08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

26. mál, laun embættismanna

Eggert Pálsson:

Það dylst víst engum, hversu vandasamt það er, bæði fyrir stjórnina, þingdeildina, nefndirnar og Alþingi í heild sinni, að ráða þessu máli sem best til lykta. Það má því nær svo að orði kveða, að þing og stjórn standi milli tveggja elda, þar sem annars vegar er á að líta, að gjaldþol landssjóðs er fremur lítið, en hins vegar þörf embættismanna til þess að draga fram lífið nokkurn veginn sæmilega, og ella viðbúið, að þeir hverfi eða verði að hverfa úr stöðum sínum. Það er við því búið, að þegar rekur að því, að bundinn verði endir á málið, verði margir óánægðir bæði þeir, sem fyrst og fremst hugsa um hag landssjóðs, og eins hinir, sem mest bera laun embættismanna fyrir brjóstinu. Það er eðlilegt, þegar um svona mikinn lagabálk er að ræða, að sitt sýnist hverjum, einum sýnist of skamt farið, en öðrum of langt og hafa komið fram raddir um það, að nefndinni hafi verið mislagðar hendur, sjerstaklega það er tekur til sýslumanna og lækna.

Um sýslumennina er það að segja, að Ed. nefndinni virtist ekki nema um tvent að velja, annað tveggja að kippa launum þeirra í það horf, sem þau voru í stjórnarfrv. — og gat nefndin í sjálfu sjer engan sjerstakan agnúa sjeð á þeirri flokkun — eða að kippa þeim fáu sýslum, sem eftir voru í lægsta flokki, í annan flokk. Nefndin hefir reynt að fara hjer milliveg, en þó má vera, að hin leiðin sje vinsælli, sú að kippa sýslunum upp.

Þá skal jeg snúa mjer að 12 gr., læknunum. Jeg fyrir mitt leyti hefi frá því fyrsta verið óánægður með þá skipun, sem þar er á launakjörum lækna. Ber það til fyrst og fremst, að munurinn á launakjörunum á lægst launuðu og hæst launuðu læknisembættunum, 1000 kr., er alt of mikill, og virðist þar fremur gæta þess, að litið sje á læknastjettina sjálfa, meir en á gagn og velferð þjóðarinnar í heild sinni. Það mun víst enginn neita því, að heppilegast muni að hafa góða lækna, þar sem fjölmennið er mest. En með því fyrirkomulagi, sem nú er á frv., að hafa föstu launin mest þar sem fámennið er mest, liggur það í augum uppi, að góðu læknarnir munu helst sækja þangað, en verri læknarnir vera í fjölmennari hjeruðunum. Það dylst víst engum, að læknir verður talsvert mikið að leggja að sjer með þeim taxta, sem nú gildir, til þess að hafa 1000 kr. í aukatekjur; má um þetta skírskota til skýrslna þeirra, sem læknar gáfu, er reikna skyldi út dýrtíðaruppbót þeirra. Og þó má telja það víst, að ekki hafi þeir fengið allar þær tekjur inn, svo að telja megi, að í þeirra vasa hafi runnið, þótt þeir að sjálfsögðu hafi rjett til þess að reikna sjer þær. Oss er öllum kunnugt um það, hversu oft læknar leiðbeina mönnum og gefa ráð, án þess að taka nokkuð fyrir, eða vitja t. d. rúmfastra sjúklinga, sem lengi liggja, í mörgum ferðum, án þess þeim detti í hug að taka fult fyrir. Jeg er sannfærður um það, að margur læknirinn tekur oft ekki nema þriðjung af því, sem honum ber, fyrir lækningar, og er það auðvitað á hvers eins valdi að gefa sem honum líst, en hitt er ómótmælanlegt, að rjett hefir hann til þess að telja slíkar lækningar með aukatekjum sínum, þegar um er að ræða útreikning á dýrtíðaruppbót hans. Það er því mjög sennilegt, eins og líka skýrslur læknanna sjálfra bentu til, fyrst er dýrtíðaruppbót skyldi reikna, að læknir í góðu hjeraði getur að jafnaði ekki haft meira en 1000 kr. í aukatekjur. En þá liggur það líka í augum uppi, að læknir kýs heldur að vera í vel launuðu hjeraði, þar sem lítið er að gera, en í illa eða miður launuðu hjeraði, þar sem mikið er að gera. Og rekur þá að því, sem jeg sagði áðan, að góðu læknarnir myndu fremur sækjast eftir best launuðu hjeruðunum. Því myndi jeg vilja færa frv. í sama búning sem það var í frá stjórnarinnar hendi. Enda eru nú komnar upplýsingar fram um það, meðal annara frá sjálfum landlækni, að sum þessara hjeraða sjeu óheppilega flokkuð, en því mætti að vísu bæta úr til 3. umr.

Jeg skal sneiða hjá fyrirspurnum þeim, sem beint hefir verið til nefndarinnar; geri jeg ráð fyrir því, að hv. frsm. (K. D.) muni sinna þeim.

En jeg finn mjer skylt að minnast á eina brtt. nefndarinnar, mest sakir stöðu minnar; á jeg hjer við hækkun dýrtíðaruppbótar til presta. Prestar eru sú stjett, sem bæði á þessu þingi og oftar hafa haft við ramman reip að draga. Menn hafa borið það fyrir, að prestar hefðu ekki þörf á launabótum vegna jarðarnota þeirra, er þeir hafa. Þetta mætti nú til sanns vegar færa, ef prestar gyldu ekki neitt fyrir þessi jarðarafnot. En mönnum gleymist það, að þeir gjalda fyrir ábúðarjarðir sínar eftir mati matsmanna, sem fer fram á lögskipuðum tímum. Þegar til kastanna kemur, hygg jeg, að ekki verði sagt, að mikið kveði að þeim launabótum, sem prestum eru ætluð, og gæti svo farið, að þær yrðu næsta litlar. Byrjunarlaun presta eru nú 1300 kr., en eftir frv. 2000 kr. Setjum nú svo — enda er mjer kunnugt, að víða hagar svo til — að prestur taki í heimatekjum sínum 700 kr., og fær hann þá viðbótina, 600 kr., úr prestlaunasjóði. Næsta ár, 1920, kemur nýtt mat, og er þá ekki ósennilegt, að heimatekjurnar, sem áður voru metnar á 700 kr., verði metnar 1400 kr. Og hver er þá launabótin, sem þeir prestar fá? Hún er = 0. Þeir hafa 600 kr. viðbót úr prestlaunasjóði, eins og áður. Ef nú dýrtíðaruppbótin yrði einnig af skornum skamti til prestanna, þá er það augljóst, að ekki er hætishót bætt úr kjörum prestanna.

Það má annars oft heyra talað um presta í þeim tón, eins og væru þeir landssjóðinum ýkjaþung byrði. Það má næstum finna það á þeim mönnum, sem svo tala, eins og þeir haldi, að prestar fái allar tekjur sínar úr landssjóði. Slíkir menn gæta þess ekki, að ýmsar tekjugreinar eru til, sem beinlínis heyra til kirkjunni. Má hjer til nefna nefskattinn, tekjur af kirkjujörðum landsins, eftirgjald prestssetranna o. fl. Þetta alt saman lagt nemur svo miklu, að ekki verður ýkjamikið eftir, sem landssjóður leggur til.

Þegar á alt er litið, vænti jeg þess vegna, að mönnum þyki ekki sanngjarnt að fara eins langt niður á við í þessu atriði og hv. Nd. hefir gert, og að mönnum þyki sú leið, sem nefndin hjer leggur til að valin sje, sigurvænlegur millivegur, með því og að munurinn á sveitaprestum og kaupstaðaprestum er ærinn alt um það.

Hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) hefir komið fram með brtt. um niðurfelling dýrtíðaruppbótar handa prestum, sem búa. Jeg fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti þessari brtt., enda hygg jeg, að þeir mundu fleiri en færri prestarnir, sem vinna vildu til að hætta búskap, og fá þá í staðinn fulla dýrtíðaruppbót. En á hitt er að líta, að hjer virðist munu vera um tvíeggjað vopn að ræða, því að það gefur að skilja, að mjög er hægt að fara í kring um þetta. Prestar myndu geta búið áfram í raun og veru, þótt þeir fengju einhvern annan til þess að skrifa sig fyrir búinu, og þannig fengið fulla dýrtíðaruppbót. Jeg segi ekki að þetta kunni að koma fyrir, en það gæti átt sjer stað. Mjer þykir því efasamt, að þessi leið sje farandi.

Loks skal jeg fara nokkrum orðum um brtt. mína á þgskj. 687, sem lýtur að því, að fella niður ritfje tveggja embættismanna, sem sje landlæknis og biskups. Þessir menn eru einir embættismanna, sem skamtað er ritfje. Samkvæmt 5. gr. frv. er ætlast til þess, að ritfje sje goldið embættismönnum, sem skrifstofu hafa, eftir skýrslu þeirra um kostnaðinn. Samkvæmt þessu mega póstmenn, vegamálastjóri, vitamálastjóri o. s. frv. senda stjórnarráðinu skýrslu um skrifstofukostnað sinn, en þessir tveir gamalreyndu embættismenn, biskup og landlæknir, eru teknir út úr. Annaðhvort er þeim ekki trúað til þess að gera þessa skýrslu samviskusamlega, eða menn halda, að 1000 kr. sje nóg í skrifstofukostnað þeirra. Röksemdinni, að þeim væri ekki treystandi, ef fram væri færð, er ekki vert að svara. En síðari röksemdin nær ekki heldur nokkurri átt. Að því er mig minnir, var á dögum Hallgríms biskups sett inn þetta ákvæði um ritfje handa biskupi, og hefir það því gilt um hálangan tíma, að ritfjeð væri 1000 kr. En það er sama að segja um þennan útgjaldalið sem aðra, að hann hlýtur að vera orðinn ónógur sakir dýrtíðar. Jeg sje þess vegna ekki, hvers vegna þessir liðir ættu að standa, auk þess sem það er afkáralegt að taka þessa embættismenn eina út úr.

Að svo komnu máli þarf jeg ekki að fara fleiri orðum um frv.