26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

26. mál, laun embættismanna

Sveinn Ólafsson:

Eftir umræðunum í deildinni í dag að dæma lítur út fyrir, að brtt. okkar háttv. þm. Barð. (H. K.) hafi ekki fundið náð hjá háttv. ræðumönnum. Þó hafa mótmæli þau, sem fram hafa komið, einkum snúist gegn orðum þeim, er jeg ljet fylgja þeim, en miklu síður gegn brtt. sjálfum eða efni þeirra. Þetta bendir mjer á, að háttv. þingdm. muni þeim eigi mjög fráhverfir inst í hjarta sínu, en hreyfi mótmælum fyrir siða sakir til að forðast ónáð.

Jeg get ekki verið að svara öllu því, sem sagt hefir verið um mig og brtt., en að eins grípa niður á nokkrum stöðum í ræðu háttv. frsm. (Þór. J.), og ef til vill eitthvað fleira.

Ummæli háttv. frsm. (Þór. J.) voru reyndar eigi óvingjarnleg í minn garð, og að því er snertir 1.–5. lið brtt., virtist hann vera á svipuðu máli og við tillögumennirnir. En hjá honum lýsti sjer þó köld undiralda. Eins og vænta mátti, hafði hann mest að athuga við 6. liðinn. Við a-lið brtt., þar sem farið er fram á, að setja í stað „Reykjavík“: í 4 aðalkaupstöðum landsins, hafði hann það helst að athuga, að eigi væri tekið til í brtt., hverjir þessir 4 aðalkaupstaðir skyldu vera; gæti svo farið, að teknir yrðu t. d. tveir á Norðurlandi og tveir á Suðurlandi. Jeg hygg, að málvenjan hafi helgað orðtækið nægilega, að þegar nefndir eru fjórir aðalkaupstaðir landsins, þá sje átt við Reykjavík, Ísafjörð, Akureyri og Seyðisfjörð. Annars er ekkert hægra en að bæta við kaupstaðanöfnunum í brtt., ef þurfa þykir.

Þá kemur b.-liðurinn, eða sú brtt., að dauðu prósenturnar skuli hækka úr 25% upp í 35%. Jeg heyrði óglögt hvað hv. frsm (Þór. J.) sagði um brtt.; þó hygg jeg, að hann hafi ekki tilfært allsendis rjett, hver áhrif brtt. þessi mundi hafa á launauppbæturnar, eftir því, hvort fylgt væri frv. stjórnarinnar eða tillögum okkar. Til að taka af allan vafa tek jeg það fram, að dýrtíðaruppbótin eftir frv. stjórnarinnar á í ár að vera eftir þeim verðstuðli, sem hjer hefir verið reiknað með, 102% af þeim hluta launanna, sem hún nær til, en eftir till. okkar og töflu þeirri, er jeg áður las hjer upp, yrði hún 90% launaupphæðar þeirrar, sem við ætlumst til að dýrtíðaruppbót sje goldin af.

Eftir till. okkar mundi uppbótin verða 2700 kr. hæst, ef hún þryti við 3000 kr. föst laun, en eftir stjórnarfrv. yrði hún 3060 kr., og munurinn því þar 360 kr. til sparnaðar í þessu tilfelli, og virðast mjer engin neyðarkjör fyrir 3000 kr. mann að fá kauphækkun í 5700 kr. Það má auðvitað deila um það, hve há sú upphæð eigi að rjettu lagi að vera, sem uppbót er veitt af, og getur jafnan verið nokkurt álitamál. En úr því bæði stjórnin og hv. nefnd hefir komist að þeirri niðurstöðu, að eigi skuli dýrtíðaruppbót greidd af allri launaupphæð hvers eins, þá hlýtur það að verða hreint og beint álitamál, hvar hámarkið skuli sett; einum sýnist þetta, öðrum hitt. Okkur finst nú uppbót sú, er brtt. okkar gerir ráð fyrir, vera allviðunanleg.

Hv. frsm. (Þór. J.) kvað hinar tvær brtt. okkar, undir stafliðum c. og d., ekki muna miklu, en vildi þær þó feigar. Ekki hefi jeg athugað, hve miklu þær muna einar, en allar tillögurnar. Í sambandi við hámarkstillöguna um 9500 kr., sem nefndin tók upp frá mjer, mundu nema sem næst 200 þús. kr. á öllum embættislaunum, og er sá sparnaður ekki óverulegur, en hann er í alla staði forsvaranlegur.

Jeg legg áherslu á það, að við ætlumst til, að launauppbótin sje tiltölulega minst hjá þeim, sem hæst hafa föst laun og minsta hafa því þörfina. Og ef það er rjett, sem hv. frsm. (Þór. J.) sagði, að landssjóð munaði lítið um þennan sparnað, þá munar ekki heldur mikið um það, sem á hvern kemur, þegar fúlgan dreifist á hendur ca. 600 manna.

Mig furðaði, að hv. frsm. (Þór. J.) hafði það eftir mjer að jeg hefði sagt, að flutningur manna úr landi hjer fyrir næstliðin aldamót hefði stafað af breytingu þeirri, sem gerð var á launum embættismanna 1877. Tók hann þetta eftir öðrum hv. þm., sem endurtekið hafa þessa afbökun orða minna. Þetta er skuggi, sem hv. mælendur hafa verið að glíma við, því að jeg talaði aldrei þau orð, sem þeir herma upp á mig. Jeg sagði, að hækkun sú á launum embættismanna, sem varð með lögunum 1877, og þar með fylgjandi aukin skattabyrði, hefði átt nokkurn þátt í útflutningi fólks í kringum 1880. Og þetta er nokkuð annað en andmælendur mínir hafa lagt mjer í munn. Jeg er í engum vafa um, að jeg hefi hjer rjett fyrir mjer. En það, sem að öðru leyti átti mestan þátt í burtflutningi fólksins, var ekki verslunarástandið, eins og hv. 1. þm N.-M. (J. J.) var að fræða oss um, heldur hafísar og harðindi. En jeg tek það aftur fram, að breytingar á skattalöggjöfinni áttu og allmikinn þátt í útflutningnum og óánægju fólksins. Þarf ekki annað en fletta upp í blöðunum frá þeim árum t. d. „Norðanfara“, til að sannfærast um það, hverjum augum þá var litið á launalögin og skattalögin frá 1877.

Fleiri en hv. frsm. (Þór. J.) hnutu um þessi ummæli mín, og lögðu mjer jafnframt orð í munn, sem jeg mælti ekki. Einna fastast kvað þó að orði hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), því að hann fullyrti, að jeg hefði sagt, að launalögin 1877 hefðu flæmt fólk úr landi hjer. Hv. þm. (G. Sv.) vítti einnig stóryrði, sem hann taldi mig hafa notað, sagði, að jeg hefði verið að tala um gegndarlausa fjáreyðslu, og vildi auðsjáanlega þýða orð mín svo, að jeg hefði viðhaft orðið eyðsla í sömu merkingu og fjársóun eða óþarfa fjáraustur. Jeg viðhafði nafnorðið eyðsla, eins og gefur að skilja, í mótsetningu við sparnaður, og er engin ástæða eða jafnvel heimild til hártogana á þessu, og misskilningi hans er eigi til að dreifa. Hv. þm. (G. Sv.) vildi halda því fram, að útflutningurinn hefði stafað af því, að í kringum 1880 hefði þjóðin ráðist í ýmislegt, sem hefði haft allmikil útgjöld í för með sjer, og sumum blöskrað það. Jeg kannast ekki við, að þetta sje rjett. Það voru aðallega embættalaunin, bygging Alþingishússins og einhverjar vegabætur hjer nærri Reykjavík, sem fje var lagt til, og fólkinu ofbauð, og það var eftir öllum atvikum ekki undarlegt, þótt almenningi þætti djúpt tekið í árinni, því að fátæktin var mikil og almenn og alþýða manna eigi víðsýn eða framsækin, sem eðlilegt var, eftir aldagamla kúgun og kotungslíf.

Tveir af mælendum hafa getið þess, að verðstuðull sá, sem miðað er við, sje bygður á verðlaginu í júlí 1914, og því lægri en haustið 1914, en aftur hærri en haustið 1913; og hafi hv. nefnd því yfirsjest, er hún vill miða hann við haustið 1914. Jeg get ekki með fullri vissu dæmt um verðhækkun frá júlí til október 1914; þó hygg jeg, að hún nemi eigi miklu; getur verið, að kornvara hafi verið einhverju dýrari í október en í júlí; aftur á móti hefir kjöt eflaust verið dýrara í júlí en október, og líklega einnig smjör, sem selt var úr landi um sumarið. Þess vegna lít jeg á þetta eins og hótfyndni.

Því hefir verið haldið fram, að eigi væri ástæða til að bera fram brtt., er til lækkunar horfðu. Til þess að sýna fram á, á hve miklum rökum þetta er bygt, ætla jeg að bregða upp ofurlítilli fjárhagsmynd fyrir hv. þingdm. Samkvæmt því, sem stendur í nefndaráliti hv. launanefndar, ættu laun embættismanna og starfsmanna þeirra, er þar ræðir um, að verða, að viðbættri dýrtíðaruppbót, nokkuð yfir 2 milj. króna. Þó er þess að gæta, að þar eru ekki taldir með alþýðukennarar, ekki póstar, ekki ullarmatsmenn nje síldarmatsmenn, ekki ýmsir símamenn úti um land, ekki yfirsetukonur, sem nú eiga að taka laun úr landssjóði, eða eftirlaunafólk. Allir þessir þurfa þó að fá dýrtíðaruppbót, ekki síður en hinir, ef sanngirni er sýnd. Kemst þetta því eflaust upp í 3 miljónir króna, sem er sama sem 32 kr. skattur á nef hvert á landinu. Þetta er þó ekki nema minni hlutinn af því, sem greiða þarf til landsþarfa. Eftir er að leggja fram fje til samgangna, verklegra fyrirtækja, vísinda o. fl. Auk þessa eru ótalin sýslugjöld og sveitatillög. Þegar alt þetta og fleira er til tínt, mun vera óhætt að þrefalda upphæðina, sem til launa gengur, og setja öll opinberu gjöldin röskar 9 miljónir króna, eða um 100 kr. á hvert mannsbarn á landinu. Jeg skal ekkert um það segja, hvort gjaldabyrðin hjá grannþjóðunum er meiri eða minni fyrir nef hvert; mig brestur nákvæmar skýrslur um það. En það er hvorki rjett að miða við höfðatölu eða upphæð króna í þessu, heldur verður að miða við allan hag og ástæður gjaldendanna, og hjer er hann ekkert glæsilegur.

Mjer mun verða svarað því, að mikið af gjöldum þessum sje borgað af efnamönnum, og að þeir sjeu færir um að bera þau. Eigi að síður legst þó gjaldabyrðin allþungt á efnalitla menn, og áreiðanlegt er það, að fái nýmælin öll framgang, sem nú er verið að ýta áfram í þinginu, verða opinber gjöld hjer á landi miklu meiri en almenning hefir dreymt um að þau yrðu.

Jeg tel þýðingarlaust að tefja tímann með langri ræðu; hv. þingdm. munu hafa gert það upp með sjálfum sjer, hvernig þeir ætla að greiða atkvæði, og hafa vonandi gert sjer málið og afleiðingar þess nokkurn veginn ljósar. Þess vil jeg þó geta, áður en jeg lýk máli mínu, að lúalegar þykja mjer þær aðdróttanir samverkamanna minna í launanefndinni, að jeg hafi borið fram brtt. til að afla mjer gengis hjá kjósendum. Jeg gæti vissulega sagt þeim til óþurftar eitthvað enn lakara um hvatir þeirra til fylgis við frv., ef jeg vildi, og má vera, að þeir vænti þó góðrar uppskeru af því. Hins vegar liggur mjer brigsl þeirra í ljettu rúmi, og veit vel, að jeg kaupi fárra höfðingja hylli með brtt. mínum, en gerðir mínar get jeg varið fyrir sjálfum mjer, og það nægir.

Jeg þykist sjá glögt miður góðar afleiðingar af því, sem verið er að gera, og vildi að mínu leyti reyna að draga úr þeim. En jeg vildi mega beina því að andstæðingum mínum, að þeir byrji á sjálfum sjer og sópi fyrir eigin dyrum. Einstökum öðrum aðfinslum, sem að mjer hefir verið beint, læt jeg ósvarað, því að mjer finst þær ekki hafa verulega þýðingu í sambandi við þetta mál.