08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Hákon Kristófersson:

Jeg á að þessu sinni fjórar brtt., sem jeg vildi minnast á.

Eins og brtt. á þgskj. 716 ber með sjer, er styrkur sá, sem þar er um að ræða, ætlaður til aðgerðar á sjúkrahúsinu á Patreksfirði. Frsm. að þessum kafla fjárlaganna, hv. þm. Stranda. (M. P.), hefir nú farið um hann nokkrum orðum. Hann gat þess, að þessi brtt. hefði komið á síðustu stundu, og fjárveitinganefnd á óvart, engin skýrsla hefði fylgt með, og því gæti fjárveitinganefndin, sem slík, enga afstöðu tekið um hana. En þó skildist mjer, að nefndin væri till. frekar mótfallin.

Eins og sjest á till., er þar farið fram á styrk í ákveðnum tilgangi mót ákveðnu tillagi annarsstaðar frá. Er því till. alls ekki út í bláinn. Greiðsla þessa styrks gat alls ekki átt sjer stað, ef eigi kæmi tillag annarsstaðar frá, jafnmikið eða meira. Verð jeg því að líta svo á, að hv. fjárveitinganefnd hljóti að hafa aðrar ástæður til að vera á móti till. en þá, að hún gæti ekki sjeð þörfina á þessari fjárveitingu.

Jeg vil geta þess í sambandi við till., að á síðasta sýslufundi Vestur-Barðastrandarsýslu var það — að mínu áliti — óhapparáð upp tekið, að loka sjúkrahúsinu. Var það gert af því meðal annars, að meiri hluti sýslunefndar leit svo á, að það væri, eins og stæði, óhæfilegur dvalarstaður sjúklinga.

Sýslunefnd gerði lauslega áætlun um, hvað kosta myndi sæmileg viðgerð á húsinu. Vitanlega var sú áætlun ekki gerð af neinum fagmönnum í húsagerð, en þó hygg jeg, að þeir hafi getað gert sjer lausa grein fyrir því er snerti alt innan húss. Aðalviðgerðin er á grunnmúrnum, sem heita má alveg ónýtur hvernig sem á stendur. Sömuleiðis eru vatnsleiðslupípur allar bilaðar og vatnsleiðslan því í ólagi. Enn fremur ber brýn nauðsyn til að „kítta“ alla glugga og smíða innri glugga í húsið. Sömuleiðis þarf að gera við nálega öll herbergi í húsinu að innan.

Eftir hinni lauslegu áætlun sýslunefndar er álitið, að öll þessi viðgerð, eigi hún að vera sæmileg, geti eigi kostað minna en 5–6 þús. kr.

Mjer var falið að leita til þingsins um styrk í þessu skyni, því sýslunefndinni virtist auðsætt, að sýslusjóður mundi ekki hjálparlaus vera fær um að leggja á sig útgjöld þau, er hin óhjákvæmilega viðgerð hlaut að leiða af sjer. Var gert ráð fyrir því, að sýslumaður sendi álit sýslunefndar og áætlun um kostnaðinn. En mjer hefir ekki borist nein umsögn frá okkar mæta og ágæta yfirvaldi og býst jeg við, að það sje af gleymsku.

Eins og jeg hefi nú margtekið fram, er hjer að ræða um aðgerð á sjúkrahúsi. Kemur mjer það þess vegna undarlega fyrir að einmitt eini læknirimi í nefndinni skuli ekki hugsa sig um, áður en hann legst á móti slíkri till. Vitanlega tók hann ekki skýrt fram að hann væri á móti henni, en mjer skildist það þó helst. (M. P. : Tek það skýrar fram næst).

Þar sem nú hjer er ekki farið fram á mikla upphæð og svo er ráð fyrir gert, að hún fari aldrei fram úr helmingi kostnaðar, vænti jeg þess að hv. deild þyki till. sanngjörn og leyfi henni fram að ganga. Hefi jeg nú lýst þessari till. og aðaltildrögum hennar og læt hjer við sitja.

Þá er brtt. á þgskj. 717. Skal jeg strax geta þess, að þar hefir orðið meinleg ritvilla. Þar átti að standa Króksfjarðarnes, en stendur Skógarnes. Hv. frsm. fjárveitinganefndar (M. P.) gat þess, að nefndin sem slík., hefði ekki getað tekið afstöðu til þessarar till., en gerði ráð fyrir að jeg hefði ráðfært mig við samgöngumálanefnd um till. Jeg verð því miður að viðurkenna, að jeg gerði það ekki, og er það líklega yfirsjón mín. En jeg leit svo á, að hv. fjárveitinganefnd hefði mikið um þetta að segja þar sem það stæði í sambandi við styrk úr landssjóði. Og þar sem fjárveitinganefnd hefir getað sett Breiðafjarðarbátnum það skilyrði, að hann skuli koma við í Skógarnesi og Búðum í tveim ferðum, þá hlýtur hún að geta tekið afstöðu til till. minnar, annaðhvort með eða móti.

Ástæðan til þess, að jeg flyt till., er sú, að á mig var skorað á þingmálafundum, og sú áskorun hefir legið hjer frammi, að stuðla að því, að þessi bátur væri látinn fara tvær ferðir haust og vor til þessara staða. Jeg sá mjer ekki fært að fara fram á meira en eina. Býst jeg því við, að hjer sje mjög sanngjarnlega að farið, og svo framarlega sem rjett er að setja bátnum það skilyrði að koma við í Búðum og Skógarnesi, þá sje engu síður rjett, að hann komi á hina viðkomustaðina. Jeg lít svo á, að það sje svo mikið hagræði fyrir austurhluta Barðastrandarsýslu, svo og Ísafjarðarsýslu, að það sje þess vert, að till. þessi nái fram að ganga svo framarlega sem hv. deild álítur það ekki beina ósanngirni. Hv. frsm. (M. P.) skaut þessu til hv. þm. Dala. (B. J) og hv. þm. Snæf. (H. St.), sem best kunnugra manna, að gefa sitt álit. Jeg fellst fúslega á, að þessir góðu heiðursmenn sjeu færir um að dæma um þetta. En fleiri eru hæfir til þess og þar á meðal verð jeg að telja mig, og einnig þá sem borið hafa fram þessa ósk.

Jeg sje því ekki, að það sje á nokkurn hátt ósanngjarnt að vænta þess að till. þessi nái fram að ganga. Meining till. er að eins sú, að með því að slá þessu föstu geti hlutaðeigendur reitt sig á, að þessi ákvæði verði tekin upp í væntanlega áætlun bátsins.

Þá er brtt. á þgskj. 718. sem fer í þá átt, að færa upp styrkinn til íslensku orðabókarinnar úr 6000 kr. upp í 8400 kr. hvort ár.

Við 2. umr. fjárlaganna var jeg einn þeirra er greiddu atkv. móti till. fjárveitinganefndar. Var það af þeirri ástæðu, að jeg leit svo á sem þessi fjárveiting væri laun orðabókarhöfundanna, og að þeir hlytu því að fá dýrtíðaruppbót af þeim, eins og aðrir launaðir starfsmenn landsins. En nú hefir hv. fjárveitinganefnd lýst yfir þeirri skoðun sinni og í annan stað hæstv. forsætisráðh. (J. M.) að svo er ekki. Þar sem nú svo er, áleit jeg illa farið að hin upprunalega till. hv. fjárveitinganefndar náði ekki fram að ganga. Vil jeg því, þar sem jeg átti nokkurn hlut að því að svona fór, stuðla að því, að úr verði bætt. Vænti jeg, að hv. deild verði till. hlynt. sjerstaklega þar sem mikill hluti hennar hefir áður fylgt stærri till. í þessa átt.

Þá er brtt. á þgskj. 719. Hún fer fram á að hækka styrkinn til hins aldraða fræðimanns, Sighv. Gr. Borgfirðings, úr 400 kr. upp í 600 kr. hvort ár. Vænti jeg þess að hv. deild sje mjer sammála um, að þessi gamli þulur sje þess maklegur, að till. nái fram að ganga. Peningaverðfallið gildir líkt um styrk til hans eins og annara manna. En hann má þó ekki minni vera, handa þessum gamla, fátæka fræðimanni sem eins og kunnugt er, hefir varið miklum hluta af æfi sinni til að rýna í og rannsaka mikilsverð skjöl og vinna úr þeim til þjóðfjelagsþarfa. Hann hefir t. d. lengi verið að semja merkilegt rit. „Prestaæfir“. og fleira. Vænti jeg þess, að hv. deildarmenn líti svo á, að hann sje maklegur þessara 600 króna. Jeg hefði feginn viljað taka hina með sem sitja með sama styrk, en vegna ókunnugleika á þörfum þeirra gerði jeg það ekki. (M. P.: Peningar falla alstaðar jafnt). Þá var fjárveitinganefnd í lófa lagið að taka þessa menn með.

Jeg legg nú brtt. þessar á vald hv. deildar. Ætla jeg mjer ekki þá dul, að fá menn með þessum fáu orðum til að breyta skoðun þeirri, er þeir hafa fyrirfram myndað sjer. Örlög þessara tillagna, eins og annara, eru fyrirfram ákveðin og læt jeg skeika að sköpuðu.

Hv. frsm. (M. P.) gat þess í ræðu sinni, í sambandi við símann, sem fjárveitinganefnd var ekki á móti fyrir sitt leyti að lagður væri til Ingólfsfjarðar, um leið og landssíminn frá Hólmavík til Reykjarfjarðar að til þessa síma væri ætluð mikil fjárframlög frá einstökum mönnum eða hjeruðum, Jeg get ekki litið svo á, að þetta sjeu nokkur rök í þessu máli. Fyrst og fremst skil jeg ekki, hvers vegna hv. fjárveitinganefnd hefir fallið frá því, sem lengi hefir verið á döfinni, og er loftskeytastöð en ekki sími. Línur landssímans anna ekki þörfinni sem þar er nú og verður. En jeg veit, að loftskeytastöð, með landssímamillibili milli Ingólfsfjarðar og Reykjarfjarðar, mundi miklu frekar koma að æskilegu liði. Það er leitt, að hv. fjárveitinganefnd skyldi ekki hverfa að þessu ráði, sem er miklu ódýrara, og sjerstaklega þar sem mestur hlutinn af hinni fyrirhuguðu símalínu hlýtur að verða lagður um óbygðir. Þar sem svo stendur á, tel jeg miður farið að setja síma, er fulltrygt er með loftskeytastöð. Einkanlega er þó þetta einkennilegt, að hv. frsm. M. P.) mælir með símalínu þarna um óbygðir, þar sem hann getur ekki mælt með símalínu um austurhluta Barðastrandarsýslu, sem. eins og allir hljóta að kannast við, mundi auk þess sem hún tengdi marga hreppa sýslunnar saman, verða til þess að gera símasamband Suður- og Vesturlands verulega trygt.

Þessi orð mín má alls ekki skilja svo að jeg sje á móti lagningu þessarar símalínu. En jeg get einungis ekki sjeð samræmið þarna á milli, en svo er það í fleiri málum og tillögum háttv. fjárveitinganefndar.