09.09.1918
Efri deild: 5. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Kristinn Daníelsson:

Jeg vona, að háttv. þingdm. bregði ekki, þótt jeg standi upp.

Þeir vita, að þeir þurfa ekki að óttast, að jeg tali langt mál; það er ekki vandi minn.

Jeg mun ekki heldur leggja orð í belg um lögskýringar þær, sem hjer hafa komið fram.

En sjálfum finst mjer, að jeg hafi haft nokkuð sjerstaka afstöðu í máli þessu, svo að ekki sje óeðlilegt, að jeg geri stutta grein fyrir atkvæði mínu, og skal jeg lýsa því í stórum dráttum, hvers vegna jeg ætla mjer að verða frv. óskorað fylgjandi.

Jeg tel mig ekki hafa verið neinn leiðandi mann í sjálfstæðisbaráttu vorri. Þó hefi jeg tekið allmikinn þátt í henni síðan 1909 og ætíð fylt þann flokkinn, sem lengst vildi fara, og innan flokks míns þann hóp, sem kröfuharðastur þótti.

Jeg ætti því ekki að geta gengið að neinu, sem væri afsláttur á kröfum vorum.

En í öllum tillögum mínum um málið hefi jeg jafnan haft eitt fyrir leiðarstein, og það er jafnrjettiskrafa sú, er Jón Sigurðsson kom fram með á sínum tíma, að við hefðum jafnan rjett til þess að ræða einir málum vorum með konungi eins og Danir til þess að ráða sínum málum með honum.

En nú vinst það með frv. þessu, að eins og við höfum altaf átt þennan rjett að okkar dómi, eins verður hann nú viðurkendur af Dönum og tilkyntur öðrum þjóðum.

Við getum því farið að neyta þessa rjettar og beita valdi okkar.

Fullveldi vort er afdráttarlaust viðurkent, og vjer getum þess vegna tekið það, sem því fylgir, svo sem æðsta dómstól, fána, landhelgisvörn, myntsláttu og utanríkismál, hve nær sem við viljum. Þar að auki lýsum vjer ævarandi hlutleysi voru í ófriði, hvort sem sambandsland vort er hlutlaust eða ekki.

Og um þetta er svo tryggilega búið, að jeg sje ekki annað en að þjóðin megi vel við una og vera ánægt með.

En það fyrsta, sem við í rauninni notum þennan fulla rjett okkar til, er það að gera þennan samning við hina fornu sambandsþjóð okkar, Dani.

Hefir þar brytt á óánægju nokkurri með, að við höfum notað illa valdið og veitt Dönum of mikið í 6. gr. samningsins, og ákvæði það um jafnrjettið væri okkur hættulegt.

Og flestir munu sammála um það, að þetta hefði mátt betur fara á annan veg.

En þá var spurningin, hvort hjer var það í húfi, eða þetta átti að vega svo mikið, að heldur skyldi hafna öllu því, er vinst með frv., og slíta samningatilraunum.

Og jeg skal játa, að svo hefði getað farið með mig, ef ekkert hefði verið til bóta til að afstýra þeirri áhættu, sem af jafnrjettisákvæðinu gæti stafað fyrir þjóðerni vort, því að það tel jeg aðalatriðið.

Af útlendu auðmagni getur auðvitað altaf hætta stafað, hvort sem nokkurt jafnrjettisákvæði er eða ekki, ef vjer höfum ekki nógan vilja og vitsmuni til að verjast því.

En við jafnrjettisáhættunni eru tvennar skorður settar.

Við getum sem fullvalda ríki takmarkað hana með lögum, svo sem búsetulögum, og við höfum í annan stað greiðan gang til að slíta samningunum.

Þetta tel jeg svo mikilsvert, að það ákvarðaði mig til þess að verða frv. fylgjandi.

Fleira er að vísu í samningunum, sem fundið er að, svo sem nefndarskipunin, fjárhagsatriðið og jafnvel atkvæðagreiðslan. En jeg mun ekki dvelja við það, en að eins skýra frá, að þetta tel jeg að mestu leyti aukaatriði, sem engin úrslitaáhrif hafa haft á atkvæði mitt.

En það var önnur spurning, sem einnig hlaut að koma til greina.

Hvað átti að gera ef ekki varð úr samningum?

Fánamálið kallaði að, og þjóðin heimtaði, að fram úr því væri ráðið, og þingið gat ekki skilið án þess að ráða því til viðunandi lykta.

Það hefir verið bent á skilnað, og jeg skal játa, að fyrir mjer vakti, að annað væri þá ekki fyrir hendi en að hefja skilnaðarbaráttu. En jafnframt verð jeg að gera þá játningu, að jeg hefi ekki verið skilnaðarmaður, sem kallað er, en hugsað mjer, að oss væri betra að vera að minsta kosti um sinn í sambandi við Dani, sem eru smáþjóð og hafa þrátt fyrir alt jafnan látið þokast undan kröfum okkar. Jeg hefði því ekki getað óhræddur ráðið til þess að leggja út í þá baráttu og þá óvissu, sem henni fylgdi.

Því að jeg lít svo á, að ef nokkur er í óvissu um örlög þjóðarinnar eftir þessu frv., þá hefði sú óvissa hlotið að vera meiri, ef tækifærinu hefði verið slept.

Þessa grein vildi jeg gera fyrir atkv. mínu.

Vil jeg nú ljúka máli mínu með því að biðja þess, að þjóðin og forvígismenn hennar beri gæfu til þess að færa sjer í nyt þessa nýju aðstöðu, því að undir því tel jeg nú mest vera komið.

Bið jeg svo, að guð og giftan, sem þrátt fyrir alt, sem á dagana hefir drifið, aldrei virðist hafa yfirgefið landið, fylgi því enn sem áður og láti þessi málsúrslit verða þjóðinni til blessunar og heilla.