26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

26. mál, laun embættismanna

Magnús Pjetursson:

Jeg sá engan biðja sjer hljóðs, en kunni ekki við að láta verða hlje á umr. Jeg bjóst alls ekki við, að svo fljótt myndi niður falla umr. um þetta mál. Þótt jeg búist ekki við að segja mikið sjerstaklega nýtt um þetta mál, sem ekki hefir verið sagt einhvern veginn áður, vil jeg þó undirstrika sumt. En sjerstaklega eru það þó nokkrir sundurlausir þankar út af brtt. á þgskj. 499. Má segja, að allur sá aragrúi af brtt., sem kominn er fram í þessu máli, sje smávægilegur í samanburði við síðustu brtt. á þessu þgskj., við 33. gr. Það er meginatriði alls frv., og hlýtur að ráða mestu um það, hvernig þessu máli lyktar, ekki að eins hjer á þingi, heldur og meðal þjóðarinnar. Þessi till. er nokkurskonar sprengidufl, sem getur valdið hinum mesta glundroða, ekki að eins innan þingsins, heldur og á öllum sviðum þjóðfjelagsins. Afleiðingarnar yrðu alveg ófyrirsjáanlegar, ef brtt. þessi verður samþykt. Vjer vitum, að embættismenn og starfsmenn ríkisins yfirleitt hafa sætt sig við stjórnarfrv., þótt mörgum þyki launin þar skorin við nögl. Og þó að nefndin, eða meiri hluti hennar, sem borið hefir fram brtt., hafi ekki tekið að öllu leyti til greina kröfur og óskir starfsmanna ríkisins, verður það þó vonandi ekki mikill ásteytingarsteinn. En hitt er jeg í litlum vafa um, að það getur orðið mikill ásteytingarsteinn, ef þingið breytir eins út frá rjettri stefnu í þessu máli og brtt. gera.

Hv. þingdm. verða að athuga vel, hvert þeir fara, áður en þeir samþykkja þessar brtt. Það er athugavert við þessar brtt., að þær eru svo vel og kænlega dulbúnar, að menn geta ekki sjeð strax, að hjer er tekin önnur stefna en hjá stjórninni. Jeg býst við, að flutningsmenn hangi í því, að þeirri stefnu sje haldið, að veita dýrtíðaruppbót eftir verðlagsskrá. En það er óhætt að segja, að það er slumpareikningur út í loftið, fjarri því, sem er í 33. gr. frv. Því að þessir 2/3 launanna eru þannig til orðnir, að ekki eru teknar nema nokkrar vörutegundir, þegar reiknaður er út verðstuðullinn. Og af því að hagstofan gerir ráð fyrir, að teknar sjeu að eins þær vörur, sem hækka mest í verði, og verðlagsstuðullinn þannig verður þeim mun hærri, þá eru teknir að eins 2/3 launanna. En það sjá allir, að þegar þessir 2/3 eru komnir niður í 2000 þús. kr. að hámarki, þá er langt frá því, að bætt sje upp í þessi svo kölluðu „þurftarlaun“.

Sjálfsagt hefir það vakað fyrir hv. flutningsmönnum þessarar brtt, að spara fje með þeim. Og það er satt, að í svipinn sparast fje með þessu. En jeg býst ekki við, að það sje sparnaður eða hagur fyrir þjóðfjelagið, ef brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) ná fram að ganga. Hv. 1. þm. S. M. (Sv. Ó.) sagði, að það, sem frv. fer fram á, sje meira en við höfum ráð á að bjóða. En jeg vil snúa þessu við og segja: Við höfum ráð á öllu fremur en að missa okkar bestu starfskrafta. Er það að búa í haginn fyrir framtíðina, að ganga svo frá, að framar fáist ekki hæfir menn til að vinna fyrir þjóðfjelagið. Það er bersýnilegt, að ungir menn, sem eitthvað eiga undir sjer og hæfir eru til að verða nýtir starfsmenn, hyllast ekki til að búa sig undir stöður hjá ríkinu, ef það er versti vinnuveitandinn. Það er hin mesta hætta. Við megum því ekki vinna að því, að starfsmenn ríkisins verði í framtíðinni óhæfari til að gegna störfum sínum en verið hefir. Það er svo laukrjett, sem hv. frsm. (Þór. J.) sagði, að ríkið á að launa þannig, að það eigi altaf víst að geta valið úr mönnum.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að búast mætti við, og jafnvel bólaði þegar á, að útflutningur manna hjeðan af landi gæti aukist, ef frv. þetta og brtt. meiri hlutans yrðu að lögum. Þessu hefir þegar verið svarað á ýmsan hátt. Getur verið, að ýmsir menn flyttu af landi burt af þessum sökum, en jeg held, að þeir yrðu ekki margir, sem landinu væri eftirsjá í. Yrði það þá heldur landhreinsun, ef þeir hugsuðu á líka leið og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). En ef brtt. þessa hv. þm. (Sv. Ó.) verða samþyktar, þá verður áreiðanlega útflutningur. Þá fara hjeðan hæfustu og bestu starfsmenn landsins þangað, sem þeir búast við að geta lifað.

Sami hv. þm. (Sv. Ó.) sagði, að svo mikil óánægja myndi af því rísa, ef frv. með brtt. nefndarinnar yrði samþykt, að hún gæti orðið óviðráðanleg. Jeg fyrir mitt leyti óttast það ekki, og það jafnvel þótt þessi hv. þm. (Sv. Ó.) færi um alt land og hjeldi þar sömu ræðuna, sem hann hjelt hjer. Þjóðin er of þroskuð til þess, að slíkt geti verkað á hana. En ef brtt. hv. l. þm. S.-M. (Sv. Ó.) verða samþyktar, þá verður óánægja meðal allra starfsmanna ríkisins, sem gæti orðið óviðráðanleg, og þjóðin mun engar þakkir kunna þinginu fyrir þesskonar ráðstafanir, þesskonar hjálparráð. (Sv. Ó.: Jeg er dauður.) Flutningsmenn brtt. eru tveir, og getur hinn þá svarað fyrir hinn látna.

Eitt var enn, sem sami hv. þm. (Sv. Ó.) sagði í síðari ræðu sinni, að til sín hefði verið beint þeim aðdróttunum, að hann og kann ske fleiri töluðu svo í þessu máli til að geðjast kjósendum. Jeg drótta því alls ekki að honum, því að jeg veit, að hann þekkir íslenska kjósendur betur en svo. Hann veit, að þeir standa á hærra menningarstigi en svo, að hann gæti ímyndað sjer, að þeir taki slíkri framkomu vel, eða telji hana frambærilega til þjóðþrifa.

Á undanförnum þingum hefir stöðugt verið rætt um það, að ráða fram úr svo kölluðum bjargráðamálum. Menn hafa ekki álitið, að neitt slíkt lægi fyrir þessu þingi nú, þegar ófriðnum er lokið. En það gæti farið svo, að þetta mál reyndist ekki síður mikið bjargráðamál en sum önnur. Ef þessu máli er ráðið þann veg til lykta, að trygging sje fyrir, að ríkið geti jafnan fengið þá hæfustu starfsmenn, sem unt er að fá, þá er það bjargráð fyrir framtíðina, sem kemur til góða bæði sjálfum okkur og niðjum okkar, sem við vinnum fyrir.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) var að tala um, að þjóðin hefði ekki ráð á, að borga starfsmönnum það, sem kallað er sómasamlega. Jeg tók fram áðan, hvað það væri, sem þjóðin hefði ekki ráð á. En það liggur í hlutarins eðli, sem og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir tekið fram, að ef ríkið hefir ekki ráð á að borga embættismönnum sínum, þá getur ekki þjóðarbúskapurinn staðist, eða þjóðfjelagið. Jeg held, að báðir hv. flutningsmenn brtt. á þgskj 499, sem eru bændur, kannist við það, að ef þeir gætu ekki fengið hæfa vinnumenn til að starfa að búum sínum, þá yrðu þeir að hætta að búa. Eins er það með ríkið. Ef það getur ekki fengið góða menn í sína þjónustu, veit jeg ekki, hvernig þjóðarbúið á að geta staðist.

Jeg ætla ekki að fara neitt sjerstaklega út í brtt. mínar og hv. 1. þm. N.-M. (J. J.). því hann hefir þegar gert grein fyrir þeim. En jeg vildi að eins vekja athygli hv. deildarmanna á þeim atriðum málsins, sem jeg hefi minst á, því jeg tel of mikið lognmók yfir mönnum í öðru eins stórmáli og hjer er á ferðinni, og getur því ekki skaðað að ýta við þeim.