08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

26. mál, laun embættismanna

Sigurjón Friðjónsson:

Hv. frsm. (K. D.) hefir misskilið till. mína. Mín ætlun hefir aldrei verið að opna dyrnar fyrir prestum til að flytja í kaupstaðina, til að ná í hærri launaviðbót. Tilgangur minn var sá, að tryggja prestum, sem hætta sveitabúskap, fulla launabót, þó þeir sitji kyrrir í sveitinni. Mjer var fyllilega ljóst, að þetta gæti haft þau áhrif, að búandi prestar legðu niður búskapinn, en jeg hygg, að það yrði eingöngu til bóta. Þetta verkaði í þá átt, að búskapurinn væri skilinn frá prestsskapnum, og sá skilnaður hygg jeg að yrði fult eins gagnlegur eins og aðskilnaður ríkis og kirkju. Jeg lít svo á, að breyting hljóti að verða áður en langt um líður á verksviði presta og skipun prestakalla. Prestsstörfunum er sífelt að fækka Barnafræðslan er að miklu leyti farin úr höndum þeirra. Húsvitjanir eru að leggjast niður. En á hinn bóginn er farið fram á að auka laun þeirra. Þetta held jeg að hljóti að leiða til þess, að prestaköllum verði stórfækkað og prestum verði með því móti fengið meira að gera, en búskapurinn þá tekinn af þeim um leið, og launin hækkuð á borð við það, sem er hjá öðrum embættismönnum, sem enn getur ekki heitið að sje.