jeg hefði talið það vel við eigandi, að þetta þing skildist ekki án þess, að ákveðið væri, hvernig atkvæðagreiðslan skyldi fara fram um þetta mál. Eins og háttv. þingmönnum er kunnugt, er í stjórnarskránni ekkert um það talað, nema að eins það, að atkvæðagreiðslan skuli vera leynileg. Vildi jeg nota tækifærið til þess að minna háttv. þingdm. að þetta, ef þeir væru sama hugar og jeg.

Enn fremur skal jeg játa, að jeg hefði betur kunnað við, eins og 4. brtt. fer fram á, að Ísland væri í íslenska textanum nefnt á undan. En skiljanlega er slíkt ekki nema formsatriði og getur hjeðan af ekki ráðið neinu af eða til um úrslit málsins.

Aftur býst jeg varla við, að jeg hefði greitt 5. brtt. atkvæði mitt, því að hún fer fram a, að frv. gangi ekki í gildi fyr en 1920. Með öðrum orðum, uppfyllingu allra þessara vona vorra á að fresta til 1920. Get jeg ekki farið nánar út í það, en frá mjer að sjá er það ekki aðgengileg breyting.

Jeg vildi gera þessar fáu athugasemdir áður en greidd væru atkvæði um brtt., svo að háttv. deild sje kunnugt, að þótt jeg muni greiða atkvæði móti þeim, þá eru þær í sjálfu sjer ekki allar móti skapi mínu. En frá mjer sjeð gæti hv. flutnm. (M. T.) tekið brtt. sínar aftur, því að mjer virðist svo, sem með því að koma fram með þær sje unnið það sama eins og þótt þær væru lagðar undir örlög sín hjer í deildinni, því að með því að bera þær fram hefir háttv. minni hl. (M. T.) fært í stíl þær breytingar, er honum þóttu þurfa til þess að gera frv. aðgengilegra.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira.