13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get tekið undir með hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.), á sama hátt og háttv. frsm. (K. D.), að biðlaun sjeu ein tegund eftirlauna, þó að oft sje gerður greinarmunur í lögum á þessu tvennu. Þennan skilning hygg jeg að hver stjórn muni telja sjer heimilan samkvæmt yfirlýsingu hv. frsm. (K. D.).

Sökum þess, að laun Halldórs Briems eru bygð á sama grundvelli, tel jeg yfirlýsingu hv. frsm. (K. D.) fullnægjandi fyrir stjórnina, en það væri æskilegt, að samskonar yfirlýsing kæmi einnig frá hv. Nd., sjerstaklega ef borga á út eftirlaun, hvort þá eigi líka að borga út hækkun á þeim.

Aftur á móti get jeg ekki verið samdóma hv. frsm. (K. D.) um laun skrifstofustjóra Alþingis eða þýðingu þess, að hann sje tekinn upp í launalögin. Jeg lít svo á, að með því að taka hann hjer upp sje gerð breyting á þingsköpunum, nefnilega að hann með því væri gerður að embættismanni ríkisins, launaður af því og honum veitt embættið fyrir lífstíð. En það kæmi í bága við reglurnar í heild sinni, ef hann þannig væri tekinn í flokk annara embættismanna; t. d. má nefna ákvæðin um ekkjutryggingarsjóð embættismanna o. fl.; þau ákvæði geta varla komið til greina, nema um lífstíðarembættismenn sje að ræða. Þar sem svo er álitið, að yngri lög venjulega breyti eldri lögum, þegar þeim ber eigi saman, en einmitt nú, samtímis þessu frv., er til meðferðar í þinginu frumvarp til laga um tryggingarsjóð embættismanna, sem þannig yrði að lögum jafnhliða þessu frv., þá kæmi fram ósamræmi í löggjöfinni, sem ekki væri hægt að skera úr eftir áðurnefndri reglu. Jeg átti tal um þetta við bestu lögfræðinga, og eru þeir á sama máli um þetta. En sje það ekki meiningin, að hann skuli vera fastur embættismaður, er engin ástæða til að taka hann upp í lögin; ráðning hans og launakjör geta þá verið á valdi forseta eins og áður.