07.09.1918
Efri deild: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Jeg þarf eigi að segja nema örfá orð, því að óþarft er að svara háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.). En það var eitt atriði, sem jeg gleymdi, en jeg vildi taka fram. Það var út af þessu, sem sagt var á Kolviðarhóli. Jeg hefi altaf lagt mikið upp úr þeim orðum, því þótt ef til vill sjeu einhverjar ástæður til að gera það ekki, þá hefir mjer aldrei dottið annað í hug en að þessi orð hafi verið töluð með ráði bestu stjórnmálamanna Dana, og að þessi viðurkenning hefir legið í loftinu hjá þeim, það sjáum við best á frv. því, sem hjer liggur fyrir.

Til þess að spara öðrum að taka til máls, þá skal jeg taka það fram, í tilefni af ummælum háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) um þjóðaratkvæðið, að jeg veit ekki betur en að þegar hafi verið gerðar ráðstafanir um, hvernig það skuli fara fram, og hygg jeg, að þær sjeu nú komnar til fullveldisnefndar.

Jeg þarf ekki að svara háttv. 2. þm. G.-K. (K D.); jeg get miklu fremur þakkað honum, hversu hlýlega hann tók undir till. mínar, en þar sem hann hefir óskað þess, að jeg taki till. mínar aftur, og þar sem jeg er þess viss, samkvæmt ummælum háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.), að þær muni ekki fá neitt atkv., nema mitt, þá get jeg látið mjer nægja að þær eru fram komnar, til þess að sýna afstöðu mína í málinu, og tek jeg því till. aftur.