13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

26. mál, laun embættismanna

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Þegar jeg kom á þing, kveið jeg fyrir því, að erfitt yrði að ráða fram úr þessu máli svo vel sem þyrfti, svo að ríkinu yrði trygðir hæfir starfsmenn annars vegar, og hins vegar ætlað þó af með gjaldþolið. Auðvitað er aðalatriðið að fá sem allra besta menn. Skal jeg ekkert segja um, hvernig það tekst eða lítur út fyrir að muni takast, en jeg býst þó við, að málið sje nú komið í það horf, að farinn verði einskonar meðalvegur. Að vísu bætast töluverð útgjöld á landssjóðinn, en eigi er þó hægt að segja, að starfsmönnum sjeu ætluð hærri laun en viðunanlegt má telja, og að sjálfsögðu mundi ríkið greiða meira, ef það teldi sjer fært. Hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) sagði, að skylt væri að ræða málið einnig frá sjónarmiði þeirra, sem eiga að sjá um hag ríkisins. Það er að vísu rjett, en það verður líka að taka tillit til þess, fyrir hvaða laun hægt er að fá menn í þjónustu ríkisins. Þetta tvent verður að haldast í hendur. Þá mintist hann á, að hallinn yrði 2 miljónir, en í fjárlögunum, eins og þau liggja fyrir, er hann ekki nema ½ miljón. En þó hann yrði 2 milj., tel jeg ekki ástandið vonlaust. Aðalatriðið er, að ríkið fái góða og nýta menn í þjónustu sína.

Þar sem hv. 1. landsk. varaþm.(S. F.) talaði um %-tölu, verð jeg að játa, að jeg gat ekki fylgst vel með; jeg hafði ekki gert mjer grein fyrir málinu á þann hátt, heldur hver uppbótin yrði í krónutali. Hækkunin nam eftir frv. Nd. um 792 þús. kr., og eftir meðferðinni í þessari hv. deild um 830 þús. kr. í beinum tölum.

Jeg býst við, að það verði skiftar skoðanir um, hvernig þinginu tekst að ráða fram úr þessu máli. En það hefir altaf í hendi sjer að bæta úr þeim göllum, sem á lögunum kunna að verða. Hv. þm. eru kann ske ekki ánægðir með niðurstöðuna, en jeg hygg samt, að úr þessu máli sje ráðið nokkurn veginn viðunanlega. En ekki er að búast við, að úr jafnmiklu stórmáli og þessu verði ráðið svo, að öllum líki.

Jeg vona, að hv. þm. hafi athugað brtt.

Jeg skal fyrst minnast á brtt. hv. l. landsk. varaþm. (S. F.), á þgskj. 749. Hún haggar svo mjög undirstöðu þessa máls, að mjer finst ekki geta komið til greina að samþ. hana. Hún fer fram á að hækka þá, sem hæst eru launaðir, en draga úr launum miðflokksins, þannig að allir, sem væru á laununum 3–6000 kr., myndu skaðast, en þeir, sem hefðu 6–8000 kr., myndu hafa hagnað af. Jeg get því ekki verið með þeirri brtt.

Þá skal jeg minnast á brtt á þgskj. 760, sem háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) flytur, en eigi í nafni nefndarinnar. Það hefir verið reipdráttur um 2 eða 3 sýslumannsembætti. Tillaga þessi munar ekki nema 1200 kr. á ári, og þó hún eigi hafi komið fram frá nefndarinnar hálfu, finst mjer hún skifta svo litlu máli, að jeg get ekki lagst á móti henni.

Þá er brtt. á þgskj. 765. Getum við fallist á hana, enda fer hún í raun rjettri ekki fram á annað en það, sem til er ætlast í frv. sjálfu, að þessi staða falli niður með þeim manni, sem nú gegnir henni. En þó er þetta með því skilyrði, að honum sje bætt upp í fjárlögunum, svo að hann bíði ekki halla.

Þá er tillaga nefndarinnar við 11. gr., þgskj. 778, um aukatekjur sýslumanna. Var rætt um það atriði við 1. umr., og teknar fram þær ástæður, sem eru orsök þess, að nefndin kemur með þessa brtt. Ætlast hún samkvæmt henni til, að sýslumenn haldi innheimtulaunum af ellistyrks- vátryggingar- og stimpilgjaldi. Jeg skal taka fram, að ætlast var til að stæði „tollum“ í staðinn fyrir „tolli“, og vona jeg, að hæstv. forseti lagi það við prentunina.

Þá er brtt. á þgskj. 785. Fyrir nefndarinnar hönd hefi jeg ekki annað að segja en það, sem jeg sagði við 1. umr. málsins um þetta atriði. En hvernig sem fer um tillöguna, ætlast nefndin til, að forsetar bæti laun skrifstofustjóra eins og hann á skilið, og lít jeg svo á, þótt till verði samþykt, að með henni sje ekki breytt að öðru leyti 11. gr. þingskapanna. Breytingin nær að eins til launaákvæðisins og ekki annars. Nefndin legst auðvitað ekki á móti því, að skrifstofustjóri Alþingis fái laun sín hækkuð álíka og aðrir opinberir starfsmenn. Spurningin er að eins um það, hvort ákvörðunin um launabætur skrifstofustjórans skuli vera í höndum forsetanna eða í höndum löggjafarvaldsins. Þetta ætti ekki að vera margbrotið deilumál, og þótt afstaða háttv. deildarmanna kunni að vera mismunandi um þessi tvö atriði, ætlast þó allir til þess, að þessum starfsmanni sje sýndur allur sómi. Jeg er þess fullviss, að málinu væri vel komið í höndum forseta, og vantreysti þeim hvorki að því leyti, að þeir sýni starfsmanni þessum allan sóma, nje heldur að þeir muni ganga of langt eða lengra en til er ætlast. Skal annars ekki fjölyrða um þetta.

Þá er brtt. á þgskj. 805, frá háttv. þm. Ísaf. (M. T.). Um afstöðu nefndarinnar í þessu efni er sama að segja og áður, hún er með öllu óbreytt. Hún leit svo á, að þegar laun eru orðin jafnhá ráðherralaunum, þá yrðu aðrir við það að hlíta, og viðunandi að telja. Í frv. er ef til vill þó ekki gætt fulls rjettlætis, og má svo fara að menn verði ófúsir á að ganga í vandasamar stöður, ef þess er ekki gætt, að launin sjeu vandanum sambærileg. Jeg hefi því hugsað mjer miðlunarleið, og hefi því komið fram með brtt. á þgskj. 809, þó ekki fyrir nefndarinnar hönd. Legg jeg það alveg á vald háttv. deildar, hvernig hún fer með málið.

Það kom til orða að bera fram brtt. um launaviðbót til annars bókavarðar við Landsbókasafnið, Halldórs Briems; hann er viðurkendur fræðimaður, nýtur starfsmaður og alls góðs maklegur. En nefndin sá þó ekki næga ástæðu til þess að færa upp launin við stöðu hans fyrir hvern, sem henni gegnir, en hins vegar get jeg lýst yfir fyrir nefndarinnar hönd, að hún telur hann eiga rjett til þess að halda þeim eftirlaunum, sem hann hingað til hefir notið eftir það starf, sem hann áður gegndi, en þó án dýrtíðaruppbótar. Jeg átti tal um þetta við hæstv. forsætisráðh. (J. M.), og skildi jeg ummæli hans svo, að hann væri nefndinni sammála um þetta. Vona jeg, að háttv. deild láti sömu skoðun í ljós.

Jeg býst við því, að breytingar nefndarinnar sæti ýmsum dómum, en vona þó, að háttv. deild gangi svo frá málinu, að háttv. Nd. fallist á frv. í þeim búningi, sem það fær í þessari háttv. deild, eða að minsta kosti ráðist ekki í stórvægilegar breytingar frá því sem nú er, en ráði málinu til viðunanlegra lykta.