26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get verið samdóma tillögum nefndarinnar að mörgu leyti og skrifað undir margt af því, sem háttv. frsm (Þór. J.) hefir sagt. Jeg get þess vegna verið stuttorður.

Jeg finn enga ástæðu til að hafa neitt á móti því, að nefndin hefir hækkað nokkuð sum föst laun embættismanna. Jeg gat þess við 1. umr., að allir mundu ekki vera á sama máli um föstu launin. Jeg hefi ekki orðið var við, að nefndin hafi breytt til lækkunar neinu af till. stjórnarinnar nema launum þjóðmenjavarðar. Og jeg verð að segja, að jeg veit ekki hvernig á því stendur. Mjer finst það vera kynlegt, að einn maður skuli vera tekin þannig undan.

Jeg get heldur ekki álitið brtt. nefndarinnar við 1. gr. nauðsynlega. Þarf að athuga hana í sambandi við frv. um stofnun lífeyrissjóðsins.

Þriðju brtt. háttv. nefndar tel jeg rjettmæta, og jeg bjóst altaf við því, að þegar fastir aukakennarar yrðu gerðir að embættismönnum, þá mundu þjónustuár þeirra í aukakennarastöðunni verða reiknuð með til hækkunar launanna. Um stundakennara er dálítið öðru máli að gegna, en jeg finn þó ekki ástæðu til að amast við ákvæðunum um þá.

Sjötta brtt. nefndarinnar er lagfæring á stj. frv., og fellst jeg fullkomlega á hana.

Í sambandi við 6. og 7.brtt. nefndarinnar get jeg þess, að vera má rjett, að öll sýslumannaembætti, að undanteknum þeim, þar sem sýslumennirnir eru jafnframt bæjarfógetar, sjeu gerð jöfn að launum, eins og farið er fram á í brtt. á þgskj. 489; og eigi mundi það gera mikinn mun á útkomunni, því að tillit mundi tekið til erfiðleika og tilkostnaðar, þegar farið yrði að ákveða skrifstofukostnaðinn. Það má vel vera, að rjett hefði verið að taka Skaftafellssýslu út úr þeim flokki, sem hún er sett í stjórnarfrv. Þó mundi það ekki hafa gert verulegan mun, því að tilætlun stjórnarinnar var að bæta upp erfiðleikana með auknu skrifstofukostnaðarfje. Það má vel vera, að það sje vandaminna að ákveða jöfn laun handa sýslumönnunum, því að það verður jafnan nokkurt álitamál, hvernig sýslum skuli skipað í flokka.

Þar á móti get jeg ekki fallist fyllilega á 9. brtt. háttv. nefndar, ekki þó af því, að jeg hafi móti því, að lögreglustjórinn á Siglufirði fái hækkuð laun. En jeg held, að ef á annað borð á að fara að breyta, þá sje rjettara að setja hann í flokk með skyldum embættismönnum, og láta gilda hið sama um hann sem þá, og að allar aukatekjur hans renni í ríkissjóð.

Vel má vera, að það sje rjett hjá háttv. nefnd að ákveða laun lækna á þann veg, sem hún hefir gert: og jeg býst við, að samkvæmt þeirri niðurstöðu, sem varð á þinginu í fyrra, þá sje þetta vænlegast til samkomulags og framgangs. En jafnframt vil jeg taka það fram, að eigi megi skoða læknataxtann sem lágmarkstaxta, held sem fastan taxta, sem óheimilt sje að fara fram úr, og að hin hækkuðu laun lækna sjeu miðuð við það, að þeir fylgi þeirri gjaldskrá. Í sambandi við þetta stendur, að ef á að ákveða lík laun handa dýralæknum sem öðrum læknum, þá verður og að heimta, að þeim sje settur fastur taxti til að fara eftir, og má hann ekki vera hár. Jeg bendi að eins á þetta.

Við 14. brtt. háttv. nefndar hefi jeg ekkert að athuga; hjer á hlut að máli heiðursmaður, sem á alt gott skilið. Þó teldi jeg rjett, að tekið væri fram með berum orðum, að launahækkunin væri uppbót fyrir húsnæði; þá mundi ekki þurfa að taka sjerstaklega fram, að læknir þessi haldi áfram sömu kenslustörfum við háskólann sem hingað til, því líkt er ástatt með fleiri af kennurum háskólans sem þennan, og mun þá ekki tilætlunin að leysa þá frá kenslustörfum þar. Jeg vil mæla með tillögu þessari, og þykir vænt um, að hún er fram komin.

Jeg vildi gjarnan fá skýring hv. nefndar á 22. brtt. hennar. um fulltrúa stöðvarstjórans á Seyðisfirði. Mig minnir að Stóra norræna ritsímafjel. eigi að standa straum af ritsímastöðinni á Seyðisfirði. (Þór. J.: Að eins stöðvarforstjóranum! Mig minnir, að áskilið væri, að fjelagið lengi 200. kr. til rekstrarins. Að öðru leyti bíð jeg frekari upplýsinga um þetta atriði.

Jeg hefi ekki á móti 31. brtt. hv. nefndar um að byrjunarlaun prófessora sjeu hækkuð upp í 5000 kr. og hámarkslaunin upp í (6000 kr. En jeg hefi dálítið á móti samanburðinum við skrifstofustjórana í stjórnarráðinu. Prófessorarnir koma venjulega fremur ungir að embættum sínum. Að vísu er hjer lítil reynsla komin á þetta, og væru líkindi fyrir að margir dósentar yrði við háskólann, þá mundi ekki ástæða til að setja laun prófessoranna. öllu lægri en laun skrifstofustjóranna en nú bendir heldur í þá átt, að tilhneiging sje til að breyta dómaraembættunum í prófessorsembætti.

Að jeg fór yfirleitt ekki hærra með föstu launin en gert er í stjórnarfrv. kom ekki til af því, að mjer þætti eigi ástæða til þess, heldur af hinu, að jeg bjóst varla við, að það mundi fá framgang í þinginu, auk þess sem jeg var í efa um, að fjárhagur landsins þyldi hærri laun, einkum með tilliti til tilhneigingar þingsins til að hafa embættin mörg.

En þetta sem jeg hefi minst á, er í mínum augum ekki aðalatriði í málinu. Það sem fyrir mjer er aðalatriðið, er 33. gr. frv., og er jeg ekki ánægður með meðferð hv. nefndar á henni. Jeg álít það eitt rjett að lofa henni að halda sjer óbreyttri eins og hún er í frv. stjórnarinnar, nema má ske að ástæða hafi verið til að hækka nokkuð dýrtíðaruppbót sveitapresta. Síðan frv. var samið hefir útlitið breyst þannig, að líklega er ekki rjett að gera jafnmikinn mun á dýrtíðaruppbót sveitapresta og kaupstaðapresta eins og frv. gerir.

Jeg tel það varúðarvert að breyta 33. gr. svo nokkru verulegu nemi. Hún var vandlega hugsuð, og alt í henni reiknað út af færum mönnum eftir bestu gögnum, sem fyrir hendi voru. Þar sem nú nefndin virðist viðurkenna, að reglur þær, sem eftir var farið, sjeu rjettar, þá hefði verið sönnu næst að láta greinina vera óbreytta. Jeg held það sje áreiðanlega rjettast að miða dýrtíðaruppbótina við ástandið áður en stríðið byrjaði; þess vegna er jeg ekki ánægður með 39. brtt. hv. nefndar. Jeg sje ekki heldur, að það sje rjett, þegar það er á annað borð viðurkent, að dýrtíðaruppbótin sje bygð á rjettum grundvelli, að takmarka hæstu launaupphæð eins og gert er í 41. brtt. hv. nefndar, eða að minsta kosti sje það takmark sett of lágt. En að minni skoðun ætti það ekki að eiga sjer stað, því að hjer er meginregla brotin. Þegar jeg hefi talað um brtt. hjer að framan, hefi jeg ekki tekið með læknana. Má vera, að rjett hafi verið að ráða því máli til lykta eins og hv. nefnd hefir gert, og má ske hefir þar verið nauðugur einn kostur. Sje svo, þá er ekki um neitt að deila, síst þegar vel má að öðru leyti verja það, sem hv nefnd hefir gert.

Jeg held það hafi ekki verið fyllilega athugað hjá háttv. nefnd, þar sem hún ræður til að fella orðin „í Reykjavík“ burt úr 33. gr. frv. Jeg átti rjett áðan tal við hagstofustjórann um hana, og taldi hann breytinguna varúðarverða, og að ilt mundi verða að átta sig á afleiðingum hennar og hún gera alt málið erfiðara viðfangs; meðal annars mundi örðugt að jafna saman stórverslun í Reykjavík, og hvað stórverslun mætti kalla úti um land, og vandi að kveða á, hvað kallast ætti stórverslun á þeim og þeim stað.

Jeg vildi því mega skjóta því til háttv. nefndar, hvort hún mundi ekki tilleiðanleg að láta þessa brtt. falla niður, og það því fremur, sem hún mun varla hafa gert sjer grein fyrir, hvaða áhrif hún mundi hafa á niðurstöðuna, nje hve miklum vafningum og örðugleikum hún mundi geta valdið.

Eins og jeg hefi sagt, geri jeg mig yfirleitt ánægðan með brtt. háttv. nefndar.

Jeg er auðvitað mótfallinn brtt. þeim, sem komið hafa fram frá hv. þm. um lækkanir á þeim. Jeg taldi það eigi rjett hjá háttv. nefnd að vilja draga úr tillögum 33. gr. frv., og því síður tel jeg það þá rjett að ganga enn lengra í þá átt, eins og brtt. á þgskj. 499 gerir. Jeg tek undir með háttv. frsm. (Þór. J.), að ef ekki á einungis að miða við verðlagið haustið 1914, eins og háttv. nefnd gerir, heldur þar á ofan að hækka frádráttartölu verðstuðulsins um 10%, þá sje freklega gengið í þá átt, að lækka dýrtíðaruppbótina. Jeg vona að hv. flm. (Sv. Ó. og H. K.) falli því frá þessari brtt. sinni. þegar þeir athuga það, að hv. nefnd hefir þegar hækkað frádráttartöluna um sem svarar 10%.

Þá verð jeg að telja það brot á þeirri reglu, sem stjórnin hefir sett, og flestir hafa talið sanngjarna, að fara fram á, að dýrtíðaruppbótin sje miðuð við 2000 kr., í stað 3000 kr., eins og er í stjórnarfrv.

Jeg man svo ekki, að fleira sje í brtt. einstakra þm., sem jeg hirði um að fara út í að sinni.

Skal jeg þá að lokum svara fyrirspurn þeirri, sem háttv. frsm. (Þór. J.) beindi að stjórninni, um það, hvort í 33. gr. frv. sje einungis átt við þá starfsmenn ríkisins, sem frv. nefnir, eða ætlast sje til, að ákvæði greinarinnar nái til fleiri. Jeg játa, að ástæða er til þess, að fyrirspurn þessi kom fram, til að taka af allan efa, þótt það virðist liggja nokkurn veginn í augum uppi, að hjer muni að eins átt við þá eina, sem frv. talar um. Í upphafi greinarinnar stendur:

„Auk hinna föstu launa fá allir embættis- og sýslunarmenn landsins fyrst um sinn, meðan dýrtíð sú helst, sem hófst með heimsstyrjöldinni“. Sýnir þetta allljóst við hverja er átt, þar sem talað er um föst laun. Jeg bjóst við, að frá þinginu mundu koma fram sjerstakar tillögur um dýrtíðaruppbót handa eftirlaunafólki og ýmsum starfsmönnum ríkisins, sem ekki eru á föstum launum, þótt sumir þeirra hafi fult starf í ríkisins þágu. Því er svo háttað bæði með ráðsmenn við spítalana, vitaverði o. fl., að kaup þeirra er ekki fastákveðið í eitt skifti fyrir öll, heldur fer það eftir samningum í það og það sinn, og er eigi hægt að ákveða fasta dýrtíðaruppbót handa slíkum mönnum, þar sem gera má ráð fyrir, að kaup þeirra muni, að meira eða minna leyti, vera miðað við dýrtíðina. Jeg ætlaðist sem sagt ekki til, að dýrtíðaruppbótin næði til annara en þeirra, sem tilgreindir eru í frv. stjórnarinnar, og þeirra nýrra embættismanna, er við kunna að bætast. Jeg bjóst við, að launamálanefndirnar mundu ráðstafa dýrtíðaruppbót annara, sem til mála geta komið, í samráði við stjórnina, og býst við því enn. Hreppstjórar hafa verið nefndir, og má vel vera, að rjett sje að bæta laun þeirra.

Jeg gleymdi áðan að minnast á brtt. um laun prófasta. Þar vil jeg minna á, að prófastslaun þeirra eru ákveðin með sjerstökum lögum, en háttv. nefnd mun ekki hafa lagt til, að þau lög væru numin úr gildi, þótt hún ætlist til, að ákvæðum þeirra sje breytt. En jeg hafði ekki fundið ástæðu til að taka það upp í frv., því að starf prófasta er algert aukastarf, og á því að vissu leyti ekki heima í þessum lögum, þótt verið geti, að það megi vera þar.

Þá vil jeg leyfa mjer að minnast á till. háttv. nefndar um prestana. Jeg hafði í fyrstu samið frv. svo, að uppbót þeirra var alveg ótakmörkuð, eins og annara. En þegar jeg fór að reikna út hækkunina, varð jeg hræddur við þingið, og fór þá að draga úr uppbótinni, því að jeg sá, að þessi uppbót munaði mjög miklu. Og þar að auki vissi jeg, að það var sumra meining, að prestar í sveit ættu betra með að komast af en margir aðrir embættismenn. En jeg verð að viðurkenna, að eftir því, sem á horfist nú um sveitabúskapinn í nánustu framtíð, þá getur vel verið, að þessi munur á sveitaprestum og öðrum sje ekki rjettur, og að háttv. nefnd hafi því alveg rjett fyrir sjer. Jeg verð þess vegna heldur að hallast að stefnu hv. nefndar. En af því þó, að jeg er ekki alveg sannfærður um, að aðstaða sje alveg hin sama og presta í kaupstöðum, þá væri má ske rjettara að láta það koma niður á föstu laununum. Það væri má ske sanngjarnara en að skerða þá reglu, að láta uppbótina halda sjer. Hvaða takmörk sem sett eru í þessu, verður altaf nokkurt handahóf, eins og hlýtur að vera, hve nær sem einhver regla er afmörkuð, einhver takmörkun sett. Jeg skýt þessu fram til athugunar, en get sagt það, að eftir því sem nú lítur út um sveitabúskapinn, sjerstaklega að því er kaupgjald snertir, þar sem kaupa verður dýrum dómum hvert verk og viðvik, þá munu prestar eiga erfitt með að græða mikið á búskapnum. Því að ekki geri jeg ráð fyrir, að til þess sje ætlast, einkum ef menn hallast að því alment að hafa prestaköllin stór, að prestarnir vinni nokkuð að bústörfum sjálfir.

Jeg hefi minst á brtt. á þgskj. 489. Hefi jeg ekki neitt við þá reglu að athuga, sem þar er tekin upp. Hún má vel vera, og er sjálfsagt fullkomlega eins heppileg og regla stjórnarfrv. Enda hygg jeg ekki, að hún þurfi að hafa veruleg áhrif. Þá hefi jeg og minst á samskonar brtt. á þgskj. 494, tölul. 1 og 2. Hvað snertir 3. lið á því þgskj., þá tel jeg nauðsynlegt, að sú brtt. verði samþ., og er hún sanngjörn og sjálfsögð á allan hátt. Að eins skal jeg geta þess, að jeg álít ekki, að laun aðalpóstmeistara megi vera minni en hjer er farið fram á.

Enn fremur vil jeg mæla með brtt. á þgskj. 495, og sýnist hún alveg rjettmæt og í samræmi við brtt. hv. nefndar um, að sá tími, sem menn gegna stunda- eða aukakennarastörfum við skóla ríkisins, skuli teljast til þjónustuára. Hitt er gömul venja, sem styðst við ákvæði í lögum, að telja ekki það ár, sem prestar eru aðstoðarprestar, til þjónustuára.

Skal jeg svo ekki ræða málið frekar að þessu sinni.