08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Ottesen:

Jeg á eina brtt. á þgskj. 685, þar sem farið er fram á, að 300 kr. verði veittar hvort árið til vjelbátsferða á Hvítá í Borgarfirði. Eins og hv. þm. mun kunnugt vera, hefir undanfarið verið veitt nokkurt fje í fjárlögum til ferða um Hvítá. Til þessara ferða varð að byggja vjelbát með sjerstöku byggingarlagi, varð hann að vera flatbotna og grunnskreiður til þess að geta farið eftir ánni. Þessar bátaferðir hafa komið að mjög miklu liði, og það einkum nú upp á síðkastið, fyrir Borgarfjarðarsýslu, því að það eru að eins tveir efstu hrepparnir í þeirri sýslu, sem geta haft veruleg not af flutningabrautinni, sem liggur eftir Mýrasýslu og upp að Kljáfossi. Eins og nú er, er því allmikil bót að þessum bátsferðum, en þegar komin er brú á Hvítá hjá Hvítárvöllum, og fyrirhugaðir vegir í sambandi við hana, þá er þessara ferða síður þörf.

Jeg sje, að stjórnin hefir ætlast til, að þessi litli styrkur hjeldi áfram í fjárlögunum en væri ekki hækkaður frá því, sem áður var. Nú hefir samgöngumálanefnd strikað þennan styrk út, og tók frsm. nefndarinnar (B. St.) fram, að engar upplýsingar hefðu legið fyrir. Jeg veit ekki hverra sjerstakra upplýsinga er þörf um þennan styrk, frekar en aðra slíka styrki, en stjórnin ætlar styrk til þessara ferða í fjárlögunum, og enn fremur hafði framkvæmdarstjóri Eimskipafjelags Íslands og ráðunautur samgöngumálanefndar, hr. E. Nielsen, lagt til, að styrkur hjeldist til þessa báts. Jeg skil því ekki almennilega þennan fyrirslátt hv. framsögum. (B. St.). Vænti jeg nú, að hv. deild taki vel í þetta mál.

Svo er önnur brtt., á þgskj. 684, sem jeg flyt, ásamt þeim hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og 1. þm. G.-K. (B. K.). Þarf jeg ekki að ræða mikið um hana, því að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir mælt svo vel með henni og sýnt fram á rjettmæti hennar. Þó var það ein ástæða gegn till., sem hv. frsm. (B. St.) mintist á, sem jeg get ekki leitt hjá mjer. Var hún sú, að ekki mætti fresta samningum um þetta lengur, og svo væri ekki gerlegt að fela stjórninni að semja um þetta, þar sem hún væri búin að segja af sjer, og óvíst um, hvað á eftir kæmi. Það hefir komið fram oftar, nú á síðustu og verstu dögum, og nú seinast hjá hv. þm. S.-Þ. (P. J.), að það þýddi ekkert að ætla stjórninni, eins og henni er nú komið, afgreiðslu nauðsynlegra mála, því að hún mundi ekkert gera í þeim. Reyndar vildi þessi hv. þm. nota þetta stjórnaróstand sem meðal til að hnekkja framgangi frv. um landhelgisgæslu hjer á dögunum. En mjer virðist, að þetta alt ætti að gefa þm. undir fótinn um að fara nú að rumska í þessu máli; þeir eru hvort eð er flestir eða allir óánægðir með þessa stjórn. Nú hefir stjórnin lýst því yfir, að hún vilji losna, en hvað skeður? Sem sje það, að síðan stjórnin sagði af sjer hefir hún verið miklu fastari í sessi en nokkru sinni fyr. Þetta er dálítið undarlegt, en svona er nú þetta samt.

Eins og kunnugt er, gerðu nokkrir þingmenn tilraun til þess að losna við stjórnina eða nokkurn hluta hennar, á síðara aukaþinginu í fyrra en það er jafnkunnugt, að það tókst ekki. En nú hefir stjórnin gert tilraun til að losa sig við þingið, en það tekst heldur ekki. Þetta er nú dálítið torskilið, en svona er nú status rerum í þinginu.