02.09.1918
Neðri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Einar Arnórsson:

Jeg er ekkert hissa á því, þótt þeir, sem óánægðir eru með frv., vilji fá ráðrúm til að ræða það í næði á þinginu. Tel jeg sjálfsagt að veita þeim þessa ósk þeirra.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hjelt því fram, að slík aðferð væri höfð við þetta sambandslagafrv. þeirri, sem höfð hefði verið um frv. frá 1908. Þá hafi atkvæðisbærum mönnum verið gefinn nægur tími til athugunar. Jeg er sammála honum um það, að 1908 var veittur nægur frestur til athugunar fyrir kosningar, enda þótt kveðið hafi við annan tón í sumum blöðunum þá. Var þá talið aðfinsluvert, hve málinu væri flýtt, þar sem mönnum væri ætlað að kynna sjer það þá, um sumarið um hábjargræðistímann.

Nú vil jeg benda háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) á, að ekki er stór munur á þeim tíma, sem mönnum var veittur til umhugsunar 1908, og þeim, sem nú er veittur. Frv. 1908 mun hafa verið birt skömmu eftir miðjan maí. — 14. maí eru gerðir nefndarinnar dagsettar í Kaupmannahöfn. Seint í maí eða fyrst í júní munu athugasemdirnar við frv. hafa komið heim, en 10. sept. fóru kosningar fram. Kjósendur hafa því haft rúmlega þriggja mánaða umhugsunartíma.

En hvernig er nú?

Ágúst, september og október hafa kjósendur til umhugsunar, og sá er munurinn, sem ekki er gerandi lítið úr, að minst af tímanum kemur á hábjargræðistímann. Það verður því mjótt á mununum. Það stoðar ekki að svara því, að 1908 hafi að eins átt að kjósa þingmenn, en ekki að ráða sambandsmálinu til lykta, því að í raun og veru var verið að ráða því til lykta, þar sem þingmannakosningarnar voru nær eingöngu miðaðar við það mál.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) mintist á, að 1908 hafi allar fundargerðir samninganefndarinnar og till., sem fram höfðu komið, verið birtar, en nú hefðu þau plögg fyrir einkis manns augu komið. Jeg get tekið undir með háttv. þm. Dala. (B. J.), að mjer er ekkert á móti skapi, að öll málsskjölin verði birt. Annars er mjer ókunnugt um, hvort nokkur ályktun hefir verið gerð um þetta efni af landsstjórninni eða af formönnum nefndanna.

Hæstv. forsætisráðh. og hv. þm. Dala. (B. J.) hafa svarað ýmsu af því, sem hv. þm. N-Þ. (B. Sv.) fann frv. til foráttu. Jeg mun þó víkja nánar að nokkrum atriðum.

Þeir, sem andstæðir eru frv. munu hugsa sjer þá leið heppilegasta til að koma, því fyrir kattarnef, að láta í veðri vaka, að það sje síst betra en frv. frá 1908. Það frv. var felt á þingi 1909. Afdrif þess voru í samræmi við þingkosningarnar 1908, sem áttu að birta skoðanir meiri hluta þjóðarinnar. Jeg get ekki hugsað mjer betri leið til að fella þetta frv. en þá, ef hægt væri að sýna með rökum fram á, að það sje lakara en það, sem í boði var 1908 og meiri hluti þingsins 1909 hafnaði. Þeir, sem voru óánægðir 1908, mundu þá auðvitað eigi síður verða óánægðir með þetta frv. En þar að auki mundu margir, sem þá (1908) vildu taka frv. 1908, vera ánægðir nú, því að kröfur margra í sambandsmálinu hafa vaxið síðan að miklum mun.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) bar lítils háttar saman frv. frá 1908 og frv. frá, 1918, en gerði það ekki nærri eins rækilega og þurfti til að sýna meginmuninn og eina mun á einstökum atriðum.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) kvað frv. fra, 1918 að sumu leyti skárra og að sumu leyti verra en frv. frá 1908, og var það ljóst af ræðu hans, að hann áleit frv. frá 1918 talsvert verra, þegar á alt væri litið. Virtist hann leggja mesta áherslu á 6. gr. frv. 1918. Nú ætla jeg að leyfa mjer að gera ítarlegri grein fyrir mismuninum á frumvörpunum en gerð hefir verið.

Skal jeg byrja á sjálfri fyrirsögninni. Fyrirsögn frv. 1908 hljóðað svo: »Frv. til laga um ríkisrjettarsamband Danmerkur og Íslands«. Í þessari fyrirsögn liggur, að að eins sje um eitt ríki að velja. Annað mál er hitt, hvort þessi fyrirsögn sje rjett eða hvort hun sje »fölsk etiketta«, en út í það þarf ekki að fara. Í frv. 1918 er aftur á móti ekki að tala um ríkisrjettarsamband, heldur um Samband milli tveggja málsaðilja, tveggja ríkja, og inniheldur samningurinn sameiginlegan vilja þeirra beggja.

Vil jeg nú bera saman 1. gr. frv. 1908 og 1. gr. frv. 1918 og sjá, hvort ekki sje einhver mismunur. Skal jeg lesa danska textann af frv. 1908, því að það orkaði tvímælis, hvort hann væri rjett þýddur á íslensku. 1. gr. hljóðaði þá svo:

»Island« er et frit og selvstændigt, uafhændeligt Land, forbundet med Danmark ved fælles Konge og ved de fælles Anliggender, som efter gensidig Overenskomst fastsættes i denne Lov, og danner saaledes sammen med Danmark en Statsforbindelse, det samlede danske Rige.

I Kongens Titel optages efter Ordene: »Konge til Danmark« Ordene: »Og Island«.

Jeg ætla ekki að fara út í þá misklíð, sem þetta orðalag vakti á sinni tíð, og þó skal jeg játa, að enginn einn skilningur á því er sjálfsagður. En 1. gr. í frv. 1918 verður ekki skilin nema á einn hátt. Þar get jeg lesið íslenska textann, því að enginn hefir talið ósamræmi milli textanna. Greinin hljóðar svo:

»Danmörk og Island eru frjáls og fullvalda ríki, í sambandi um einn og sama konung og um samning þann, er felst í þessum sambandslögum. Nöfn beggja ríkjanna eru tekin í heiti konungs«.

Það er skýrt, að bæði þessi lönd eru frjáls og fullvalda ríki. Hjer er ekki að ræða um neitt »samlede danske Rige«. Ef menn leggja nokkuð upp úr skýrum og glöggum texta, þá þarf ekki að færa rök fyrir, að frv. 1913 er mun betra að því leyti. Þar sem hjer er talað um samband milli tveggja frjálsra og fullvalda ríkja, er hjer um þjóðasamband að ræða.

Í umræðunum í dag hefir komið fram þetta ónákvæma orðalag: »skerðing fullveldis«; orðalag þetta er sjálfsmótsögn. Annaðhvort er maður lifandi eða dauður; annaðhvort er um fullveldi að ræða eða ekki. Hitt er annað mál, og við það hefir líklega verið átt, að fullvalda ríki getur gengist undir samning, sem því er óhagfeldur.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) drap á konungsmötu og borðfje ættmanna konungs. Í frv. 1908 var það sameiginlegt mál, en eftir frv. 1918 setur hvort ríki fyrir sig ákvæði um greiðslu þess fjár. En þetta atriði skiftir ekki miklu máli.

Þá kem jeg að utanríkismálunum. Eftir frv. 1908 skyldu þau vera sameiginleg, og náðu uppsagnarákvæði 9. gr. ekki til þeirra. Eftir 7. gr. í samningunum 1918 fer Danmörk með utanríkismálin í umboði Íslands, og hlíta öll ákvæði 7. gr. uppsagnarákvæðunum í 18. gr. 25 ára frestinum. Töluvert öðruvísi er og um búið meðan uppsagnarfresturinn er að líða. Í frv. 1908 stendur t. d. um ríkjasamninga, sem Danmörk gerir, að þeir verði ekki gerðir gildandi á Íslandi, ef þeir snerta sjerstaklega Ísland, án íhlutunar (Medvirkning, þýtt samþykki í íslenska textanum) íslenskra stjórnarvalda.

Í frv. 1918 er beint tekið fram, að samningar, er snerta Ísland og Danmörk, skuldbindi ekki Ísland »nema samþykki rjettra íslenskra stjórnarvalda komi til«. Er betra að hafa orðið »samþykki« en orðið »Medvirkning« sem getur orkað tvímælis. Auk þess eru það ýms atriði í 7. gr. frv. 1918, sem fara lengra. Jeg legg töluvert upp úr því, að við getum haft trúnaðarmann í utanríkisstjórnarráðinu í Höfn, sem getur vakið athygli á, hvað gera skuli og hvað látið ógert. Gæti hann og haft beinan aðgang að konungi vorum, ef á þyrfti að halda. Þetta er mikilsvert atriði, og væri ástæða til fyrir þingið að taka það til yfirvegunar í samráði við stjórnina. Einhvern tíma hefði og þótt þörf á að senda sendikonsúla til landa og borga, þar sem gæta þarf íslenskra hagsmuna, en danskir hagsmunir eru ekki svo ríkir, að Dönum hafi þótt vert að senda þangað konsúla. Mætti nefna ýmsar borgir á Spáni og Ítalíu. Reyndar hefir verið talað um, að nokkur skortur sje hjer á mönnum, er hafi »diplomatiska« mentun. En ef laglega væri að farið, hygg jeg, að sambandsfrv. nýja gefi íslensku þjóðinni tækifæri til að ala sjer upp menn í slíkar stöður.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) drap á, að hermál væru engin sameiginleg. Er hlutleysi vort svo vel trygt í frv. 1918, sem hægt er með lögum, því að enginn getur gert við því, þó að hlutleysi sje brotið í ófriði. Er það ofbeldisverk, sem engin skrifuð skjöl geta fyrirbygt. En eftir frv. 1908 eru hermal sameiginleg, og uppsagnarakvæði frv. náðu alls eigi til þeirra mála.

Fæðingjarjetturinn var sameiginlegur í 37 ár eftir frv. 1908, en nú er hann strax aðskilinn að lögum og þjóðrjettarlega, eins og dr.jur. Knud Berlin hefir rjettilega tekið fram í blaðinu »Köbenhavn«. Hann er aðskilinn bæði í »teori« og »praxis«. Því getur hvort ríkið í sambandinu, Ísland og Danmörk, sett reglur um hann, hvernig hann er veittur, hvernig hann missist o. s. frv. En aftur hefir gagnkvæmi rjetturinn, sem 6. gr. hefir að geyma, orðið að ásteytingarsteini, en jeg get orðið stuttorður um það, því að hæstv. forsætisráðh. og háttv. þm. Dala. (B. J.) hafa tekið fram flest af því, er jeg vildi mælt hafa um það.

Jeg vík því í þess stað að 18. gr., en þó í sambandi við þetta, og að rjettindaveislunum, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gerði töluvert úr. Jeg lít öðruvísi á það, því að ef frv. þetta yrði felt, þá mundu Danir áfram hafa þau rjettindi hjer, sem þeir hafa haft að lögum, svo að mismunurinn yrði ekki mjög mikill, þegar til framkvæmda kæmi. Fyrir meiri hættu en nú er yrðum við ekki eftir frv. 1918, heldur miklu minni. Það er hægt að segja skorður við því, að við yrðum fyrir ágangi af Dana hálfu. Það er alkunna, að Alþingi hefir lengi barist fyrir lögum um búsetu fastra kaupmanna, og um eitt skeið var það höfuðmál þingsins. En það náði aldrei fram að ganga, vegna þess, að Danir sögðu, að það bryti í bága við jafnrjetti þegnanna. En eftir þessu frv. er það auðskilið, að Danir yrðu að sætta sig við þau ákvæði í atvinnulöggjöf vorri, sem gengju jafnt yfir Dani og Íslendinga. Ef það yrði sett í lög, að sá, sem verslar hjer á landi, yrði að vera búsettur hjer, þá er það sjálfgefið, að Danir verða að lúta því, og hjá þeim er það svo eftir lögunum frá 1857, að sá, sem vill reka þar atvinnu eða fái borgarabrjef, fær það ekki fyr en hann hefir dvalið 5 ár í Danmörku, og samskonar skilyrði gætum við sett hjer.

Það er komist laglega að orðið í »Nirði«, þar sem sagt er, að með frv. verði dönsku selstöðuverslanirnar löggiltar hjer á landi, en það er rangt, því að ef frv. verður samþykt, er auðgert að afnema þær. Annars segir »Njörður« svo:

»Selstöðurjettinn gamla, óskoraðann og aukinn frá því sem nú er, vilja þeir fá viðurkendan og löghelgaðan af oss«.

»Skrúðklæði eru þeir til með að leggja á herðar Fjallkonunni, sje þeim leyft að taka hana frillutaki«.

Þessi ummæli, þótt laglega sje þar að orði komist, eru því mjög fjarri öllum sanni.

Eftir frumvarpinu 1908 áttu Danir að annast hjer strandvarnir í 37 ár að minsta kosti, en við höfðum, með góðu samþykki Dana, leyfi til að auka hana. Hjer er þetta mjög einfalt orðað. Danir hafa á hendi strandgæsluna meðan við viljum svo vera láta, með öðrum orðum, það sem við gátum ekki fengið fyr en eftir 37 ár, eftir frv. 1908, það fáum við nú þegar, ef við viljum.

Það, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) var í þessu sambandi að tala um fiskveiðarjett Dana hjer, var bygt á töluverðum misskilningi. Eftir frv. 1908, 5. gr., var þetta óuppsegjanlegt, en nú er það uppsegjanlegt. Þetta sjest skýrt af athugasemdunum og fleiru, en þessa gætti háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) ekki í ræðu sinni.

Jafnrjettisákvæði 6. gr. frv. 1918 er uppsegjanlegt alt eftir 25 ár, en sama ákvæði í 5. gr. frv. 1908 var alls kostar óuppsegjanlegt, enda stendur í athugasemdum nefndarinnar 1908, að svo mikið sje lagt upp úr þessu, að nefndin hafi óskað að gera það »fast og uforanderligt Vilkaar for Forbindelsen« milli landanna.

Þá er peningasláttan. 1908 átti hún að vera sameiginleg í 37 ár, en nú getum við sagt henni upp hve nær sem við viljum, og svipað er með hæstarjett, þótt þar sje dálítill munur.

Það getur verið, að háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) þyki slæm 11. gr. í þessu frv., en hún er þó framför frá 7. gr. frv. 1908. Við litum svo á, að það væri óviðkunnanlegt, að Danir færu með umboð fyrir okkur fyrir ekki neitt, það væri ekki sæmandi fyrir fullvalda ríki, og því voru sett ákvæði í 11. gr. um, að hve miklu leyti við intum gjald af hendi; við það kemur og enn skýrar fram, að Danir fara með umboðið fyrir okkar hönd eftir samningi, en að það er ekki gustukaverk af þeim eða gert af því, að við sjeum skör lægra settir.

Viðvíkjandi fjáratriðinu í báðum frv. má segja, að það sje betra í frv. l908. Eftir því áttum við að fá útborgaða 1½ miljón króna, sem átti að renna beint í landssjóð, svo að það var raunar ekki víst, að þess hefði lengi sjeð stað. Eftir frv. nú á aftur að greiða 1 miljón kr. til vor, og með annari miljón kr. á að stofna sjóð við Kaupmannahafnarháskóla, og á sjóður sá að vera með svipuðu fyrirkomulagi og sá, sem stofnaður verður hjer. Það hneykslaði háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að með sjóðnum á að efla andlegt samband milli Íslands og Danmerkur. Mjer sýnast þessi orð vera meinlaus og gagnslaus. Vitanlega er mest undir því komið, hvernig stofnskrá sjóðsins er og hvernig honum er stjórnað. Stofnskráin er ramminn, en stjórn sjóðsins andinn.

Það er fáránleg kenning, sem styðst við ekki neitt, að við sjeum með þessu að greiða Dönum fje til þess að tryggja sambandið. Við vitum enn fremur, að það er þráttað um fjárkröfu vora á hendur Dönum. Við höfum samið reikninga og teljum svo, að þeir skuldi oss margar miljónir króna, en jafnframt hafa Danir samið annan reikning, og er hann þveröfugur við okkar reikning. Nú vitum við, að það er ekki gott að sækja skuld á hendur öðrum, þegar deilt er um skuldina, og enginn dómstóll er til, sem getur skorið úr. Þá er vitanlega ekki hægt að fá neitt nema með samkomulagi. Jeg vildi, fyrir mitt leyti, helst bæði fullveldið og fjeð, en þó kýs jeg fullveldið fremur, og þykir betra að fá fje það, er frv. 1918 gerir ráð fyrir, en ekki neitt.

Í 17. gr. frv. 1918 og 8. gr. frv. 1908 eru samsvarandi ákvæði. Eftir frv. 1908 átti dómstjóri hæstarjettar Dana að vera oddamaður, ef á þyrfti að halda. Út af því risu deilur hjer heima; þetta þótti ójafnt. Nú er þessu svo komið fyrir, að það á að biðja stjórnir Svía og Norðmanna á víxl að útnefna oddamanninn. Þetta er besta fullveldisviðurkenningin, sem hægt er að fá, og væntanlega um leið besta tryggingin fyrir óvilhöllum dómi. Það er ljóst, að stjórnirnar, sóma síns vegna, velja þá menn, sem best eru til þess færir, og þeir mundu aldrei gera annað en það, sem er rjett samkvæmt lögum.

18. gr. frv. 1918 hefir hneykslað ýmsa, þar á meðal háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.); þeir vilja ekki skilja það, að það þurfi strangari skilyrði, þegar sambandinu er slitið, heldur en til að breyta því, frá því sem nú er. Eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar nægir 1/8 atkvæða til að breyta sambandinu, og það er ekkert tekið fram um það, hversu margir þurfi að greiða atkv., svo að gilt sje. Þetta er ekki óeðlilegt, því að stjórnarskráin gerir einungis ráð fyrir breytingum á sambandinu, en alls ekki ráð fyrir sambandsslitum. En eftir að samningum væri slitið, samkvæmt 18. gr. frv., þá væri ekkert sameiginlegt nema konungurinn einn, og það mundi, að skoðun Dana, strax leiða til algers skilnaðar, og því er það ekki að neinu leyti í baga við stjórnarskrána, þótt ríkari skorður sjeu settar þar um. Og hjer í þinginu sjálfu þarf, í sameinuðu þingi, 2/3 atkvæða um meira og minna ómerkileg lagafrv., svo að þau verði að lögum; undanþegin því eru að eins fjárlög og fjáraukalög, svo að hjer er ekki um nein ný eða ríkari skilyrði að ræða.

Þá hefir það og hneykslað marga, að 75% af kjósendum þurfi að greiða atkvæði, svo að gilt sje, en þessi hneykslun er bygð á þeim misskilningi, að kjósendur þurfi að koma saman á einhvern fund til atkvæðagreiðslunnar. Andstæðingarnir virðast ekki geta hugsað sjer, að hægt sje að koma atkvgr. öðruvísi fyrir en nú á sjer stað um Alþingiskosningar. En þetta er mesta kórvilla.

Í 18. gr. frv. er þess ekki krafist, að kjósendur komi á einhvern ákveðinn stað, t. d. þingstað, til þess að greiða atkvæði; þingið getur því sjálft mælt fyrir um það, hvernig haga skuli atkvæðagreiðslunni. Þeir gætu kosið heima hjá sjer; það gætu allri kosið brjeflega og sent útfylt brjef, og eru dæmi um slíkar kosningar í lögunum um Alþingiskosningar frá 1914, þar sem talað er um fjarverandi kjósendur. Í Noregi er gengið enn lengra í þessu efni en hjer, og nú ætla Danir að innleiða það. Og einu sinni, 1855, var það svo, að allir kusu brjeflega í Danmörku, og ef þetta þætti ekki nægileg trygging fyrir, að allir greiddu atkvæði, þá mætti lögskylda menn til þess að greiða atkvæði, og leggja við sektir. Svo hefir verið gert bæði á Spáni og í Belgíu, og eins er svo í sumum sambandsfylkjum í Sviss. Annars er þetta einber grýla, því að ef nokkur löngun er til þess að slíta sambandinu, þá er hægt að fá fólk til að greiða atkvæði, það sýnir reynslan hjá okkur, hvað þá ef greitt væri atkvæði brjeflega.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) dró mikillega í efa, að hægt væri að fá 75% af kjósendum til að greiða atkvæði, en af nýkomnum skýrslum frá hagstofunni um alþingiskosningar sjest, að 1908 kusu af öllum kjósendum á kjörskrá 75,7%, og 1911, þegar hitinn var enn meiri, kusu 78,4% í þeim hjeruðum, þar sem atkvæðagreiðsla fór fram, svo að það er bert, að það er engin ástæða til þessarar hræðslu. Og ef háttv. þm. (B. Sv.) vill halda því fram, að þá hafi verið færri kjósendur en nú, kosningarrjetturinn hafi verið rýmkaður síðan, og að hluttakan sje minni hjá nýju kjósendunum, þá er þar til að svara því, að eftir 25 ár verða þessir kjósendur aðallega kvenfólkið — væntanlega búnir að læra að nota kosningarrjett sinn svo vel, að þeir nota hann ekki síður en kjósendurnir gerðu 1908 eða 1911, eða karlmennirnir nú.

Ótti sá, sem komið hefir fram um, að kjósendur sætu heima, er og ástæðulítill. Jeg hygg, að ef slíta ætti sambandinu, þá mundu verða tveir flokkar, og að þeir mundu báðir, bæði í ræðu og riti, hvetja menn til að greiða atkvæði, því að það væri tryggasta leiðin fyrir þá, og það er ógerningur fyrir nokkurn mann að reikna út, hversu margir sitji heima. Allur slíkur reikningur yrði marklaust hrófatildur.

En hver er þá sá aukni meiri hluti, sem krafist er? Ekki meira en 9/16 þeirra, er á dagskrá eru, eða (í %) 56,25% íslenskra kjósenda, eða með öðrum orðum freklega helmingur þeirra, og frá mínu sjónarmiði má, varla við una minni tryggingu fyrir því, að alþjóð vilji skilnað.

Vjer þekkjum dæmi í þá átt frá einu máli, er samþykt var við alþjóðaratkvæðagreiðslu, og fjekk með sjer meiri hluta greiddra atkvæða, en síðan hefir farið svo, að ýmsir, sem því voru hlyntir, telja ver farið en heima setið, því að ekki sje þar trygging fyrir ábyggilegum meiri hluta eða eindregnum þjóðarvilja með málinu. Er þá minna um vert skipun sambandsins við Danmörku en einstök innanríkislög, er vjer förum með, þótt samband þetta hafi að vísu ekki verið ánægjulegt. Og sje farið út í það, hvað þurfi til að afla samhygðar annara ríkja um jafnþýðingarmikið skref, þá virðist vera nauðsynlegt, að hægt sje að sýna fram á, að þjóðarviljinn sje eindreginn til þess að slíta samningnum. Fyrsta skilyrðið til þess er það að sýna það svart á hvítu, að það sje eindreginn þjóðarvilji að stíga þetta skref. Veit jeg þá ekki, hvort rjett er að láta sjer nægja minni tryggingu en krafist er í 18. gr. Vjer höfum eitt dæmi um sambandsslit landa, sem sje Noregs og Svíþjóðar 1905. Mjer er mjög til efs, að Norðmenn hefðu lagt út í skilnað, ef þeir hefðu ekki fengið yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða með, og eru þeir þó stærri og ríkari þjóð en vjer.

Jeg hefi nú borið dálítið saman þessi 2 frv., »uppkastið« 1908 og þetta frv., sem hjer liggur nú fyrir, og er það eigi af því, að jeg vilji leggja frv. 1908 og stuðningsmönnum þess nokkuð til lasts. En jeg verð að segja; að jeg get tekið undir það með hæstv. forsætisráðherra, að í þessu frv. eru sniðnir af allir þeir aðalagnúar, er menn fundu á frv. 1908. En úr því að andstæðingar frv., er hjer liggur fyrir, virðast ætla að fella það á því, að það sje ekki betra heldur verra en frv. 1908, þá hlýtur afleiðingin að verða sú, að maður verður að bera frumvörpin saman og sýna fram á líkleika og mismun á báðum.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) vjek rjettilega að því, hver tilfelli væru hugsanleg, ef þessu frv. væri hafnað. En þar var þó eitt atriði, sem jeg man ekki til að hann nefndi í þessu sambandi. Jeg giska á, að það yrði eitt af tvennu. Annaðhvort yrði fánadeilan tekin upp eða ekki. Ef hún yrði tekin upp, yrðu svörin víst hin sömu, og yrði þá ekki annað sjéð en að úr því yrði árekstur milli Danmerkur og Íslands. Sá árekstur hlyti að enda á þann hátt, að annarhvor yrði að láta undan, eða að skilnaður yrði milli landanna.

Skal jeg nú að vísu ekki spá neinu, en líkur eru þó til þess, að vjer yrðum að láta undan, og hefðum vjer þá ekki mikinn sóma af því máli. Það er sem sje engan veginn gefið, að meiri hluti kjósenda á landi hjer mundi greiða atkvæði með skilnaði. Það er ekki einu sinni gefið, að meiri hluti Alþingis gerði það, og þótt svo færi, er Alþingi ekki eitt um hituna, og gæti þá vel farið svo, að meiri hluti þjóðarinnar segði nei. En jafnvel þótt svo færi, að bæði þjóð og þing samþyktu, þá skilst mjer, að vjer stæðum eigi alls kostar vel að vígi að framkvæma skilnaðinn á þennan hatt.

Skilnaður getur ekki lánast nema vjer höfum fullan samhug annara ríkja. Vjer yrðum að fá viðurkenningu þeirra, og hana fáum vjer ekki nema vjer höfum fullan samhug þeirra. En jeg býst við, að það sje eigi ofmælt, að eftir að hafa hafnað þessu frv. mundu önnur ríki varla telja oss hafa farið skynsamlega að ráði voru, og gætum vjer þá ekki búist við samúð þeirra. Vjer gætum vel fengið þau svör hjá þeim: »Hví tókuð þið ekki þessum góðu kostum, sem ykkur buðust?« Þetta atriði þarf þing og þjóð að hafa í huga, er þau greiða atkv. um þetta mál.

Af því að tveir háttv. ræðumenn hafa farið allrækilega út í frumvarpið og svarað hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) að mörgu leyti, skal jeg ekki þreyta með lengra máli.