26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

26. mál, laun embættismanna

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend ekki upp sjerstaklega til að mótmæla hv. frsm. (Þór. J.), og var þó ýmislegt í framsögu hans, sem jeg get ekki verið samþykkur. Það lætur og að líkindum, því að hann hlaut að mæla fyrir munn meiri hluta nefndarinnar, sem vitanlega er sjálfri sjer sundurþykk eftir þeim víðtæka fyrirvara nál. Að sjálfsögðu er jeg nefndinni að svo miklu leyti samþykkur og brtt. hennar, að jeg hefi getað undirritað nál. með þeim rúmgóða fyrirvara. En hitt er víst, að á allmörgum sviðum er jeg hv. frsm. (Þór. J.) og meiri hluta nefndarinnar gersamlega ósamþykkur.

Jeg stóð fyrst og fremst upp vegna brtt. þeirra, sem jeg á ásamt hv. þm. Barð. (H. K), á þgskj. 499. Móti þessum till. hefir þegar verið mælt af hv. frsm. (Þór. J.) og hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Auðvitað hafa mótmæli þeirra einkum snúist um brtt. við 33. gr. frv., en ekki hinar.

Það má auðvitað ekki skilja brtt. okkar svo, að við sjeum nefndinni sammála um alt það, er við gerum ekki brtt. um. Og heldur ekki má skilja þær svo, að við fylgjum í einu og öllu stjórnarfrv. á þgskj. 26, þar sem við höfum ekki gert brtt. Það verður ýmist svo, að við hljótum að fylgja frv., og það í mörgum greinum, en ýmist brtt. okkar eða annara nefndarmanna, þar sem okkur greinir á við aðaltill. nefndarinnar eða frv. En nú vill svo til, að komið hafa frá öðrum hv. þgdm. brtt. um sitthvað í frv. og brtt. nefndarinnar, sem við ella hefðum gert brtt. um, og fer auðvitað eftir atvikum, hvort við getum fylgt þeim eða ekki, en yfirleitt miða brtt. þessar í sömu átt og okkar.

Það er nú svo um brtt. á þgskj. 499, að hún stefnir aðallega í þá átt, að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, þar sem það virtist mætti gera, svo eigi sakaði. En ekki miða þær þó allar til þess. Sumar lúta að því, að bæta við mönnum, sem ekki eru nefndir í stjórnarfrv., og okkur virtist rjett að taka upp, og ein eða tvær að því, að hækka laun frá því, sem stjórnarfrv. tiltók. Brtt. eru alls 6, við 11., 12., 14., 16., 22. og 33. gr. frv.

Brtt. við 11. gr. fer í þá átt, að bæta við manni, sem fallið hefir úr í stjórnarfrumvarpinu, eða stjórnin hefir ekki hugsað sjer að taka í frv. Er það fangavörðurinn. Við höfðum talið 1800 kr. hæfileg byrjunarlaun handa honum, en að þau hækki á hverjum tveggja ára fresti um 200 kr., í 2400 kr. Það er að vísu lægra en nefndin hefir lagt til, en okkur virtist þetta sanngjarnlegt, með tilliti til þess, að starf hans er ekki umfangsmikið, en hann hefir húsnæði, ljós og hita kauplaust.

Brtt. við 12. gr. fer fram á að hækka ritfje landlæknis úr 1000 kr. upp í 1500 kr. Þessi brtt. er að vísu samstæð brtt. nefndarinnar, en nefndin leggur til frekari breytingar á launakjörum þessa manns, og viljum við ekki fallast á þær.

Við 14. gr. flytjum við till. um breyting á launum dýralækna, að í stað 1800 kr. í stjórnarfrv. fái þeir 2000 kr., og launin hækki upp í 3000 kr. eftir tiltekið árabil. Þetta er gert með það fyrir augum, að brtt. á þgskj. 493, frá hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), gangi fram, og verði þá samræmi í launakjörum lægsta launaflokks hjeraðslækna og dýralæknanna.

Brtt. við 16. gr. snertir áhalda- og efnisvörð símans, sem ekki er talinn í stjórnarfrumvarpinu. Við höfum ekki getað orðið nefndinni sammála um eins hjá laun honum til handa og nefndin vill ákveða. Auðvitað skiftir lækkun þessi ekki miklu máli, en er þó sett samræmis vegna, því að starf þetta er ekki sjerlega erfitt nje vandasamt. Virðist því rjett að færa launin niður frá því, sem nefndin hefir lagt til.

Þá er brtt. við 22. gr. Eins og hv. frsm. (Þór. J.) tók fram, hefir verið ágreiningur um, hvernig ákveða eigi laun prófasta. Virtist okkur, að þar sem nefndin gerði ekki ráð fyrir, að feld yrðu undan skoðunarlaun prófasta á kirkjum, þá væru laun þau, er hún ætlaði þeim, óþarflega há. Leggjum við því til, að launin verði 300 kr. hjá þeim, er áður höfðu 100 kr., og 500 kr. þar, sem áður voru 200 kr. Alls munu vera 20 prófastar á landinu. Þar af hafa átta 100 kr., en tólf 200 kr. Mundi því öll þessi launahækkun þeirra nema 5200 kr.

Sjötta og síðasta brtt. snertir 33. gr. Er það hún, sem sætt hefir mestum andmælum. En jafnframt er það hún, sem mestu máli skiftir og mest hefir áhrif á úrslit þessa máls og upphæð þess fjár, sem ríkissjóði verður gert að greiða með lögum þessum. Þessar brtt. við 33 gr. falla í fjóra stafliði.

Stafliður a. snertir undirbúning dýrtíðaruppbótarinnar, verðlagsskrá þá, sem nota á til að ákveða dýrtíðaruppbótina eftir árlega. Gengur hún að því leyti lengra en tillaga nefndarinnar, að hún gerir ákveðið ráð fyrir að miða ekki við verðlag í Reykjavík einni, heldur verðlag í 4 aðalkaupstöðum landsins. Þetta virðist vera fullkomlega eðlileg og sanngjarnleg breyting, því að verðlag er ekki nándar nærri hið sama um alt land, og hjer á einmitt að leita meðalverðs, en ekki Reykjavíkurverðs. Enda eiga þeir menn að njóta dýrtíðaruppbótarinnar, sem búsettir eru víðs vegar um landið, og verður næst komist rjettlátlegu verðlagi með landsmeðalverði.

Stafliður b. fer í þá átt, að hækka þá „dauðu prósentu“, sem leggja á við verðlagið haustið 1914, áður en ákveðin er uppbótarprósentan. Leggjum við til, að í stað 25% komi 35%. Byggjum við það á því, að föst laun þau, sem gert er ráð fyrir, og sennilega verða ákveðin, fara talsvert fram úr 25% hækkun frá þeim launum, sem voru 1914. Þau fara víðast langt fram yfir 35% og eru ekki óvíða 100% hærri en þau voru 1914 og fyr. Verði það ofan á, sem lagt er til af nefndinni um hjeraðslæknana, verður hækkun launanna hjá þeim sumum með uppbótinni jafnvel þreföld, eða um 200%. En af því að þessi hækkun launanna frá því sem var 1914 er svo breytileg og misjöfn, er ómögulegt að fá eina algilda reglu, sem á við alla. Þegar þessar 25% falla undan uppbót, fer því svo, að einn munar meira um og annan minna, eftir því, hve mikil hækkunin hefir verið á þeim föstu launum. Nær hæfi hefir okkur því virst 35%. Í skrá þeirri yfir embættismenn og laun þeirra, sem birt er í aths. við stjórnarfrv., hefi jeg ekki fundið einn einasta manni, sem ekki hefir verið ætluð meiri hækkun á föstum launum en 25%, en ekki vil jeg fortaka, að dæmi kunni að finnast þess. Hitt er víst, að allur fjöldinn hefir fengið 50–80% hækkun, og margir þó hækkaðir enn meira eftir till. nefndarinnar.

C-liður brtt. fer fram á það, að færa niður hámarkið á þeim 2/3 hlutum launanna, sem uppbótin á að reiknast af, úr 3000 kr. niður í 2000 kr. En háttv frsm. (Þór. J.) rangfærði þessa till. og ljet á sjer skilja, að við hefðum breytt hlutfallinu. 2/3 launa. Við höfum einmitt látið það óhaggað. En hins vegar ætlumst við til, að sú upphæð, sem dýrtíðaruppbótin greiðist af, verði færð úr 3000 kr. niður í 2000 kr.

Af því að það hefir verið látið í ljós hjer, að þessi brtt. yrði þess valdandi, ef hún gengi fram, að uppbótin yrði óforsvaranlega lág, og enn fremur með áherslu fram tekið af háttv. frsm. (Þór J.) að hún kæmi sjerstaklega niður á þeim lægst launuðu, ætla jeg að leyfa mjer að hafa yfir dálitla töflu, sem jeg hefi gert, til að sýna, hvernig þetta verður eftir þeim verðstuðli er myndast þegar miðað er við verðmun 1914 og 1918, og verðstuðulinn því miðaður við laun og uppbót, sem ætti að vera í ár, ef lögin væru komin í gildi.

Taflan sýnir mismuninn, sem verður frá stjórnarfrv., og því sem við leggjum til grundvallar. Er hún á þennan veg:

1590 kr. — 3030 kr. 2850 kr. 180 kr.

2000 — 4040 — 3800 — 240—

2500 — 5050 — 4750 — 300

3000 — 6000 — 5700 — 360 —

3500 — 7070 — 6200 — 730 —

4000 — 8080 — 6700 —1380 —

4500 — 9990 — 7200 — 1890 —

5000 — 9590 — 7700 — 1890 —

5500 — 10090 — 8200 — 1890 —

6000 — 10590 — 8700 — 1890 —

6500 — 11090 — 9200 — 1890 —

7000 — 11590 — 9500 — 2090 —

7500 — 12090 — 9500 — 2590 —

8000 — 12590 — 9500 — 3090 —

8500 — 13090 — 9500 — 3590 —

9000 — 13590 — 9500 — 4090 —

9500 — 14090 — 9500 — 4590 —

10000 —14590— 10000— 4590 —

Af þessu er það auðsætt, að niðurfærsla okkar kemur síst niður á þeim lægst launuðu. en þvert á móti á þeim hæst launuðu og það er sú regla, sem fylgt hefir verið og fylgja ber um dýrtíðaruppbót, að sjá þeim borgið, sem mesta hafa þörfina lægst eru launaðir.

Jeg held annars, að allir, sem ekki hafa þegar bitið sig í stjórnarfrv. og till. nefndarinnar, eins og óbreytilega vjefrjett, verði að kannast við, að uppbót sú, sem stjórnarfrv. gerir ráð fyrir, eftir töflu þeirri, sem jeg las upp, sje langt úr hófi fram, og að t. d. 14590 kr. laun, eins og taflan sýnir hæst, sje öllu meira en þjóðfjelagið hefir efni á að greiða, einkum með þeim sæg opinberra starfsmanna, sem nú er — og verða munu — jafnvel þótt nokkrir hafi launin lægri. Þeir eru þó fjölda margir með 10000 kr.

Síðasti stafliðurinn snertir dýrtíðaruppbót presta, sem nefndin hefir lagt til að yrði sú sama og fyrir aðra embættismenn. Við viljum breyta því þannig, að í stað þess, að stjórnarfrv. vill ekki láta dýrtíðaruppbót sveitapresta fara fram úr 500 kr., viljum við setja hámarkið 1200 kr. Ef brtt. þeirra hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) og þm. Stranda. (M. P.), um hálfa launauppbót presta, nær samþykki, verður útkoman svipuð.

Loks skal jeg hnýta við þetta, sem jeg hefi sagt um brtt. okkar, nokkrum almennum athugasemdum. Ástandið hjer á landi um þessar mundir er ekki ólíkt því, sem var um og eftir 1874. Þá höfðu gerst stórviðburðir í landi hjer, er stjórnarskráin var gefin og löggjafarvaldið fluttist frá Kaupmannahöfn og hingað heim, að sínu leyti svipuð tímamót og nú, er fullveldisviðurkenning landsins er fengin.

Eitt af því, sem mest bar á eftir að við föngum stjórnarskrána 1874, var það, að laun embættismanna voru hækkuð og skattalögin sett. Launalögin frá 1877 gerðu mikla breytingu á kjörum embættismanna hjer á landi og urðu þess um leið valdandi, að megn óánægja kom upp í landinu, ekki að eins vegna þess, að launin þóttu of há, heldur og vegna þess, að skattalögin voru jafnhliða sett, svo að fólkið víða áleit þau afleiðingu af launahækkuninni einni. Lítur helst út fyrir, að hvorttveggja ætli að endurtaka sig nú. Mjer er enn í fersku minni atburðir þess tíma og almannarómur, og jeg heyrði oft óánægju fólksins með hvortveggi þessi lög kent um útflutning þann til Ameríku, sem þó hófst og þyngst var landplága hjer um langt skeið. Embættislaunin og skattarnir var talið óbærilegt í sambandi við erfitt árferði, og fólkið flýði vestur um haf.

Jeg felli engan dóm um það, hvort skoðanir fólksins í þessu efni voru á rökum bygðar eða ekki; jeg skýri að eins frá þeim eins og þær birtust í viðræðum manna, í blöðum og á mannfundum.

Illa væri farið, ef vjer nú með óvægilegri skattalöggjöf og hóflausum launalögum gæfum af nýju útflutningshreyfingunni byr í seglin og fólk tæki að flýja land. Jeg er jafnvel ekki fjarri því, að til sje nú þegar vísir þeirrar hreyfingar, og þótt ýmsir haldi því fram, að ekki sje neitt að flýja undan sköttum, þá eru leiðir til Grænlands eigi torsóttar, og vel hugsanlegt að það verði „opnað.“

Það er alls eigi hættulaust að knýja fram í þinginu launalög, sem eru langt fram yfir efni þjóðarinnar og vekja gremju hennar.

Á málinu eru tvær hliðar; snýr önnur að almenningi, en hin að starfsmönnum þjóðarinnar. Hvortveggi verða að eiga atkvæði um svona mál; en í núverandi horf er því komið fyrir harðfylgi hinna opinberu starfsmanna og fylgifiska þeirra í þinginu.

Það er óhætt að segja, að allur almenningur vill láta launa opinberum starfsmönnum sómasamlega og eftir afrekum þeirra, en hann miðar þó jafnan við getu og efni. Hjer er fjöldi embættismanna meiri en annarsstaðar, og verkahringur hvers eins því oftast lítill. Þess vegna er eigi þess að vænta, að hjer sje hægt að sníða launin eftir stórskornari útlendum fyrirmyndum, enda engin ástæða til annars en að ætla þeim, er tíma hafa afgangs embættisstörfum, að nota hann sjer til tekjubóta.

Nú á jeg von á því, að hjer verði farið að líkt og áður, þegar um dýrtíðaruppbót hefir verið að ræða, að okkur, sem viljum takmarka gegndarlausa fjáreyðslu, verði núið því um nasir, að við sjeum þeir nirflir, að vilja ekki gjalda starfsmönnum landsins sómasamlega. Slíkar ákúrur læt jeg sem vind um eyrun þjóta, því að slíkir áfellisdómur eru oft feldir af römmustu eigingirni, en sá er nirfilshátturinn verstur, að unna eigi þjóðinni að njóta ávaxtanna af starfi sínu, en eyða litlum efnum hennar í tildur, brutl og bitlinga eða opinber starfslaun, sem lítið er unnið fyrir af sumum.

Annars er stefnan sú sama í brtt. okkar og fylgt hefir verið undanfarin ár með dýrtíðaruppbót, þ. e. að sjá þeim borgið, sem lág laun hafa og síst geta staðist dýrtíðina, en bæta þeim minna, sem hærri hafa launin og eru því meir sjálfbjarga, og þessarar reglu sjást líka merkin í stjórnarfrv., þótt skemra sje farið en hjá okkur, því að ákvæðið um uppbót af 3000 kr. hæst sýnir einmitt, að stjórnin viðurkennir þá stefnu rjetta.

Jeg ætla ekki að taka neina afstöðu til annara brtt., sem fram hafa komið. Hún mun koma fram við atkvgr.

*) Hámark launa og uppbótar til samans 9500 kr.