09.09.1918
Efri deild: 5. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Á orðum háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) við 2. umr. mátti skilja það, að jeg hefði farið fulllangt í því að skýra frá því, sem gerðist í fullveldisnefndinni í vor. Út af því tek jeg það fram, að mest af því, sem jeg skýrði frá, gerðist utan fullveldisnefndarinnar og hjá milligöngumönnunum, en það, sem gerðist hjá þeim, hlýtur að mega vera lýðum ljóst, því að það eru eða eiga að vera opinber skjöl, sem hljóta að verða birt.

Annars hnigu upplýsingar mínar að því að sýna, að það, sem gerðist utan milligöngunefndarinnar, hefði átt að gerast í fullveldisnefndinni. Og jeg gat farið miklu lengra en jeg fór, til þess að sanna mál mitt.

Strax í öndverðu hafði jeg sömu skoðun og jeg hefi nú og kemur fram í nál. mínu, en af nál. meiri hl. mætti líta svo á, sem jeg hefði að einhverju leyti skift um skoðun; þetta vildi jeg ekki láta sitja á mjer. Annars herti till. »langsum«-manna á leynifundinum um sambandamálið á því, að jeg fór nokkuð út í þetta mál.

Það er eitt atriði í áliti meiri hl., sem jeg vildi minnast á. Það er skilnaðargrýlan. Jeg hjelt satt að segja, að hv. þm. Dala. (B. J.) teldi sig of góðan til þess að hampa slíku og að segja að þeir, sem væru á móti frv., hlytu að vera staðráðnir með skilnaði. Jeg segi fyrir mitt leyti, að jeg hefi ætíð skilið stefnu Sjálfstæðisflokksins síðan 1908 svo, að hann vildi sækja mál vor smátt og smátt í hendur Dana, og efst á dagskránni eða næst lægi að taka búseturjettinn úr höndum Dana. Og sem betur fer var búseturjettur Dana hjer ekki orðinn óskertur. Fyrir 1908 kom það fram í fossalöggjöfinni og líka í skipagjöldunum, sem auk þess eru ágætt ráð til þess að verja fiskiveiðarjett vorn. Síðan 1908 hefir kosningarrjettur Dana verið skertur. Og þar er að ræða um bein stefnuhvörf. Sama kom fram þegar fossanefndin var skipuð, því að mjer er óljóst, til hvers sú nefnd hefði verið sett, ef ekki hefðum vjer átt vald á búsetuskilyrðinu.

Við höfum nú um tíma farið að mestu með utanríkismál vor, og það var sjálfsagt fyrir okkur að venja upp menn, sem færir væru um að taka þátt í þeim. Þá höfum við og að nokkru tekið landhelgisvarnir í vorar hendur, að ógleymdum fánanum eða fánakröfunni. Yfirleitt höfum við alt af smátt og smátt verið að sækja rjett vorn úr höndum Dana, og alt af unnið á, og þeirri stefnu áttum við að halda áfram.

Það hefir kveðið við, að ef við bíðum lægra hlut í fánamálinu, þá yrðum við að skilja. En þetta er staðlaus staðhæfing. Ef allir hefðu einhuga fylgt fram fánakröfunni, fast og óhikað, var sigurinn vís. Danir hafa í samningaumleitununum í sumar viðurkent fánarjett vorn; því í dauðanum ættu þeir þá að geta neitað okkur um hann? Aðstaða okkar stórbatnaði við samningaumleitanirnar 1908. Það starf hafði stórmikla þýðingu að því leyti, því ber ekki að neita, en eins og aðstaða okkar batnaði við frv. 1908, eins hefði aðstaða vor batnað við þetta frv. Skilnaðargrýlan er því hrein fásinna. Það væri þá fyrsta lagi í styrjaldarlok, sem hugsast gæti, að unt væri að hampa henni.

Jeg efa ekki, að misklíð verði hjer út af þessu dansk-íslenska »uniformi«, sem við erum hjer að fara í. Samkvæmt minni skoðun verður borgararjetturinn samlaga í báðum ríkjum.

Þetta er aðalástæðan til þess, að jeg er ekki með frv. Hins vegar lít jeg svo á, að það sje Dönum verst, ef þeir beita þessu ákvæði illa, svo framarlega sem nokkur dugur og dáð er í okkur. Vegna legu landsins er okkur í lófa lagið að beina verslun vorri og viðskiftum til annara þjóða en Dana, og við verðum að gera það, ef Danir ætla að beita oss hörðu, til þess að halda jafnvægi í landinu. Jeg er sannfærður um, að ef gæfan er með og við viljum, þá er þetta vopn beitt.

Af sömu rökum ríður oss á að skemma ekki aðstöðu okkar gegn Dönum, með því að binda okkur hjá þeim með lánum, að minsta kosti ekki fyr en sambandslögin eru komin í framkvæmd og dregnar hreinar línur að því er þau snertir.

Að lyktum skal jeg í þessu sambandi endurtaka það, sem jeg sagði við 2. umr., að ef fram kemur skýr yfirlýsing frá Dönum um, að skilningur meiri hl. sje rjettur, þá ber að telja mig með frv., og ber að líta svo á, enda þótt jeg greiði atkv. móti því nú, og jeg vænti þess fastlega, að slík yfirlýsing sje útveguð áður en þjóðaratkvæðið fer fram.

Sumir líta svo á ummæli háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.), að hann hafi gefið í skyn, að jeg hefði talað móti betri vitund. (Jóh. Jóh.: Slíkt er einber misskilningur; jeg kendi misskilningi um). Það gleður mig, enda skildist mjer það ekki á orðum hans: Jeg hefi aldrei ætlað neinum háttv. þm. slíka framkomu, og allra síst ætlaði jeg háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) með svo langan og heiðarlegan embættisferil að baki sjer, að hann bæri nokkrum þm. slíkt á brýn.

Háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) fórust þannig orð, að þau mátti skilja svo, sem jeg hefði viljað verða einn milligöngumannanna. En jeg held, að öll framkoma mín í fullveldisnefndinni gefi enga ástæðu til þess að líta svo á, enda langaði mig ekki til þess. Jeg fór oftast einn mínar götur í nefndinni, var með sjerkreddur, en það er ekki vegurinn til þess að verða fulltrúi fyrir aðra.

Loks vil jeg taka það fram, að jeg tel gamla sáttmála undirstöðuna undir þessu frv., og að þessi samningur sje áframhald af honum og gangi að engu leyti lengra en hann og sje með sama fyrirvara gerður.

Þá vænti jeg þess fastlega, að nefndarálitin og gerðabók sambandsnefndanna verði birt þjóðinni og annað, er málið varðar, svo að hún hafi tíma til þess að kynna sjer það áður en atkvæðagreiðslan fer fram. Atvik hafa hagað því svo, þótt Alþingi eigi þar enga sök á, að þjóðin hefir að eins getað kynt sjer aðra hlið málsins.

Við 2. umr. þessa máls tók hæstv. fjármlaráðh. það fram, að það yrði að líta á þetta mál frá háu sjónarmiði og er jeg þessu samþykkur og játa, að hann er hákröfumaður. En því miður hefir hann ekki fylgt þessum hákröfum nægilega fast eftir. Það gerði hann þá, fyrst, ef hann sýndi, að hann var búinn til að leggja lífið í sölurnar fyrir kröfur sínar. Jeg skal ekki fara lengra út í það, en jeg vænti fastlega, að hann bili ekki í framkvæmd málsins, því að á miklu veltur, hvernig fer. Og vinni hann dyggilega að þeim framkvæmdum, skal ekki standa á fylgi mínu, þótt jeg eigi að líta á frv. frá lægra sjónarmiði en hann.