08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

26. mál, laun embættismanna

Magnús Torfason:

Að eins stutt athugasemd út af orðum hv. þm. Snæf. (H. St.). Hann rjeðst á mig, eins og „plagsiður“ hans er, þegar hann vissi mig dauðan, og brá mjer um öfgar og prócuratorshæfileika, starf sem jeg hefi aldrei fengist við. En ræða hans minti mig á nokkuð, sem smakkast svo vel og kallað er „lummur“.

Þessi háttv. þm. (H. St.) hafði það eftir mjer að jeg hefði sagt, að að því gæti rekið, að landlæknir yrði sóttur til Hesteyrarhjeraðs, en jeg sagði, að ástæða væri fyrir landlækni að sækja um hjerað, t. d. Hesteyrarhjerað, með því að hann myndi þá fá betri kjör. En eftir öllu, sem fram hefir komið hjá læknastjettinni til landlæknis, skil jeg þetta svo mætavel.

Út af fyrirspurn minni til hæstv. forsætisráðh. (J. M.) skal jeg geta þess, að vel hefði mátt setja bráðabirgðalög með því ákvæði, að útborgun færi ekki fram, nema þingið samþykti.

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) sagði, að jeg hefði þulið harmagrát eða harmagrút vegna minnar stjettar. Sú stjett hefir nú engan forsvarsmann átt í launanefndum þingsins, en báðir læknar þingsins eiga sæti í þeim nefndum, enda ber frv. þess vott að læknastjettin hefir haft þar talsmenn, þótt það muni raunar rjett, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að ekki væri hægt annað en verða við kröfum læknastjettarinnar.

Loks skal jeg geta þess, að jeg gleymdi að gera eina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðh. (J. M.) um 33. gr. Þar stendur, að þeir sem laun taki eftir lögum þessum, fái dýrtíðaruppbót eftir þeim. Þá er spurningin um þá menn, sem taka laun eftir eldri lögum og halda embættum sínum. Eftir hverjum reglum eiga þeir að fá uppbót? Vera má, að ætlast sje til, að þeir fái enga uppbót; væru þá lög þessi hrein kúgunarlög.