02.09.1919
Efri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Í Nd. kom fram svipuð athugasemd og nú kemur fram frá háttv. þm. Ak. (M. K.), og jeg svaraði henni þá á sama hátt sem jeg mun gera nú.

Dýrtíðaruppbót eftir þessu frv. er að eins reiknuð af þeim launum, sem frv. þetta hefir að geyma. Þetta frv. er ætlast til að taki upp alla þá starfsmenn landsins, sem fult starf hafa með höndum til frambúðar. Hinir, sem hjer eru ekki taldir, hafa annaðhvort aukastörf með höndum, eða þótt þeir hafi fult starf, þá eru þeir oftast ráðnir með samningi í hvert skifti, líkt og á sjer stað um vinnuhjú.

Þannig er það á sjúkrahúsunum og við ýms störf við landssímann og póstinn, að t. d. landssímastjórinn semur við þann, sem hann er að ráða, að hann taki að sjer starfið fyrir svo eða svo mikið á ári, eða þá einhver tiltekin föst laun og dýrtíðaruppbót. En það er rjett, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að það verður að taka tillit til þess í fjárlögunum.

Í frv. er ekkert ákveðið um dýrtíðaruppbót eftirlaunamanna, en jeg tel sjálfsagt, að stjórnin beri sig saman við nefndina um það, og jeg tel best fara á því, að þeir fái dýrtíðaruppbót eins og gert er ráð fyrir í frv. um uppbót á laununum. Er öðru máli að gegna um þá en launamenn þá, er háttv. þm. Ak. (M K.) talaði um, því að laun þeirra geta breyst á svo margvíslegan hátt.

Jeg tel sjálfsagt að nefndin hafi bygt á því, að dýrtíðaruppbótin 1920 yrði greidd eftir verðlaginu haustið 1919, og eftir almennum lögskýringarreglum ætti þá dýrtíðaruppbótin fyrir síðari hluta ársins 1919 að greiðast eftir verðlaginu haustið 1918, en það stendur hvergi beinlínis í frv. Væri má ske rjettara að láta það koma skýrar fram í niðurlagi frv. Það mætti líka reikna dýrtíðaruppbótina 1919 eftir verðlaginu haustið 1919. Ef svo væri, þyrfti að taka það fram, en væri nóg að það væri gert í nál.