30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

26. mál, laun embættismanna

Sveinn Ólafsson:

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) hjelt hjer í deild dálítinn líkræðustúf yfir mjer við 2. umr. Vildi hann sýnilega neyta þess, að jeg var fallinn í valinn. enda var þá orðið svo áliðið nætur, að við fundarslitum mátti búast á hverri stundu.

Háttv. þm. (M. P.) var með þessu að reyna að molda brtt. mína á þgskj. 499, sem gekk í þá átt, að takmarka dálítið dýrtíðaruppbót embættismanna eftir 33. gr. stjórnarfrv. Það mætti kann ske segja, að þar eð flestar þessar till., sem jeg þá bar fram, eru fallnar, væri tilgangslaust að tala um þær nú. En af því að meðferð þeirra hlaut að leiða til þess, að aðrar brtt. kæmu fram, þá taldi jeg rjett að minnast á þær, og þá aðallega 67. brtt., er mestu máli skiftir. Háttv. þm. Stranda. (M. P.) kvað svo að orði, að hún væri í mesta máta blekkjandi, og væri hún eins konar sprengidufl, sem mikið ilt gæti leitt af, ef hún yrði samþykt.

Eðlilegt var, að hann vildi koma brtt. fyrir, en það var ekki eðlilegt, að hann hefði þessi orð um hana. Jeg hafði með ljósum útreikningi og töfluyfirliti sýnt, hver áhrif brtt. hefði á launakjörin, og þetta hafði gengið meðal þm. Þetta var því engin blekking, og er allgrálega að orði kveðið hjá háttv. þm. (M. P.), er veifar þessari blekkingarsögu.

En úr því að jeg fór að minnast á sprengidufl, vil jeg leyfa mjer að minna hann á annarskonar sprengidufl, sem lagt var hjer í deild 1918, og honum var ekki óskylt. Það var lagt þegar ræða var um dýrtíðaruppbót af aukatekjum lækna. Þá upplýsti háttv. þm. (M. P.) um það, að aukatekjur alls þorra þeirra næmi 50–60 kr., og væri því ekki mikið að greiða 60% dýrtíðaruppbót af slíkum tekjum. En þetta sprengidufl „exploderaði“. Um nýár næstliðið, er skýrslur lækna komu, sýndu þær aukatekjur 10-faldar eða 100- faldar á við það, sem upplýst hafði verið. En þá var markinu náð og landssjóður búinn að lofa 60% uppbót aukatekna.

Jeg skal svo ekki tefja umr. frekar um þessi gömlu sprengidufl hv. þm. eða till. mínar, sem fjellu við 2. umr., að eins minnast á, að eftir þeim átti hæsta dýrtíðaruppbót að verða 2700 kr., miðað við núverandi verðlag. Auðvitað var þá miðað við það, sem í till. stóð einnig, að dauða prócentan af verðhækkuninni væri 35 en ekki 25%. Það getur verið álitamál, hvar hæfilegt sje að setja hámark fyrir dýrtíðaruppbótinni, en um það býst jeg við að allir sjeu sammála, að þegar dýrtíð er í landi, beri öllum að taka þátt í henni, hverjum eftir sínu magni, en ekki að veita vissum flokkum manna færi á að lifa eins og blóm í eggi, þegar aðrir, ef til vill fjöldinn, lifir við neyðarkjör. En 33. gr. veitir vissum flokki embættismanna þessi vilkjör, ef óbreytt stendur, og jafnvel færi á að lifa eins og kóngar, þótt sultur og seyra sje í landi. Þess vegna hafa tilraunir mínar lotið að því, að fá meira rjettlæti í launaveitingum. Þetta er líka fullkomlega samkvæmt þeirri reglu, sem fylgt hefir verið hjer á þingi að undanförnu, er um dýrtíðaruppbót hefir verið að ræða, að reyna að sjá þeim borgið, sem láglaunaðir voru og síst þoldu dýrtíðina, en bæta hinum minna, sem sjálfbjarga voru.

Þá kem jeg að brtt., sem jeg á á þgskj. 559. Fyrri liðurinn lýtur að því, að binda dýrtíðaruppbótina við 1925 fyrst um sinn, og að þá gefist tækifæri á að taka ákvörðun um afnám hennar eða breytingu, eftir því, sem reynslan þá bendir til. Þá verður öllum orðið ljóst, hverju hún nemur og hvernig hún kemur niður á þiggjendum, en nú vaða flestir í villu og svima um það.

Í launanefndinni var eftir till. minni samþykt að taka upp þetta sama ákvæði og miða við 1930, en skrifarar nefndarinnar hafa vanrækt að bera hana fram með öðrum till. nefndarinnar, og tók jeg fyrst eftir þessu nýlega. Þess vegna ætti nefndin að vera okkur flm. till. á þgskj. 559 þakklát fyrir að bæta úr vanrækslunni, og styðja till.

Jeg sje ekki ástæðu til að ætla, að dýrtíðaruppbót falli niður 1925, svo sem móthaldsmennirnir telja víst. Ef hún virðist rjettlátleg, mun henni haldið áfram, annaðhvort í sömu mynd og nú er ráðgert, eða breyttri, og er síður en ástæða til að vera að lögfesta þessa aðferð um óákveðinn tíma. En þess skal jeg láta getið, að jeg býst við, að gjaldendur verði búnir að fá þann forsmekk af henni 1925, að þeir vilji hafa hana með öðrum hætti og meira eftir sönnum þörfum sniðnar en þessi er; enda hygg jeg, að þá verði komið í ljós, hve óheppilegt var að fella við 2. umr. till. mína og háttv. þm. Barð. (H. K.) á þgskj. 499. Eftir reglunni, sem nú virðist eiga að gilda, virðast geta setið við 5–6 þúsund króna laun ýmsir menn, sem að eins hafa lítilfjörleg aukastörf. Jeg tek það fram í þessu sambandi, að jeg hlýt að setja stórt spurningarmerki við þá niðurstöðu háttv. frsm. (Þór. J.), að breytingin, sem leiddi af því, að samþykt var brtt. mín um, að 1914 kæmi í stað 1913, hafi valdið 190 þús. kr. rýrnun á dýrtíðaruppbót. (Þór. J.: Jú, með því að taka dýrtíðaruppbótina til presta með). Jeg leyfi mjer að setja stórt spurningarmerki við þessa niðurstöðu alt að einu.

Þá vil jeg nokkuð minnast á annan lið brtt. á þgskj. 559. Þar er farið fram á, að í stað 3000 kr. hámarks komi 2400 kr. hámark. Leiðir breytingin til þess, að hætt verður, eins og háttv. frsm. (Þór. J.) tók fram, að greiða dýrtíðaruppbót, er launin nema 3600 kr. Þegar svo er, og ef það væri rjett, að verðstuðullinn lækkaði nokkuð fyrir það, að miða við 1914 í stað 1913, þá ætti hæsta dýrtíðaruppbót að verða, eftir verðlagi því, sem nú er, alt að því jafnmikil þessari upphæð, eða yfir 3000 kr., eða laun og dýrtíðaruppbót til samans 3600 + 3000 = 6600 kr.

Yfirleitt verður hartnær tvöföldun á öllum launum upp að 3600 kr., en stöðug 3000–3200 kr. hækkun á öllum launum þar fyrir ofan. Þess vegna líka 4500 kr. laun bætt upp í ca. 8400 kr.

Jeg kannast við það, að sparnaðurinn eftir till. 559 verður ekki ýkjamikill, úr því að ekki tókst að koma fram brtt. á þgskj. 499, um að færa launamark dýrtíðarbóta úr 3000 í 2000 (2/3), eins og þar var lagt til, en þó mundi það nægilegt til þess að brúa eitt manndrápsvatnið eða að fá friðaðan Þingvöll að nokkru, og væri það sæmra en að ausa fje að óþörfu í miður þarfar eða verðskuldaðar launabætur.

Með brtt. minni á þgskj. 559 er bygð brú fyrir þá, sem voru svo slysnir, að fella fyrri till. á þgskj. 499, og mætti það verða til þess, að nokkuð yrði bætt úr skák og hófi nær um eyðsluna.

Jeg tók það fram við 2. umr., að ef brtt. mín á þgskj. 499 yrði samþykt, mundi sá frádráttur á dýrtíðaruppbót alls hafa numið um 200,000 kr., og er það að vísu eigi mikið af þeim 3,000,000 kr., sem nú má ætla að öll launafúlga allra opinberra starfsmanna nemi. Af þessu sparaða fje er að vísu nokkuð fengið með hámarksákvæði launa og uppbótar, 9500 kr., en þó tiltölulega lítið, af því að sú takmörkun hittir að eins fáa menn.

Mótstöðumenn till. hafa haldið því fram, að með því að miða verðlagið við 4 aðalkaupstaðina, í stað Reykjavíkur einnar, mundi uppbótin verða mikið rýrð. Þetta er fjarstæða. Annaðhvort munar það litlu eða engu, en það getur breytt meðalverði frá ári til árs lítillega, og er það rjettlætt, úr því að leita á meðalverðs.

Fyrir utan þessa brtt., sem jeg hefi talað um, á jeg aðra á þgskj. 570. Hún lýtur að því, að færa upp hámarkslaun skólastjórans á Eiðum úr 3200 upp í 3600. Eftir till. nefndarinnar eru lágmarkslaun hans færð úr 2200 upp í 2600. Aftur vildi nefndin ekki, að þessi embættismaður fengi sömu hækkun og aðrir embættismenn á hans reki, eða 1000 kr. hækkun frá lágmarki til hámarks. Þess vegna hefi jeg leyft mjer að bera þessa brtt. fram. Mjer finst ekki rjett að gera þessum embættismanni lægra undir höfði en öðrum, því að sannarlega munar ekki mikið um einn lítinn kepp í þessari miklu sláturstíð. Maður þessi getur eftir minni till. að eins rösklega náð lágmarkslaunum skólameistara á Akureyri, og er þó verkahringur þeirra mjög svipaður. Virðist mjer því óviðeigandi að gera þeirra svo mikinn mun. Lágmarkslaun skólastjórans á Akureyri eru 3200 kr., en jeg legg til, að hámarkslaun skólastjórans á Eiðum verði 3600 kr.

Aðrar brtt. frá einstökum þm., sem hjer liggja fyrir, get jeg látið liggja milli hluta að svo komnu máli. Jeg hefi ekki margt við þær að athuga, svo að jeg skal ekki tefja tímann frekar, heldur gefa þeim færi á að komast að, sem kvatt hafa sjer hljóðs.

Eitt hefir mjer láðst að taka fram. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagðist vonast eftir, að við, sem gerst höfum flutningsmenn að brtt. á þgskj. 559, tækjum þær aftur. Sú von rætist ekki, og skortir til þess bæði vilja og getu.