26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

26. mál, laun embættismanna

Jón Jónsson:

Jeg á með öðrum háttv. þm. brtt. á tveim þgskj. Jeg ætla fyrst að minnast á þær fyrri, á þgskj. 480. — Fyrri liðurinn er um laun prófasta, og er hún ekki stórvægileg. Háttv. frsm. (Þór. J.) gat þess, að nefndin hefði í brtt. sínum hækkað laun prófasta, og að samkvæmt till. nefndarinnar væru vísitasíulaunin ekki feld burtu. En upphaflega var það ætlun nefndarinnar að nema burtu vísitasíulaunin, en hækka sjálf launin. Það kann að vera, að þetta sje rjett, að vísitasíulaun haldist,en jeg held, að þá sjeu launin ákveðin fullhátt. Hins vegar tel jeg brtt. okkar alveg sómasamlega og hæfilega.

Þá er hinn liðurinn á sama þgskj., sem fer fram á, að prestar, sem eigi er skylt að búa í kaupstað eða verslunarstað, fái hálfa launauppbót. Eins og menn vita, þá er ákvæðið í frv. stjórnarinnar þannig, að þeir prestar, sem ræðir um í till. okkar, mega ekki fá meiri uppbót en sem nemur 500 kr. á ári. Það er mun minna en till. okkar fer fram á; því þótti okkur rjett að fara meðalveginn, þannig, að uppbótin sje að eins borguð af hálfum launum. Það er vafalaust heppilegra en að hafa fastákveðna peningaupphæð. En samkvæmt till. okkar verður þetta breytilegt eftir laununum, og getur fallið burtu ef dýrtíðin minkar. Þessi tillaga byggist á því, að prestar, sem hafa góðar jarðir til ábúðar, verða ekki eins varir við dýrtíðina og hinir, sem búa í kauptúnum. Þeir geta því verið rólegir, þó þeir fái ekki eins mikla uppbót. Jeg býst við, að flestir prestar mundu heldur kjósa að halda bújörð sinni heldur en fá alla uppbótina og vera án jarðanna. Það er ekki að eins það, að jarðirnar sjálfar eru venjulega góðar, heldur fylgja þeim mörgum þar að auki ýms hlunnindi, sem eru mikils virði fyrir prestinn, miklu meira virði en þau eru metin upp í laun.

Jeg hefi lauslega athugað, hvað mikið mundi sparast með þessu fyrirkomulagi. Mjer taldist til, að þeir prestar, sem undir þetta kæmu, væru 75 talsins. Og nú verða meðallaun 2500 kr. Þá yrði öll uppbótin eftir reglunum alls 187 þús. kr. Með öðrum orðum, ef þetta næði fram að ganga, mundu sparast 93½ þús. kr., eða helmingur allrar uppbótarinnar. Og verður ekki annað sagt en að það sje upphæð, sem nokkru nemur, þó mönnum hins vegar blöskri ekki alt lengur. Jeg skal játa, að sparnaðurinn verði að vera bygður á sanngirni. En við getum með engu móti sjeð, að ósanngirni kom fram í till.; hins vegar um verulega fjárhæð að ræða, sem engin ástæða er til að greiða.

Þá er brtt. á þgskj. 481, um hámark uppbótarinnar, við brtt. nefndarinnar á þgskj. 439. Okkur þótti eigi alls kostar rjett að hafa þetta hámark eins ákveðið og nefndin leggur til. Enda varð þetta talsvert ágreiningsatriði innan nefndarinnar. — Sumir vildu ekkert hámark hafa, en aftur voru aðrir, sem vildu hafa það hærra en ofan á varð. — Nú er það uppástunga okkar, að í staðinn fyrir 9500 komi 10500 krónur.

Þegar litið er á, hvaða menn það eru, sem þetta kemur niður á, þá vil jeg benda á, eins og líka vitanlegt er, að það eru hinir hærra launuðu mennirnir. Og þeir eru nær eingöngu búsettir í Reykjavík. Þeir hafa á hendi hin og önnur trúnaðarstörf, og er því mikið af þeim heimtað. Enda eiga þeir skilið, að þeim sje goldið sómasamlega.

Mjer hefir talist til, að þessi takmörkun næði til skrifstofustjóra í stjórnarráðinu, hæstarjettardómara, bæjarfógeta, nokkurra sýslumanna, landlæknis, póstmeistara, biskups, vitamálastjóra, landsskjalavarðar, landsbókavarðar, landssímastjóra, vegamálastjóra, húsameistara og prófessora. Þetta eru þeir sem fá lægri uppbót en ella ef till. nefndarinnar verða samþ. Menn sjá að þetta skiftir nokkrum þús. kr. Og eftir till. okkar fá þeir allflestir 1000 kr. meira en annars. Jeg geri ráð fyrir, að mönnum finnist það muna dálitlu fyrir hvern einstakan. Aftur á móti gæti hitt valdið óánægju. Og þegar litið er til þess, að ekki sparast við till. nefndarinnar nema eitthvað um 27 þús. kr., sem ekki er stór upphæð af allri launafúlgunni, þá sje jeg ekki, að neitt verulegt sje unnið við þetta. Það er öllum kunnugt, að þeir, sem búa í Reykjavík og hafa stórt hús og mikið um sig, þurfa meira en lítið til að lifa af. Þeir verða að hafa góð laun, ef þeir eiga að geta komist sómasamlega af með sig og sitt fólk. Og það þætti víst tæplega rjett að gera þessum mönnum einn kostinn nauðugan, að takmarka sig í að fjölga mannkyninu. Jeg skal geta þess, að við leggjum ekki svo mikla áherslu á, hvort sett sje nokkurt hámark eða ekki, því það skiftir í sjálfu sjer litlu máli, að minsta kosti ef slept er hæstarjettardómurum. Eftir ákvæðum launafrv. fá þeir hærri laun en aðrir embættismenn, en þar að auki jafna uppbót á við aðra. Það virðist tæplega rjett, þar sem svo er ástatt, að þeir standa einir sjer hvað snertir launaupphæðina. Í þessu eina tilfelli vildi jeg mæla með hámarkinu. Hitt skiftir meira máli, ef lágmark meiri hlutans yrði til þess, að einhverjir af þessum trúnaðarmönnum okkar segðu lausum embættunum og tækju annað fyrir. Yrðu það sennilega ekki hinir sístu.

Jeg hefi nú minst á brtt. okkar, og skal nú drepa á eitt atriði, sem háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) talaði um. Hann benti á það, háttv. þm., að rjettara væri að fara varlega í sakirnar í þessu máli. Því svo gæti farið, að alþýðu manna ofbyði svo kvaðir þær, sem á hana væru lagðar, að fólk flytti burt úr landi fyrir þá sök. En þetta er misskilningur hjá hv. þm. (Sv. Ó.). Hann vildi í ræðu sinni áðan setja fólksflutningana til Ameríku í samband við launalögin, sem þá gengu í gildi. 1885, og skattalögin. En það mun miklu fremur hafa átt rót sína að rekja til verslunarástandsins, sem þá var mjög slæmt í landinu. Eins og kunnugir muna eftir, þá flutti margt burtu úr Vopnafirði. Og mun það hafa verið að kenna slæmum efnahag í sambandi við verslunina, og auk þess var mikið harðæri um þessar mundir, sem vakti óánægju og óhug hjá fólkinu. Þetta mun hafa átt miklu meiri þátt í þessum flótta manna heldur en launalögin og þeir skattar, sem hvíldu á mönnum. Það lokkaði líka fólk, að því var heitið „gulli og grænum skógum“ þar fyrir vestan. Nú hefir alt þetta breyst, eins og menn vita. Verslunin hefir tekið stórum framförum, og þjóðin þroskast mikið og mannast. Svo að nú skilur hún miklu betur þau skilyrði, sem eru fyrir hendi, og hvað hjer er hægt að gera. Framtíðarhorfur eru allar aðrar nú, og því alt öðru máli að gegna. Þó að við nú samþ. launafrv. það, sem hjer liggur fyrir, og þar sje allhátt farið, þá geri jeg ekki ráð fyrir, að það muni valda neinni verulegri óánægju. Jeg held ekki, að sá hugsunarháttur sje ríkjandi í kjördæmi háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), eða á Austfjörðum yfirleitt, að menn þurfi að óttast slíkt. Það hefir má ske komið í ljós hjá einstaka manni, að þeir hafa talið eftir laun til embættismanna. En nú er það líka mjög sjaldgæft. Fólk skilur það nú orðið, að kröfur embættismanna hljóta að vaxa í samræmi við annað, og að slíkt er ekki til frambúðar, eins og hefir verið hingað til, að þeir eigi við verst kjör að búa. Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) mintist enn fremur á till. sína, sem fer fram á, að dýrtíðaruppbót sje ekki borguð af hærri launum en 3000 kr. Þessi till. finst mjer engan veginn sanngjörn. Þeir verða æðimargir, sem hafa hærri laun en 3000 kr., og gjalda þessa ákvæðis. Við vitum, að það eru fjöldamargir embættismenn hjer í Reykjavík, sem þetta mundi koma allhart niður á, og það eru einmitt þeir, sem einna síst ætti að kreppa að, því eins og jeg drap á áðan, eiga embættismenn hjer, sem hafa margt fólk í húsi, einna erfiðast. Ef lækka ætti þetta á annað borð teldi jeg rjettast, að það næði til embættismanna alment, en eins og till. hv. þm. (Sv. Ó.) er, finst mjer hún vera ósanngjörn.

Þá vildi jeg rjett drepa á það sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði um launin. Hann var enn á ný að tala um það, að okkur væri ekki kleift að standa straum af öllum þessum sæg af embættismönnum. Jeg skal benda á eitt atriði, sem snertir þetta. Hjer er nú á ferð, eins og kunnugt er, till. um að skilja ríki og kirkju. Ef hún næði fram að ganga, sem sennilegt er, og kirkjan yrði skilin frá ríkinu, þá losnaði ríkið við að gjalda öllum prestum á landinu. Og væri þá ljett af því þeim kostnaði, sem nemur talsvert miklu. Með tilliti til annara embættismannaflokka sje jeg ekki, að verulegur sparnaður komi þar til greina. Þeir verða að teljast ómissandi. Það liggur og í augum uppi, að eftir því sem atvinnuvegum fjölgar og framfarir verða í landinu, þá hlýtur líka embættismönnum að fjölga að sama skapi, og jeg tel ekki skynsamlegt að skamta þeim alt úr hnefa. Það mun láta næst sanni, þegar á alt er litið, að það sje búhnykkur að gjalda þeim nægilega há laun, svo að þeir geti rækt embætti sitt eins og vera ber, en þurfi ekki að vera að snapa eftir hinu og öðru, til að geta fleytt fram lífinu. Það er verulegt atriði fyrir hag þjóðarinnar í heild sinni, að embættismenn hennar geti notið krafta sinna í fullum mæli í þjónustu síns embættis. En eins og launakjör þeirra hafa verið hingað til, mun það vera vafasamt, hvort svo hafi verið.