26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

26. mál, laun embættismanna

Sigurður Sigurðsson:

Þegar jeg talaði í dag, gleymdi jeg að geta um tvær af brtt. mínum, og skal jeg nú minnast á þær og nota tækifærið til að sýna fram á, að þær eru alls eigi óverulegar.

Fyrri brtt. er á þgskj. 496, undir tölulið d., og á við 11. gr. stjórnarfrv. Í þessari 11. gr. frv. er í 5. málsgrein þannig að orði komist, að kostnaðurinn við starfrækslu embætta þeirra, sem í greininni eru nefnd, skuli greiðast úr ríkissjóði sjerstaklega, og að dómsmálaráðherra ákveði fyrirfram fyrir hver 5 ár í senn, hve mikill kostnaður þessi skuli vera í hverju lögsagnardæmi fyrir sig. Nokkurn hluta þessarar málsgreinar vildi jeg orða öðruvísi. Jeg vildi hafa hann þannig, að kostnaðurinn væri ákveðinn eftir tillögum dómsmálaráðherra og samþykki Alþingis fyrir hver 5 ár í senn. Hv. frsm. (Þór. J.) mintist á þetta í dag og takli aðferðina óbrotnari eftir frv. en till. minni. Mjer skildist á honum, að hann væri hræddur um, að það mundi ganga lengri tími til að ákveða kostnaðinn eftir till. minni en eftir stjórnarfrumvarpinu. Má vera, að svo yrði. En mjer finst stjórnarfrv. selja dómsmálaráðherrunum nokkuð mikið sjálfdæmi. En þeir geta verið misjafnir, eins og aðrir menn, og vil jeg því eigi, að þeir sjeu einvaldir um þetta, heldur sje það látið koma undir þingið.

Hin brtt. er á þgskj. 497, 6. töluliður, og er við 43. brtt. hv. nefndar, sem er um það, að lög þessi gangi í gildi 1. janúar 1920. Þó skuli dýrtíðaruppbót fyrir síðara missiri 1919 teljast af núverandi launum, eftir reglunum í 33. gr.

Þessi síðari málsliður greinarinnar legg jeg til að falli burt. Það er verulegt atriði og miðar til ekki svo óverulegs sparnaðar. Jeg, sem sagt, vek athygli á þessari brtt., tel hana þýðingarmikla, og vænti þess vitanlega, að hún verði samþ.

Úr því að jeg stóð upp á annað borð, skal jeg leyfa mjer að segja nokkur fleiri orð, aðallega út af ýmsum ummælum hjer í deildinni í dag, sem sumpart hafa verið stíluð til mín.

Jeg er þakklátur háttv. frsm. (Þór. J.) fyrir undirtektir hans undir till. mína á þgsk. 495. Út af því, sem hann sagði um sparnaðinn við að samþ. till. mínar, skal jeg geta þess til leiðrjettingar, að sá sparnaður mun nema 40–50 þús. kr., fyrir utan síðustu brtt. mína á þgskj. 497, um að síðasti málsliðurinn í brtt. nefndarinnar falli burt. Ef sá sparnaður væri tekinn með, þá myndi hann vitanlega nema miklu meiru en 40–50 þús. kr., sennilega á annað hundrað þús. kr.

Þá skal jeg leyfa mjer að leiðrjetta misskilning háttv. frsm. (Þór. J.), þar sem hann mintist á húsameistarann. Jeg tók hann að eins sem dæmi þess, að stöðugt væri verið að smíða ný embætti, en fór ekkert út í það, hvort hann væri þarfur eða óþarfur. Það getur vel verið, að það verði ekki kostnaðarsamara að hafa þenna mann á föstum launum, úr því að ráðið er, að hann verði meira og minna í þjónustu hins opinbera.

Jeg gat þess líka, að jeg hefði helst óskað, að frv. þetta hefði aldrei fram komið. Það er satt, og jeg stend við það. En jeg bætti því við, að jeg hefði talið rjettara að láta sjer nægja að þessu sinni að lappa upp á dýrtíðaruppbótarlögin. Annars vil jeg vekja athygli á því, að jeg sje ekki, að dýrtíðarlögin frá síðasta þingi sjeu numin úr gildi með þessu frv., ef það verður að lögum. Það er kann ske álit nefndarinnar, að þau falli þá úr gildi af sjálfu sjer. En það tel jeg vafasamt. Svo að þá ættum við þarna tvenn dýrtíðarlög að fara eftir.

Háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) gat þess, í sambandi við það, sem jeg hafði sagt, að embættismenn myndu rækja því betur stöður sínar, sem þeim væri hærra launað. Orð hans fjellu á þessa leið. Jeg skal geta þess, að jeg held, að allir betri embættismenn landsins, sem eru starfi sínu vaxnir, leysi störf sín vel af hendi. En þeir eru auðvitað misjafnir embættismennirnir, eins og aðrir. Og um suma embættismenn er það að segja, að þeir geta ekki, ýmissa hluta vegna, leyst störf sín vel eða viðunanlega af hendi, vegna ýmissa orsaka, ellilasleika, heilsubrests eða annara galla — Hitt er vafasamt, hvort aukin laun gera embættismennina betri eða skylduræknari.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að við, sem viljum halda í og ekki fara altof geist í launahækkunum, litum að eins á málið frá annari hliðinni, og tækjum alls ekki tillit til þess, hve dýrt er að lifa vegna verðfalls peninga. Jú. Okkur er þetta fyllilega ljóst. Jeg hefi oft tekið það fram, að mjer er raun að því að mæla á móti launahækkunum alment. Jeg get vel unnað mönnum þess, að þeim líði öllum sem best, og ekkert síður starfsmönnum landsins en öðrum. En nauðsyn brýtur lög. Og jeg segi það aftur: Fjöldi embættismannanna er orðinn svo mikill, að þjóðin hefir naumast ráð á að launa þá alla sem sumir kalla ,,sómasamlega.“

Skal jeg þá koma að því, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) beindi til mín. Hann beindi til mín þeirri spurningu í sambandi við það, sem jeg sagði áðan, að nauðsyn væri að fækka embættum, ef þess væri nokkur kostur, og launa hinum þá þeim mun betur, hvaða embætti það væru, sem talist gætu óþörf. Mæltist hann til, að jeg semdi skrá, eða jafnvel flytti frv. um að leggja þau embætti niður, sem óþörf væru. Án þess að fara langt út í þá sálma, skal jeg gera það hv. þm. (G. Sv.) til geðs að nefna nokkrar opinberar sýslanir, sem jeg tel, að vel mættu missa sig, þjóðfjelaginu að skaðlausu. Jeg mintist áðan á örfáa pósta, en háttv. þm. (G. Sv.) hefir líklega ekki tekið eftir því.

Þegar um óþörf embætti er að ræða, er fyrst að nefna ráðherraembættin, að vísu ekki öll. Við gætum byrjað með að fækka þeim um tvo. Jeg var upphaflega á móti fjölgun ráðherra, og er enn ekki orðinn sannfærður um, að sú fjölgun hafi gert gagn landi eða þjóð, nema síður sje. Enn fremur er mjer sagt, að nú bregði svo kynlega við, að töluverð ráðherra-ólyst sje komin í háttv. þm. Sá sjúkdómur mun vera nýr og áður óþektur. En þá virðist vera aukin ástæða til að fækka ráðherrum. Má vel vera, að 1916–17, þegar ráðherrunum var fjölgað, hafi nokkuð ráðið um fjölgunina, hvað margir þá vildu verða ráðherrar, enda var það mjög haft á orði.

Þá má sjálfsagt fækka eitthvað kennurum háskólans. Ef t. d. ríki og kirkja yrði aðskilin, mætti fækka um einn eða tvo kennara í guðfræðisdeildinni. Og ef vel væri leitað, mundi mega finna tvö til þrjú embætti önnur við þessa stofnun, sem vel mættu missa sig. (Fjármálaráðherra: Ættum við ekki að leggja niður hæstarjett?) Lög um hann hafa nú verið samþ. Jeg lagði til, að framkvæmd þeirra yrði frestað um tvö ár, en þótt sú tillaga væri í alla staði hyggileg, eins og á stóð, náði hún ekki fram að ganga. (Fjármálaráðherra: Leggjum niður biskupsembættið líka). Verði ríki og kirkja aðskilin, hverfur biskupinn auðvitað úr sögunni. Nefna mætti og ýmsa skóla. T. d. hefir mörgum virst kennaraskólinn vel mega leggjast niður. Fjármálaráðherra: Og mentaskólinn). Ef nafni minn, hæstv. fjármálaráðh. (S. E.). flytur tillögu um það, er jeg manna vísastur til að fylgja honum þar að máli. Loks skal jeg geta þess um lægra launuðu starfsmennina, að vel getur komið til mála, að nokkuð sparaðist við það, að sameina síma- og póstafgreiðslur, þar sem það er á sama staðnum. Vitanlega þyrfti að launa þeim eina manni, sem hefði bæði störfin á hendi, nokkru betur en nú á sjer stað um hvorn starfann fyrir sig. En þó að þau einu laun yrðu nokkuð aukin, myndi þó ekki sparast svo lítið. Og lengur mætti halda áfram að telja, en jeg læt mjer nægja þesa skýrslu að sinni. En lifi jeg það, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) verði ráðherra, skal jeg verða honum hjálplegur um fyllri skrá yfir óþörf embætti. En jeg læt nú hjer staðar numið í þetta sinn. En það er sú minsta krafa, sem hægt er að gera í þessu efni, að hætt sje við að búa til ný óþörf embætti. Mjer er t. d. sagt, að nú sje í ráði að búa til handa einhverjum, sem þingið á í fórum sínum, nýtt embætti, sem á að heita sendiherraembætti niður í Kaupmannahöfn. En þetta embætti telur sagnfræðingurinn Bogi Th. Melsted og ýmsir fleiri góðir menn allsendis óþarft. Og þetta tek jeg undir af fylstu sannfæringu. Jeg bendi háttv þingmönnum nú á þetta til athugunar.

Hv. frsm. (Þór. J.) hneykslaðist á ummælum mínum um 33. gr. frv. Jeg tek það ekki aftur, sem jeg sagði. Greinin er stórgölluð. En verði samþ. brtt. þær, sem fram eru komnar við greinina, þá er alt öðru máli að gegna. Annars legg jeg áherslu á það, að ef greinin verður að lögum eins og hún er orðuð í stjórnarfrv., mun hún binda þjóðinni þann bagga, sem erfitt verður undir að rísa. Og auk þess er alls ekki útilokað, að ákvæðum hennar verði misbeitt.

Skal jeg svo ekki tefja tímann lengur. Hefi jeg svarað því helsta, sem vikið hefir verið að mjer, og læt því staðar numið.