30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

26. mál, laun embættismanna

Sveinn Ólafsson:

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) er að mestu búinn að taka af mjer ómakið, svo jeg get lofað því strax, að tefja ekki mikið umræðurnar. Það eru ekki nema tveir hv. þm., sem jeg hefi útistöður við, og þeim er að miklu leyti svarað. Það eru þeir háttv. þm. Stranda. (M. P.) og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.). Jeg skal eigi deila lengi við háttv. þm. Stranda. (M. P.) um sprengjuduflin, fremur en orðið er; getur hann hrósað happi, hve vel hann sleppur þar með sjálfsrjettlætinguna. Hann mintist á „inflúensuna“, en láðist að geta þess, að mikill hluti landsins slapp við hana, svo eitthvað annað hefir valdið aukatekjum læknanna þar en sá faraldur.

Hann vildi efast um, að tillaga okkar færi í þá átt, að skapa meira rjettlæti, og þóttist geta rökstutt það, að hún tæki að eins tillit til miðlungslaunanna, en ekki hinna hæstu og lægstu. En aðgætandi er, að við 2. umr. var okkur markaður bás, svo við gátum ekki komið á þeim jöfnuði, sem annars var eðlilegur og rjettlátur. Benti hann á, sem vott þess, að tillagan væri órjettlát, að menn, sem hefðu 4500 kr. laun, mistu af 700 kr. rjettmætri dýrtíðaruppbót. Þetta sannar ekkert, enda hefir háttv. þm. (M. P.) ekkert sjálfdæmi um það, hvað sje rjettlát launabót. Eftir frv. mundu slíkir menn nú í ár fá launin bætt í næst 9090 kr., og sjeu þar dregnar frá 700 kr., verða þó eftir 8390 kr., og má það viðunanlegt heita.

Þess verður vel að gæta, að margir þeirra manna, sem hafa um 4500 kr., svo sem háskólakennarar og aðrir kennarar við æðri skóla, hafa 3–4 mánaða hvíld frá starfi sínu einmitt á arðsamasta tíma ársins, og eru það hlunnindi, sem meta má móti fjórðungi eða þriðjungi launa. Mjer finst full ástæða til að taka tillit til þessa, því tíminn er fremur öllu öðru peningar. Það eru einmitt þessi hlunnindi, sem valda því, að bæði jeg og fleiri unum ekki við niðurstöður frv. Jeg álít t. d. ekki saman berandi starf skrifstofumanna í stjórnarráðinu og starf mentaskóla- eða háskólakennara, sem ekkert hafa að gera fjórðung eða jafnvel þriðjung ársins.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) fann ástæðu til að snúa út úr till. á þgskj. 559 og væna okkur blekkingum og skopast að þeirri framsýni okkar, sem sæi fyrir dýrtíðarlok 1925, eins og við værum herrar yfir árferðinu. Það var óþarfa orðaleikur, og sannaði ekkert út af fyrir sig, annað en skort á röksemdum gegn þessu sjálfsagða ákvæði. Í því liggur ekkert annað en að við ætluðumst til, að við lok þessa tíma tæki löggjafarvaldið ákvörðun um, hvernig þessu skuli hagað framvegis. Tillagan er eingöngu komin fram af því, að við þykjumst að svo stöddu ekki geta sjeð, hvernig þetta fyrirkomulag muni reynast, sjerstaklega af því, að áætlanir þær, sem fyrir hendi eru, hafa reynst svo óljósar, að eigi verður fyllilega á þeim bygt um upphæð eða niðurskipun.

Hv. þm. (M. P.) hefir nokkuð fyrir sjer í því, að verk okkar flm. till. á þgskj. 559 er vanþakklátt, og tjáir ekki að sakast um það, þótt einhverjum misfalli við okkur. Hjer er enginn markaður til að kaupa vinsældir, og jeg fer minna ferða, hvað sem líður um slíka verslun.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Bar margt á góma hjá honum — og þó ekki ýkja margt svaravert, þó nærgöngult virtist sumt af því, fljótt á litið. Margt af því var endurtekningar á orðum hv. þm. Stranda. (M. P.), þó vikið væri við orðalaginu. Honum varð tíðrætt um það í meira lagi, að jeg hefði talað um það, að embættismenn ættu að bera sinn hluta af byrðum dýrtíðarinnar. En hann vjek þessu þannig við, að jeg hefði sagt, að þeir hefðu aldrei gert það. En þetta er rangt. Jeg játaði þvert á móti, að embættismenn hafi borið mikið af þessum byrðum, en jeg neita því, að engir hafi borið meira en þeir, og þess vegna er takmarkið nú að jafna byrðarnar. Ef einhver skyldi efast um þetta, að aðrir hefðu orðið harðar úti en embættismenn, vil jeg benda á það, sem reyndar er alkunna, að úti um alt land eru sveitarfjelög og einstakar fjölskyldur sokknar í stórskuldir vegna dýrtíðarinnar, og margir, sem áður voru bjargálna, komnir á sveitina. Jeg þekki sjálfur allmörg dæmi þess úr minni sveit og nærsveitum. En við alt þetta hefir byrðin auðvitað þyngst á sveitarfjelögunum eða þeim einstaklingum, sem næst stóðu þessu fólki. Hafa margar sveitir orðið fyrir þeim skakkaföllum, sem ekki verða unnin upp á tugum ára. Jeg þekki ekkert líkt þessu hjá embættismönnum landsins, þótt jeg viti að margir þeirra hafi orðið á stríðsárunum að neita sjer um ýms þægindi, sem þeir áður höfðu notið, enda hefir sárasti broddur dýrtíðarinnar verið brotinn af fyrir þeim með dýrtíðaruppbót. En hvar er dýrtíðarhjálpin, sem smábændur og fátækari útvegsmenn hafa fengið? Og ekkert einsdæmi er það um embættismenn, þótt safnað hafi skuldum í þessari dýrtíð. Það hefir annarhver maður gert. Embættismenn hafa líka reynt að ljetta þessu af sjer, með því að leita sjer ýmissar aukavinnu, og er slíkt síst lastandi. Með því hafa þeir einmitt sýnt fullan hug á því, að bera sinn hluta byrðanna, og hafi þeir þakkir, sem það hafa gert.

Þá hefir mönnum orðið tíðrætt um verðfall peninga og það, hversu dýrtíðaruppbótin hafi hrokkið skamt. Jeg veit, að þetta er satt, að 3 kr. nú gera tæpast meira en að jafnast við 1 kr. áður. Og jeg veit það líka, að enn skortir nokkuð á, að bættur sje verðmunurinn alstaðar. En hv. þm Borgf. (P. O.) tók það rjettilega fram, að á sumum sviðum launafrv. væri meira en bættur hallinn, t. d. að því er snertir læknalaunin, þar sem ekki er að eins þrefaldað, heldur sumstaðar fjór-, fimm- eða jafnvel sexfaldað kaupið, þegar launabót eftir verðstuðli þessa árs bætist við.

Í sambandi við þetta hefir einnig oftast verið dreginn fram samanburður á embættismannalaunum og verkamannakaupi, og það hefir rjettilega verið bent á, að kaup verkamanna hafi þrefaldast eða fjórfaldast víðast hvar. En þó mega menn ekki gleyma því, þegar um þessa stjett er að ræða, að hún hefir oft og einatt ekki atvinnu nema dag og dag á stangli, svo að margir vinnudagar falla úr á milli. Þess vegna eru kjör þessara tveggja stjetta ekki saman berandi.

Þá hafa embættismannalaunin líka verið borin saman við launakjör þau sem bændur bjóða sínum starfsmönnum, og því haldið fram, að allir atvinnuveitendur, nema ríkið, hafi sjeð nauðsyn og rjettmæti þessarar launakröfu og talið skyldu sína að bæta úr skák. En jafnvel þó nokkur sannleiksneisti leynist í þessu, má þó frekar telja það tilraun til að kasta fram fyndinni samlíkingu eða slagorði, en að það sje ábyggileg rök. Vinnuveitendur hafa neyðst til að bjóða það kaup á síðustu tímum, sem mjög er óvíst að þeir rísi undir, einkum sveitabændur. Og líkt getur farið um launakjör þau, sem embættismenn nú heimta, að allsendis er óvíst, að ríkissjóður rísi undir, nema með mjög auknum sköttum, og það á þeim, sem lítils eða einskis eru megnugir.

Enn ótti, sjerstaklega magnaður, hefir gripið suma menn í þessu máli. Þeir þykjast sem sje sjá, að takmörkun á launum embættismanna muni verða til þess, að þeir geri verkfall og leggi niður störf, eða þá til þess, að úrkastið eitt af embættislýðnum fengist til að gegna störfum. En þetta er ekkert nema spádómur eða ógnun, og má hver trúa sem vill. En fráleitt geri jeg það. Jeg held þvert á móti, að embættin verði mörgum keppikefli með þeim kjörum, sem jeg hefi gert ráð fyrir, og má ekki gleyma því í þessu sambandi, að þó laun ýmsra embættismanna sjeu lægri en laun einstöku fulltrúa eða skrifstofumanna hinna stærri fjesýslufyrirtækja, er staða embættismannanna og störf tryggari og ábyggilegri.

Það hefir einnig verið fært fram launahækkuninni til málsbóta, að með hærri launum mætti krefjast meira starfs og meiri skyldurækni af embættismönnum. Þetta er sjálfsagt rjett, það má heimta þetta. En hitt er annað mál, hvort það verður gert. Að vísu væri þess engin vanþörf, en hjer er margs að gæta. Umburðarlyndi almennings um vanrækslu embættismanna er alþekt, og fráleitt hefi jeg orðið þess var, að háttlaunaðir embættismenn væri skylduræknari en þeir láglaunuðu.

Menn hafa komið hjer með ákveðnar tölur til að sýna upphæð launabótanna eftir till. nefndarinnar. Hv. þm. Borgf. (P. O.) hafði það eftir frsm. nefndarinnar, að upphæðin mundi vera alls sem næst því 175 þús. kr. En jeg tel þetta fjarri sanni og ímynda mjer, að með meiri líkum mætti nefna 300 þús. kr. Því menn verða að gæta þess, hver urmull starfsmanna það er, sem hjer kemur til greina, sem sje alþýðukennarar úti um alt land, póst- og símamenn, síldarmatsmenn, lýsismatsmenn, ullarmatsmenn, fiskimatsmenn, hreppstjórar, yfirsetukonur — að svo miklu leyti, sem þær eru landssjóðslaunaðar — o. fl. Hjer safnast þegar saman kemur, og auðvitað verður að gera ráð fyrir því, að þessum starfsmönnum verði greidd uppbót eftir sama mælikvarða og hinum, sem taldir eru í lögunum. Annað væri ekki sanngjarnt.