30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

26. mál, laun embættismanna

Magnús Pjetursson:

Háttv. 1. þm. S.M. (Sv. Ó.) lítur alt of stórum augum á sjálfan sig ef hann heldur, að jeg hafi ekki þorað að tala fyr við 2. umr. en jeg gerði, af því að jeg óttaðist hann. Í fyrsta lagi hefði honum ekki verið bannað að gera athugasemd, ef hann hefði viljað. Í öðru lagi átti hann sjer meðflutningsmann, sem gat svarað fyrir hann. Og í þriðja lagi var þetta ekki lokaumr., og jeg gat því átt von á ádrepu frá honum við þessa umr.

Þá mintist hann mikið á þetta sprengidufl. Það er rjettnefni, því að jeg býst við, að till. hefði getað valdið sundrung og vandræðum í þjóðfjelaginu, ef hún hefði verið samþ. En svo mintist hann á sprengidufl, sem jeg hefði komið með, er jeg sagði á þingi 1918, að sumir læknar hefðu ekki nema 50–100 kr. í aukatekjur á ári. Það er rjett, að jeg sagði þetta. Og jeg gerði meira en segja það; jeg sannaði það með skrá yfir tekjurnar, skrá, sem jeg hafði fengið frá stjórnarráðinu. Mig furðar það, að hv. þm., þó að hann sje tekinn að eldast, skuli hafa mist svo minni, að hann ekki muni þetta, því skjal þetta gekk hjer milli hv. deildarmanna. En hvaða sprengidufl hv. þm. hefir svo átt við, að jeg hafi þá lagt í þessu sambandi, get jeg alls ekki skilið, nema ef hann á þar við inflúensuna, sem gerði það að verkum, að aukatekjur sumra lækna hækkuðu að miklum mun. Jeg býst þó varla við, að hv. þm. (Sv. Ó.) ætli að kenna mjer inflúensuna.

En það var ekki þetta, sem hvatti mig til að kveðja mjer hljóðs, heldur hitt, að jeg vildi benda háttv. deild á nokkrar tölur í ræðu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), því að þm. hefir þar bersýnilega farið með rangt mál, og jeg skil ekki, að hann hafi gert það óviljandi.

Hann sagði, að ef hans till. yrði samþ., yrði 3600 kr. dýrtíðaruppbót á 3600 kr. launum. Nú er margbúið að sanna, að breytingin á frv., um að miða við haustið 1914, hefir í för með sjer hjer um bil 10% lækkun á vísitölunni. Og þegar verðlagsstuðullinn er þar á ofan miðaður við verð í 4 kaupstöðum, er uppbótin komin ofan í 85%. Og þegar þar að auki hefir verið bent á, að þetta er einmitt samkv. útreikningi hagstofunnar, þá er kynlegt, að þm. (Sv. Ó.) skuli samt sem áður margfalda með þessum gömlu tölum. Það hlýtur að vera gert til þess að blekkja. (Sv. Ó.: Jeg hefi ekki sjeð neitt lagt fram frá hagstofunni). Hv. frsm. (Þór. J.) skýrði frá því, eftir skjali, sem lá fyrir, og vona jeg, að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) ætli sjer ekki að halda því fram, að frsm. (Þór. J.) hafi búið það til sjálfur. Og svo vildi jeg minna deildina á, hvað búið er að samþykkja hjer áður. Ef teknar eru 4500 kr. sem hámarkslaun, og uppbótarprósentan er 85%, hefir uppbótin lækkað nálægt 700 kr. á þessa upphæð frá því, sem gert var ráð fyrir í stjórnarfrv. En ef till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) yrði samþ., næmi hækkunin um 1400 kr., og 3600 kr. laun fá þá að eins 3060 kr., og skýtur þar nokkuð skökku við þær blekkingartölur, sem hv. þm. (Sv. Ó.) kom með.

En svo er líka annað, sem jeg vildi benda deildinni á. Og það er, hvernig þessi lækkun kemur niður. Maður skyldi ímynda sjer, að hann vildi helst jafna gúlana á þeim, sem hæst eru launaðir. En í stað þess kemur lækkunin einkum niður á miðlungsmönnunum. 9500 kr. hámarkið veldur því, að þeim, sem hafa 6500 kr. laun og þar yfir, gerir þetta ekkert til; þeim lægst launuðu kemur þetta heldur ekki að sök.

Annars var það undarleg yfirlýsing hjá sama hv. þm. (Sv. Ó.), að ekki mætti gera ráð fyrir fylstu dýrtíðaruppbót, hvað sem dýrtíðinni liði. Þetta er dálítið þungskilin yfirlýsing, og mundi fleirum en mjer þykja æskilegt að fá útskýringu á henni.

Hv. þm. (Sv. Ó.) sagði, að till. miðaði að því, að auka rjettlæti. Af því, sem áður er sagt, er alveg óskiljanlegt, að hún geti aukið rjettlæti. Og með þessu sparast samtals 40–50 þús. kr., eftir hans reikningi. Og ef gera má ráð fyrir, að þessi reikningur sé líkur þeim reikningi, sem jeg nú hefi sýnt að væri rangur, þá er nokkurnveginn auðsætt, hversu á honum má byggja. Það er mjög erfitt að átta sig á slíkum reikningi, þar sem þm. kemur með reikningsdæmi, sem er hvert á móti öðru. Jeg vil benda mönnum á að taka sjer sjálfir penna í hönd og reikna, heldur en að trúa þvílíkum samsetningi.

Þá er till. um að endurskoða lögin eða láta uppbótina falla niður 1925. Þetta gerir að vísu ekki mikið til, en það er dálítið hjákátlegt, því að það er eins og verið sje að fyrirskipa, að dýrtíðin skuli vera á enda árið 1925. Ef dýrtíðin væri á enda árið 1925, væri dýrtíðaruppbótin þar með fallin, og er því óþarft að taka þetta fram í lögunum. Hitt gæti komið til mála, að lögin væru endurskoðuð á einhverjum vissum árafresti. En það er óþarft að setja það í lögin. Þingið getur gert það eftir sinni vild. Næsta þing gæti t. d. gert það. Það er altaf í lófa lagið kjósendum að fyrirskipa þingmönnum að nema lögin úr gildi. Og hv. þm. gat þess, að það kynni að vera, að fjöldinn allur vildi fella lögin nú úr gildi, ef auðið væri eftir 1925. Hjer verða þó þá, eins og nú, tveir málsaðiljar. Og húsbændurnir verða þá að gera sjer að góðu að spyrja hjúin, fyrir hvað þau vilji ráða sig. Þetta veit hv. þm. (Sv. Ó.) vel, sem sjálfur hefir verið bóndi, að bóndinn getur ekki sagt við hjú sitt: Þetta borga jeg, og meira ekki. Hann verður að gera svo vel og taka tillit til kröfu hjúsins, ef hann vill halda því kyrru. Og það væri kynlegt, ef þessi húsbóndi, þjóðin sjálf, þyrfti ekki að hafa samskonar aðferð. En þetta þykir óviðurkvæmilegt, og er kallað hótanir, þegar það kemur frá starfsmönnum ríkisins, og sýnir að eins það, að einstaka þingmenn vilja halda uppteknum hætti um, að þjóðin sje versti og óbilgjarnasti húsbóndinn.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) lýsti yfir því að lokum, að hann væri að byggja brú milli þeirra, sem ekki hefðu verið ánægðir með frv., eins og það var afgreitt frá 2. umr., og hinna, sem aðhyltust till. hans þá. En jeg hygg, að hann hafi brotið allar brýr, sem áður tengdu hann við menn í þessu máli, með ræðu sinni og blekkingartilraunum.