08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M. ):

Jeg vil leyfa mjer að minnast nokkuð á þær brtt., sem fram eru komnar, og þá fyrst á þær, sem komnar eru frá háttv. nefnd.

Fyrst er þá breytingin á 11. gr., um það, að færa Skaftafells- og Barðastrandarsýslur aftur í 3. flokk. Jeg skal ekkert um það segja, hvort þetta er í raun og veru rjett. Af atriði er þessi breyting varla. En annars finst mjer munurinn orðinn svo lítill, að það taki því tæpast að hafa hann nokkurn, einkum þar sem nefndin vill nú hækka launin um 200 kr. Sparnaðurinn af þessu yrði líka svo lítill, að ekki tekur því hans vegna að halda í skiftingu, sem deila má eins um og þessa hvort rjett sje. Jeg held því, að rjettara væri, úr því sem komið er, að skifta að eins í tvo flokka.

Í öðru lagi vil jeg minnast á brtt. á þgskj. 682. Þar vil jeg þó að eins taka það fram, að sú var ætlun bæði stjórnarfrv. og háttv. nefndar, að sýslumenn hefðu engar tekjur af embættum sínum nema föstu launin, en aftur á móti skyldi reikna allan kostnað við embættisrekstur þeirra sjerstaklega.

En um allar þessar breytingar yfirleitt, úr einum flokki í annan, verð jeg að segja það, þótt það komi stjórninni ekki beinlínis við, eins og frv. liggur nú fyrir, að jeg tel það að ýmsu leyti varhugavert að breyta mikið þeirri skipun, sem háttv. Nd. hefir gert í þessum efnum, og jeg vil þar, í sambandi við ákvæðin um læknana, sjerstaklega benda á örðugleikana, sem á því hafa verið að fá lækni í Síðu- og Hróarstunguhjeruð. En það ætti að vera merki þess, að ástæða væri til þess að launa þau vel. Annars getur ávalt verið álitamál um slíka hluti og ekki vert að hleypa þeim í eld milli deildanna, enda er hjer lítill munur á upphæðum. Sama er að segja um sýslumennina. Þar hefði jeg helst ráðið háttv. deild til að hrófla ekki við skipun Nd., nema sú skipun yrði þá alment tekin upp, að tvískifta þeim embættum.

Þá vil jeg þakka nefndinni fyrir það, að hafa tekið upp till. um eftirlaunin, sem hún gerði. Það er auðsjáanlega langrjettast að binda uppbótina við þá embættismenn, sem launalagafrv. fjallar um. Sömuleiðis verð jeg að telja breytingarnar á 33. gr. rjettmætar, en skal hins vegar ekkert um það segja, hvernig þeim verður tekið í háttv. Nd.

Jeg skal svo ekki að öðru leyti tala sjerstaklega um brtt háttv. nefndar, en get verið henni þakklátur fyrir þær yfirleitt, eins og frv. lá fyrir.

Þá vil jeg snúa mjer að breytingum einstakra háttv. þm. Fyrst skal jeg þá geta þess, í sambandi við brtt. á þgskj. 687, að í upphafi var það eiginlega hugsunin að setja ekkert ákvæði um skrifstofufje í launafrv. Stefnan var sem sje sú að fastákveða launin fyrir starfið sjálft, en borga rekstur þess aukalega. En það var í ógáti, að till. um skrifstofufje landlæknis var tekin í frv. Það er því í samræmi við frv. í heild sinni, að taka þaðan burtu ritfje biskups og landlæknis, og jeg get því mælt með brtt. með því fororði, að liðirnir verði teknir upp í fjárlögin.

Þá er brtt. á þgskj. 705. Þar var sú athugasemd gerð í háttv. Nd., að ekki væri ástæða til að miða við skyldu presta til að búa í kaupstað. En nú lítur kirkjustjórnin svo á, að ýmsir prestar skuli beinlínis búa í verslunarstað eða kaupstað og að ekki sje um það að villast, hverjir það sjeu. Þess vegna ætti það ekki að valda neinum misskilningi, hverjir skuli hafa fulla uppbót og hverjir að eins nokkurn hluta. En samkvæmt brtt. er þessu þannig farið, að það á að vera undir hverjum presti komið sjálfum, hvort hann vill búa eða ekki. Það mætti líka athuga í þessu sambandi, hvort það mundi heppilegra fyrir hið opinbera, að prestar búi sjálfir eða leigi einhverjum og einhverjum. Jeg fyrir mitt leyti tel það ekki of mikla kröfu, þótt þeim, væri gert að skyldu að búa sjálfir, þótt jeg viðurkenni hins vegar, að sumum þeirra væri það örðugt. Mjer fyndist því rjettara að láta haldast orðalag frv. um þessi atriði.

Næst er þá brtt. á þgskj. 709. Hún er eflaust til bóta, sjerstaklega af því, að mjög örðugt var að reikna út verðstuðulinn eftir því, sem stóð í frv. í Nd., og hefir hagstofustjóri látið í ljós, að það væri verulegum vandkvæðum bundið. Þar að auki er það ósanngjarnt að ýmsu leyti. Tæplega væri líka sanngjarnt að láta alla kaupstaðina hafa jöfn áhrif, því það er ekki rjett að leggja bæ með 1500 íbúum til jafns við bæ með 15000 íbúum.

Þá skal jeg leyfa mjer að svara fyrirspurn háttv. þm. Ísaf. (M. T.). Það er alveg rjett, sem hann sagði um sýslumennina í Hafnarfirði og Vestmannaeyjum, og jeg vona, að það megi eftir ákvörðun hæstv. forseta breyta þessu. Það er og rjett, að embættismaður sá, sem hjer er við átt. heitir í Vestmannaeyjum bæjarfógeti en ekki sýslumaður. En þótt það sje satt, að nöfnin hafi hjer ekki verið alveg rjett, þá leiðir ekki af því, að skipa þurfi viðkomandi mönnum í annan flokk en áður. Sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu sýnist mjer ekki nauðsynlegt að setja á annan bekk en aðra sýslumenn. Því þótt hann hafi á hendi bæjarstjórastörf fyrir Hafnfirðinga, þá mun það borgað sjerstaklega og er ríkissjóði óviðkomandi. Um lögreglustjóraembættið á Siglufirði þarf jeg ekki að svara háttv. þm. Ísaf. (M. T.) öðru en því, sem jeg hefi þegar tekið fram, að jeg tel rjettast að setja hann að öllu leyti í flokk með sýslumönnum og bæjarfógetum, fyrst horfið er frá því, að hafa hann sem einskonar hreppstjóra, en að eins með hærri launum og virðulegra nafni.

Launalögin gera enga breytingu um ferðakostnað eða dagpeninga sýslumanna. Það má ákveða með sjerstökum lögum dagpeninga sýslumanna á ferðalögum, sem nauðsynleg eru, t. d. vegna sakamálsrannsókna. Eins mætti taka tillit til þessa þegar um rekstrarkostnað embættisins er að ræða. En launalögunum kemur þetta ekkert við.

Sama er að segja um peningaábyrgð sýslumanna. Það stendur alveg fyrir utan launalögin. Og ekki virðist heldur ástæða til að gera neina breytingu á þeim efnum frá því, sem nú er. Fyrir stríðið þóttu það afskaplega tekjumikil embætti, sem höfðu 10–12 þúsundir í tekjur. Kostnaður við þau embætti getur maður talið að hafi verið 5–6 þúsund, og nettotekjurnar frá 5–6 þús. Þetta voru hálaunuð embætti. Ef maður nú gerir ráð fyrir, að sýslumenn yrðu fyrir halla, þá væru þeir því illa settir. En það er ekki hægt við því að gera, eins og fyrirkomulagið er. Það má náttúrlega segja, að þetta sje dálítið hart. En menn, sem taka við þessum embættum, verða að gangast undir slíka ábyrgð, og hafa altaf gert það hiklaust. Svona löguð ábyrgð er heldur ekkert einsdæmi. Verslunarstjórar og fleiri verða að sæta sömu kostum. Svona hefir það verið frá ómunatíð. Og vert er að taka eftir því, að varla hefir komið fyrir, að embættismaður, sem gætir allrar reglu, hafi tapað nokkru verulegu við þetta. Það get jeg sagt um, því mjer er vel kunnugt um fjárskil embættismanna. Mjer virðist alt of mikið gert úr þessari ábyrgð. Í öðrum löndum er ekki gerð nein veruleg uppbót fyrir mistalning. Það er að vísu eitt, sem sýslumenn hafa haft ástæðu til að kvarta yfir í seinni tíð, og það er yfirskoðunin á vörutollinum. Úrskurðirnir hafa komið mjög seint, jafnvel tveim árum á eftir. En mjer vitanlega hefir þetta ekki komið mjög hart niður á neinum. Jeg geri því lítið úr hættunni af peningaábyrgð sýslumanna, og það með góðri samvisku, því jeg þykist þekkja þetta á við hvern annan.

Jeg skal kannast við, að laun fyrir þau embættisstörf, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) taldi ábyrgðarmest, eru tiltölulega lág. Stjórnin sneið tillögur sínar að nokkru leyti eftir því, sem gerst hefir á undanfarandi þingum. Þingmenn hafa viljað borga starfsmönnum ríkisins aðallega með tilliti til þess, sem menn þyrftu til framfærslu fjölskyldum sínum, og ekki tekið í kaupgjaldinu mikið tillit til embættisvirðingar eða ábyrgðar. Það má vel vera, að ekki hafi verið rjett af stjórninni að taka tillit til þessa anda í þinginu. En jeg taldi rjett að sníða tillögur mínar mikið eftir því, hvað væri líklegt til að ná samþykki þingsins. Og jeg vil segja, að laun sýslumanna og bæjarfógeta sjeu sanngjarnlega áætlað í frv., eftir því sem þau laun hafa verið hingað til, ef hæfilegur starfrækslukostnaður verður ákveðinn. Það kann að koma fyrir í einstökum tilfellum, að starfrækslukostnaður, sem ákveðinn hefir verið fyrirfram til 5 ára, reynist of lítill en geti sýslumaður sannað að svo sje, má telja sjálfsagt, að honum yrði sjeð fyrir sjerstakri fjárveitingu. En takmörk þarf að setja fyrir skrifstofukostnaði, því annars kynni hann að vaxa ríkissjóði yfir höfuð.

Jeg skal svo ekki lengja umræðurnar meira en búið er.