30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

26. mál, laun embættismanna

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg er nú orðinn syfjaður, enda vill svo heppilega til, að tiltölulega lítið af umræðunum hefir komið nefndinni við. Þingmenn hafa mest verið að yrðast á sín á milli, og vil jeg ekki vera að blanda mjer í það. Mjer þykir leitt, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) er ekki við, því jeg þurfti að svara honum. Það var viðvíkjandi fulltrúa stöðvarstjórans á Seyðisfirði. Hann gat þess, að þó hann hefði skipað þann mann, þá teldi hann óþarft að hafa hann. Þótt hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hefði fengið sömu upplýsingar og jeg, efaðist jeg samt um, að ástæða væri til að greiða þessum manni laun, þar sem Stóra norræna ætti að rjettu lagi að launa hann. Til þess að ganga úr skugga um, hvað rjett væri í málinu. sneri jeg mjer til landssímastjórans og spurði, hvort maðurinn mundi vera nauðsynlegur. Taldi hann svo. Enn fremur inti jeg eftir, hvort ekki væri samkvæmt samningnum hægt að heimta það, að Stóra norræna launaði hann. Kvað símastjóri nei við því. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði, að ekki væri um annað að gera en láta við svo búið standa.

En eitt er það, sem jeg tel að megi gera, og það er að fella hann burt úr þessu launalagafrv., ef skeð gæti, að hægt væri að liðka svo málið við Stóra norræna, að það taki launin á sínar herðar. Verður maðurinn þá áfram í fjárlögunum, eins og verið hefir.

Annað er það ekki, sem jeg hefi að svara hæstv. forsætisráðherra (J. M.), því hv.

2. þm. Árn. (E. A.) hefir tekið af mjer ómakið hvað söfnin snertir.

Þá var það hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann lagði lítið til nefndarinnar, heldur tók hann að kastast á sprengiduflum við hv. þm. Stranda. (M. P.), en jeg vona, að þau dufl verði hvorugum að skaða. Eitt var það þó, sem jeg vildi minnast á. Mjer fanst sem hv. þm. (Sv. Ó.) hefði ekki sett sig vel inn í 33. gr., þar sem honum fórust svo orð, að sumir embættismenn lifði eins og kóngar, og fengju uppbót, hvort sem dýrtíð væri eða ekki. Þetta sýnir, að hann hefir ekki skilið 33. gr., þar sem uppbótin miðast eingöngu við vöruverðið, en það vitanlega lækkar eftir því, sem dýrtíðinni ljettir. Þá sagði hann enn fremur, að menn væðu í villu og svima hvað uppbótina snerti. Þetta sýnir enn áþreifanlegar, að hann hefir ekki skilið, hvað verðstuðullinn á að sýna. En það getur verið, að hann hafi gert þetta af ásettu ráði enn þokukendara og dularfyllra, til þess að menn síður reyndu að gera sjer þetta ljóst. En alt þetta mun vera þýðingarlaust við hv. deildarmenn, því þeir munu hafa fullan skilning á þessu máli og alls ekkert verða þar ruglaðir.

Þá gat hann þess, að hann hefði komið fram með till. í nefndinni um það, að dýrtíðaruppbótin væri ekki látin ná nema til ársins 1930, og að sú till. hefði verið samþ. Fór hann nokkuð hörðum orðum um, að það hefði ekki verið tekið upp í brtt. nefndarinnar. En svo stóð á því, að þegar við skrifarar nefndarinnar fórum að athuga tillöguna betur, virtist okkur svo, sem hún mundi hafa verið feld síðar, svo sem aðrar fleiri bráðabirgðatillögur, eða henni hefði verið breytt, eftir að menn höfðu fengið betra tækifæri til að athuga málið. Sje jeg ekki, að þetta í raun og veru geri svo mikið til. Við skrifarar nefndarinnar höfum átt tal með okkur um þetta atriði síðan, og eftir nýja rannsókn höfum við enn ekki fundið með vissu, hvort það hefir verið okkar sök. En einkennilegt er það, að þm. gat þessa ekki við 2. umræðu, þegar það átti við. En nú er bætt úr þessu að því leyti, að komin er fram önnur till., sem gengur í sömu átt. En eins og jeg tók fram í dag, finst mjer brtt. þessi þýðingarlaus, því að ef alþjóð mundi ofbjóða, eins og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) segir, þá myndi hún heimta, að lögunum yrði breytt, og það fyrir 1925. Það skyldi ekki vera, að hjer lægi á bak við sú skoðun, að dýrtíðaruppbótin ætti alls eigi að ná nema til ársins 1925, hvernig sem ástandið yrði þá. Tillagan virðist ekki vera gerð í neinum öðrum tilgangi en að þetta líti betur út fyrir sjónum alþýðu.

Þá gat hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) um það, að jeg hefði minst á í ræðu minni í dag, að sparnaðurinn, sem vanst við 2. umr., mundi nema um 180 þús. Og kvað hann það ekki rjett. Slíkt má altaf segja, þegar ekki er hægt að láta tölurnar tala. Veit jeg þó með vissu, eins og hv. þm. (Sv. Ó.), að lækkunin á uppbót presta nemur um 109 þúsundum. Að öðru leyti getur hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sjálfur reiknað, hvað stuðull úr 102 niður í 85 gerir mikið til vinnings. Og mun hann þá sjálfur sannfærast um, að jeg fer með rjett mál. Hann sagði, að till. sín um lækkun á uppbótarlágmarkinu úr 3 þús. niður í 2 þús. hefði í för með sjer 200 þús. kr. lækkun. Við það þarf ekki einasta að setja spurningarmerki, heldur undirstrika jeg það sem gersamlega rangt, og er það á fullu vitorði þm. Enn fremur segir hann, að með því að setja lægra takmarkið 2400 muni sparast um 40 þús. Þetta er sanni nær. En þá er hætt við, að það sjáist, að þó að lágmarkið væri sett 2 þús., þá muni varla vinnast 200 þús. Og mun hann þarna nægilega hafa hrakið sjálfan sig.

Þá er skólastjórinn á Eiðum. Hv. þm. (Sv. Ó.) vill hækka hámark launa hans, og taldi öll vandkvæði á því, að fá menn í embættið. Sömu skoðun hafði hann altaf haldið fram í nefndinni viðvíkjandi kennurum þessa skóla, og hefir nefndin áður tekið tillit til þessa, með hækkun á laununum. Vænta mætti, að hann gæti ætlað þeim ástæðum sínum nokkru víðari hring en Suður-Múlasýslu, og svo mun mega segja um fleiri. (Sv. Ó.) Þetta er alveg rangt; jeg hefi aldrei talað þessi orð). Jeg skýt máli mínu til nefndarinnar, og mun hún með mjer sanna það, að þetta hafa verið og eru ástæður þm. (Sv. Ó.) fyrir þessari launahækkun. En það fer oft svo, að þegar fara á að draga rjettar ályktanir af orðum hv. þm. (Sv. Ó.), vildi hann heldur hafa þau ósögð; það brennur við, að hv. þm. verði starsýnt á sitt eigið kjördæmi.

Þá er næstur hv. 1. þm. Árn. (S. S.). Ræða hans gekk mest út á læknana. Enda snertir brtt. hans þá aðallega. Breytingin, ef till. hans yrði samþ., sagði hann að yrði ekki önnur en sú, að læknarnir framvegis yrðu praktiserandi. Líklegt væri raunar, að þeir yrðu nokkru dýrari, og skeð gæti, að einn og annar dæi drotni sínum „læknislaust — eða án læknishjálpar“, bætti hann við. Við skulum gera ráð fyrir því, að hjer væri um að ræða líf hv. 1. þm. Árn. Og þegar litið er til þjóðmálastarfsemi hans allrar, mundi öllum koma saman um, að meira tjón er í því einn, meiri peningalegur skaði, að hann deyji án læknishjálpar, eða sökum læknisvöntunar, en öll sú upphæð, sem sparaðist við launahækkunina. Hefir hann því sannað átakanlega með þessum ummælum sínum, hversu áríðandi það er, að þeir yfirgefi ekki embætti sín og gerist praktiserandi læknar. Á hitt má líka líta, að þó að laun þeirra hafi verið hækkuð frekar en sumra annara starfsmanna, þá voru launin svo lág, að óviðunandi var, auk þess sem þeir hafa verra starf og erfiðara en flestir eða allir aðrir, og endast þar af leiðandi skemur en nokkrir aðrir embættismenn.

Þá sagði hv. 1. þm. Árn. (S. S.) eitt eftirtektarvert, þar sem jafnvel hann er farinn að bera í bætifláka fyrir starfsmenn ríkisins. Hann fjelst á það, að dýrtíðin hefði þrengt svo að embættismönnunum, að margir þeirra myndu naumast haldast við í embættum. Hví vill hann þá skera uppbótina og launin svo við neglur sjer, að sú hætta verði ekki fyrirbygð, að missa bestu mennina?

Telur hv. þm. (S. S.) það rjettan sparnað fyrir ríkissjóð að gera svo við starfsmenn landsins, að óálitlegasta úrkastið úr mentamönnum þjóðarinnar skipi embættin, eða þá alls engir?

Þá kem jeg að kostnaðarhlið málsins. Það var eins og við var að búast, að honum ofbauð sá útgjaldaauki, sem hækkunin hefði í för með sjer. Hins vegar getur ekki komið til mála, að hann verði eins mikill eins og hann gerði ráð fyrir, sem glögglega má sjá af nál. Honum fer þar eins og fleirum, sem ekki hirða um, þó þeir „kríti liðugt“, að taka alla launafúlguna, í staðinn fyrir hækkunina, og áætla svo þess utan ríflega fyrir launum og uppbót þeirra, sem ekki standa í frumvarpinu. Hann telur launahækkun yfir hálfa miljón hærri en hún er í raun og veru, og sama gildir um áætlun hans um aðra starfsmenn, er í frv. standa, að þar er þá önnur hálf miljón, sem má skjótast yfir næst. Það tekur ekki lengri tíma en að skjótast yfir hina.

Hann mintist þá á þessa starfsmenn, sem jeg nú hefi talað um hefi jeg því svarað, að jeg tel ekki þurfa að áætla mikið meira en eina miljón í útgjaldaauka, þegar búið er að bæta öllum starfsmönnum ríkisins upp með samskonar uppbót og gert er ráð fyrir í frv. Jeg játa, að þetta er mikið fje, en það er samt rjett að tala um það sem næst því sem er, en fara ekki út í neinar öfgar. Nóg mun þykja að gert samt. En hv. þm. (S. S.) þykir kann ske þægilegra að gera tölurnar of háar, vegna þeirra hv. þm., sem greiða eiga atkvæði um málið, eða vegna kjósenda sinna. Jeg staðhæfi ekki neitt um áætlanir þær, sem jeg hefi gert. En hinu held jeg fram, að tölur þær, sem jeg hefi farið með, sjeu hvergi óábyggilegar, það sem þær ná.

Næstur er hv. þm. Borgf. (P. O.). Hann tók, eins og aðrir hv þm. læknana til bænar. Hann gerði samanburð á kaupgjaldshækkun ýmsra verkamanna og þeirri launahækkun, sem læknum er ætluð. Komst hann að þeirri niðurstöðu, að kaup ýmsra verkamanna hefði þrefaldast og þar yfir, en laun læknanna fimmfaldast. En hv 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) kom því upp í sexföldun læknalaunanna. (Sv. Ó.: ,,Eventuelt“ sexfaldast þau). Jeg fylgdist nú ekki vel með reikningi hv. þm. Borgf. (P. O.), en þegar jeg leit eftir, hvernig jeg sjálfur hafði gert upp, sá jeg, að hann fer nýjar og óþektar leiðir. Hann fór í hæsta flokk og miðaði við hann, en jeg taldi meðalveginn tryggastan. Hann tók t. d. hæsta launaflokk læknanna nú, eftir frv., með 3500 kr. launum og fullri dýrtíðaruppbót. Þar við jafnaði hann lægstu launum áður. Jeg tek dýrtíðaruppbótina með meðallaunaflokk, samkvæmt því, sem nú gildir, og voru launin ásamt henni 2500 kr. En samkvæmt því, sem nú er til ætlast í frv., yrðu laun læknis í hæsta flokki, með dýrtíðaruppbót, 7400 kr. Og þegar athugað er hlutfallið milli 2500 og 7400, hygg jeg að það sýni sig, að hækkunin er ekki fimmföld, heldur þreföld, eins og á kaupi verkamanna. (P. O.: Það var skakt að taka dýrtíðaruppbótina með í fyrra sinnið). Það er ekki skakt að taka dýrtíðaruppbótina með nú, ef hún hefir verið tekin áður. En auðvitað má ekki taka hana með nú, ef hún hefir ekki verið tekin áður.

Um aðra hækkun er ekki að tala. Verða launin þá þreföld, eins og kaup annara starfsmanna. Þetta er rjett. En hv. þm. Borgf. (P. O.) vill ekki láta það vera rjett, því að það gerir minna úr því, sem hann hjelt fram. Jeg veit nú, að menn muni ráða í af þessu, að hv. þm. Borgf. (P. O.) hafi ekki litið í launalagafrv. þar, sem hækkunin er minst, heldur þar sem hún er mest, en það er einmitt hjá læknunum. En það er nefndin, sem hefir hækkað laun þeirra, og hefir hún áður fært ástæður fyrir því, og hv. þingdeild er búin að segja sitt álit með atkvgr. við 2. umr. Voru þá, ef jeg man rjett, 20 atkv. með þessari brtt. Er það ekkert undarlegt, þótt allir fjöldi hv. þm. sæi, að hjer var verið að vinna rjettlætisverk.

Þá kom sami háttv. þm. (P. O.) með ýmsan samanburð á öllum launum embættismanna og tekjum ríkisins. Þessi reikningur getur verið góður út af fyrir sig, en eins og það kom fram, virtist alt þetta vera hækkun, sem þetta frv. hefði í för með sjer. Með öðrum orðum, að þetta þing væri að hækka laun embættismannanna um eina miljón. Munurinn er ekki annar en sá, að hann gerði alla launafúlguna, eins og hún nú er sett, að hækkun. Fullljóst hlýtur þm. (P. O.) þó að vera, að launahækkunin samkvæmt frv. er ekki nema um 400.000 kr. Þetta ruglar því allan samanburð og verður að reyfarasögu, sem síst á við. Hitt er öllum ljóst, að launabyrði sú, sem á ríkinu hvílir, hefir verið, er og mun verða stór þáttur í útgjöldum ríkissjóðs, og er ekkert einkennilegt við það. En það er jafnóheimilt að misbrúka það eins og háttv. þm. (P. O.) gerði.

Hann sagði líka, sami háttv. þm. (P. O.), að enn væru ekki öll kurl komin til grafar, og átti hann þar við aðra starfsmenn landsins. Jeg hefi tekið fram, að það hefir verið gerð fullábyggileg áætlun um, hvað kosta muni að veita þessum mönnum samskonar uppbót og starfsmönnum ríkisins er ætluð í frv. Annars skal jeg taka það fram, þar sem það kom fram hjá háttv. þm. Borgf. (P. O.), að það myndi liggja í loftinu að gera þá menn, sem ekki eru í frv., afskifta í þessum efnum, að það er alls ekki meiningin. Það hefir bæði nefndin og hæstv. stjórn tekið fram, að þetta muni einnig verða gert upp strax og gengið verður frá þessu frv. Verður það annaðhvort lagt fyrir nefndina í frumvarpsformi, eða dýrtíðaruppbótin, sem ná gildir, hækkuð að þessu sinni, eða uppbótin öll sett í fjárlög, ásamt þá stöku launahækkun. En jeg get sagt bæði þessum háttv. þm. (P. O.) og háttv. þm. Barð. (H. K.), að hjer er engan ójöfnuð að óttast, svo að sú ástæða er alls ekki rjettmæt til að samþykkja lækkunartill. þess vegna. (H. K.: Það sagði jeg ekki). Háttv. þm. (P. O.) gat þess, og síðan háttv. þm. Borgf. (P. O.), að hann teldi launafrv. í raun og veru óforsvaranlegt, og miðaði sjerstaklega við það, ef ekki yrði bætt upp öðrum starfsmönnum úti um land. (H. K.: Nei). Þá er það enn verra en jeg hjelt, ef háttv. þm. (H. K.) hefir talið það forsvaranlegt að láta þá embættismennina gjalda þess, sem ekki eru teknir upp í frv.

Annars er það svo, þegar talað er um þessa embættismenn og útgjöldin til þeirra, að þá mætti oft bregða sjer inn í kjördæmi háttv. sparnaðarþingmanna. Og alveg eins og þess var getið, að bregða mætti sjer inn í kjördæmi háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og minna á skólastjórann á Eiðum, mætti og bregða sjer snöggvast inn í kjördæmi háttv. þm. Borgf. (P. O.) og spyrja: Hvers vegna vilja Borgfirðingar, að ríkissjóður taki að sjer alt viðhald vega og flutningabrauta? Hvers vegna vilja þeir láta hann kosta að öllu leyti símalínu úr Borgarnesi að Svignaskarði, þar sem þó sum hjeruð leggja ekki einasta á sig gjald, heldur og flytja alt efni án endurgjalds, og það þar sem margfalt frekar er um þjóðargagn að ræða en þarna á sjer stað? Mjer er spurn, hvort það sje meining þessara manna, að landssjóði geti ekki orðið um megn að kosta til einstakra hjeraða hve hátt sem er. Það lítur helst út fyrir það. En þegar talað er um að gjalda starfsmönnum landsins sanngjörn laun, þá segja þessir menn, að hann hafi engin efni á því. Þeir geta auðvitað vitnað í uppgerð um fjárhag landsins. En það mætti eins vel vitna í hana, þegar um það er að ræða að veita stórar fjárhæðir til verklegra fyrirtækja. Jeg vil, að menn sýni sömu sanngirni í þessu atriði og öðrum. Og þegar að því kemur, að menn finna, að landssjóður stendur tæpt til að greiða sín bráðnauðsynlegu útgjöld, hvort heldur er til starfsmanna landsins eða verklegra framkvæmda, þá er það ekki hið fyrsta að segja, að það verði að slátra þessu eða leggja það niður, af því að landssjóður geti ekki staðið straum af því. Vjer höfum allra síst ráð á því. Heldur er hitt leiðin, að finna nýjar tekjur. Vjer verðum að vinna að því, að gera framkvæmdir í hjeruðum landsins, eftir sem sanngjörnustum mælikvarða, en jafnframt leitast líka við að greiða starfsmönnum ríkisins það, sem sem okkur finst þeir eiga rjettlætiskröfu til. Jeg hefi engan heyrt segja, að hjer sje farið fram á neitt ósanngjarnt, en hitt hafa menn sagt, að starfsmenn ríkisins verði líka að taka þátt í yfirstandandi örðungleikum. Og það er vitanlega alveg rjett. Jeg talaði um það í fyrstu framsöguræðu minni í þessu máli, að stjórnin hefði alls ekki fylgt fullnaðarrjetlætiskröfu. Og þó hefir nefndin farið feti lengra þar sem hún hefir sett hámark á laun og dýrtíðaruppbót.

Enn fremur hefir hv. 2. þm. Árn. (E. A.) sýnt greinilega fram á það, að þessir starfsmenn hafi áður og sjeu búnir að taka mikinn þátt í þessu. Held jeg ekki hægt að rengja það.

Spurningin er þá ekki önnur en sú, hvort nefndinni hefir tekist að finna hæfilega sett „normal“-laun. Hefir verið minst um það deilt og enginn ráðist á það. En þegar þetta atriði er fengið, „normal“- launin hæfilega sett, er ekki annað eftir en að reikna út, hvað rjettlátt sje að leggja til um dýrtíðaruppbótina. Skal jeg ekki um það ræða frekar, en læt hv. þingdm. um, hvernig þeir greiða atkv. um það, hvernig þeir vilja að þingið afgreiði það.

En eitt vildi jeg taka fram að endingu, viðvíkjandi einu atriði, sem fram kom hjá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), í seinni ræðu hans. Hann sagði eitthvað á þá leið, að þetta gæti verið til nokkurs að vinna fyrir meiri hlutann. Hann gerði þetta til að koma sjer í mjúkinn hjá embættismönnnnum. Jeg veit ekki, hvort hann hefir átt við þetta. En hann frábað sjer fyrir sitt leyti slíkar hvatir, því að hans kringumstæður væru svo, að hann þyrfti þess ekki. Það er vert að minna hann á, að yfirleitt munu embættismenn ekki vera neitt sjerlega „grónir“, og margir mega sín lítils. Jeg veit, að fyrir hv. þm. (Sv. Ó.) hefir ekki vakað nein smámennahugsun — svo mikið hefir hann kynst ,,miljónerum“ — sem sje sú, að koma sjer vel við þá, er minna geta. En ef vjer, sem málinu erum hlyntir, vissum, að eitthvað væri til af embættismönnum, sem einhvers væru megnugir, og gætu litið til vor aftur við tækifæri, þá væri lítill vegur að eigna oss slíkar hvatir.

Jeg held jeg hafi alveg hlaupið yfir hv. þm. Barð. (H. K.). Jeg bið hann afsökunar á því. Jeg vil á engan hátt skipa honum aftar en hann er í röðinni. (H. K.: Ekkert að afsaka). Hann hjelt, að jeg hefði eitthvað sveigt að sjer, er jeg talaði um, að atkvgr. í nefndinni hefði oft farið á þann veg, sem jeg áður lýsti. (H. K.: Þetta er „uppdikt“ og illgjarnleg getsök). Það hefir snortið hann eitthvað illa. Hann hjelt, að þetta væri meint til einhvers einstaks manns. (E. A.: Þingmaðurinn þekkir sjálfan sig best). Jeg meinti það ekki til neins einstaks, en vilji þm. eiga þetta sjálfur, þá get jeg ekki bannað honum það. Jeg gat þess að eins, að í nefndinni hefðu menn litið öðruvísi á ýms atriði, er frá leið, en búast mátti við, en jeg sagði og, hvaða ástæður lægju til þess, að menn litu ekki altaf eins á. Atriðin eru mörg svo, að ekki er hægt að sjá í fljótu bragði, hvernig líta beri á þau, og menn fá oft aðra sannfæringu með gleggri, lengri og betri yfirvegun. En það var síður en svo, að jeg meinti það til hans. (H. K.: Jeg tók það heldur ekki svo). Jeg býst ekki við því. Jeg skil þá ekki, hvernig hann hefir fundið út, að jeg ætti hjer við vissan mann. En það eru sjálfsagt ástæður til þess, sem hann gerir upp með sjálfum sjer.

Hann talaði líka um aðra starfsmenn landsins. Þarf jeg ekki að svara því frekar en jeg hefi áður gert.

Umr. eru nú orðnar nokkuð langar, og upplýsa málið ekki mikið. Býst jeg við, hvort sem þær standa lengur eða skemur, að þær breyti ekki afstöðu manna í málinu.