08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Jeg veit ekki, hvort allir hv. þm., sem ætla sjer að taka til máls, hafa talað, en þó álít jeg rjett að svara nú þegar því, sem svara þarf.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) tók fyrstur til máls á eftir mjer. Jeg vil ekki fara í neitt orðaskak við hann, meira en orðið er, enda var sama og ekkert nýtt í því, sem hann sagði við aðra umr. málsins. Ef jeg því færi að hrekja það alt nú, yrðu það að eins endurtekningar, og er óþarfi að eyða tíma í það. Ný var að eins sú spá hans um skuldirnar, að við verðum búnir að áttfalda þær eftir nokkurn tíma, ef haldið er áfram þeirri stefnu, sem nú er hafin. Það getur verið, að þetta rætist, en hve nær það rætist vitum við hvorugur, og þó það rætist bráðlega, eins og hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) vildi halda, þá er jeg þó ekki hræddur við það, því jeg get spáð á móti, að á þeim tíma verði tekjur okkar einnig áttfaldaðar. Þessi skuldagrundvöllur, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) verður svo skrafdrjúgt um, er ekkert annað en óheilbrigð þröngsýni. En jeg vil halda því fram, að fjárveitinganefndin og þessi hv. deild hefir með stefnu sinni í fjárlögunum nú lagt grundvöll undir heilbrigða framþróun og framfarir atvinnuvega þjóðarinnar.

Þá er háttv. framsm. samgöngumálanefndar (B. St.), sem á brtt. hjer, en er ekki viðstaddur; en hann um það. Þessi háttv. þm. fer fram á það, að hreppi einum þar eystra verði veittur styrkur til að vitja læknis. Nefndinni er alveg ókunnugt um þetta, þar sem það kemur nú fyrst fram. Hún getur því enga afstöðu tekið til þess, og verða menn að fara eftir því, sem þeir álíta rjettast, eftir að hafa heyrt lýsingu og skýringu hv. þm. Nefndin stendur dálítið betur að vígi viðvíkjandi hinni till., því hún hefir legið fyrir nefndinni, eða erindi í líka átt. En nefndin hefir haft fleiri erindi til meðferðar en þetta, og fór því til landssímastjóra, til að leita sjer upplýsinga. Hjer er um smáupphæðir að ræða, og er þetta því ekki mikið fjárhagshagsatriði út af fyrir sig. En ef þessari beiðni yrði sint, þá mundi rigna yfir þingið samskonar beiðnum, og væri þá erfitt að neita þeim, ef þessum yrði veitt áheyrn. En alt þetta mundi kosta landssjóð á annað hundrað þúsunda, og eru þá þessi smámál farin að hlaða utan á sig. Þetta vildi nefndin benda á, til þess að þingið færi ekki að marka svona djúpt kjölfar að órannsökuðu máli, og er þetta samkvæmt áliti landssímastjóra.

Þá er brtt. á þgskj. 711, frá hv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.), um sendimanninn, og hefir hæstv. forsætisráðherra (J. M.) tekið þar af mjer ómakið, enda kom ekkert fram nýtt frá 2. umr. nema eitt atriði, sem jeg ætla að undirstrika. Hv. þm. sagði, að allir væru sammála um, að sendimann þyrfti. Þetta voru menn ekki sammála um við 2. umr., en mönnum hefir ef til vill farið þetta fram síðan. Till. hv. þm. (E. Árna.) er bygð á sparnaði, en lítið legst nú fyrir kappann, þar sem sparnaðurinn er að eins 4 þús. Allar sparnaðarprjedikanirnar hafa þá verið um einar 4 þús., þó menn hafi leyft sjer að kalla það tugi þúsunda, bæði utan þings og innan. Hv. þm. (E. Árna.) sagði, að hann væri fús á að fallast á ákvæðið um sendiherrann óbreytt, ef það væri sýnt og sannað, að hann yrði að hafa þessa nafnbót, til þess að eiga frekar aðgang að æðri stöðum. Jeg vona, að hæstv. stjórn verði við þessu, þegar ekki veltur á meiru, og jeg býst ekki við, að hv. þm. (E. Árna.) rengi rök og upplýsingar hæstv. stjórnar. Reyndar hafa þau rök verið færð áður, en hv. þm. virðist hafa skelt skolleyrum við þeim, svo að honum sje varla við bjargandi.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), en því miður heyrði jeg ekki byrjunina á ræðu hans. En mjer þætti kynlegt, ef deildin færi að fella það, sem hún áður hefir samþykt. Mjer heyrðist á hv. þm. (Sv. Ó.). að hann vildi fóðra till. með því að segja að konan, sem sjóðurinn er kendur við hefði kunnað því betur, að fjenu væri varið á þann hátt sem hann leggur til. Hann telur sig komast nær tilgangi hennar og vera í samræmi við starfsemi hennar með þessari tilhögun. Þetta þykir mjer undarlegt. Þessi kona starfaði á Vesturlandi, og að henni látinni stofnuðu vinir og vandamenn sjóð til að halda áfram starfi í hennar anda, á sömu stöðvum. Jeg er þess vegna hissa á því að hv. þm. (Sv. Ó.) telur það nær anda hennar, að styrkja óþektan mann suður á Reykjanesi, en að styrkja sjóðinn sjálfan, sem hefir sama verkahring og hún sjálf. Röksemd þessi er því bygð á einhverju öðru en skynseminni, og verður því ekki tekin til greina af öðrum en þeim sem byggja á sama grundvelli. Um þann mann, sem hv. þm. (Sv. Ó.) vill styrkja í staðinn, get jeg verið fáorður. Hv. þm. taldi að fjárveitingin hefði fallið niður, og er einkennilegt, að hann skuli taka svo til orða. Þessum manni voru veittar 1000 kr. í eitt skifti fyrir öll, og hann hefði líklega ekkert fengið, ef þetta hefði ekki verið tiltekið. Það er því beinlínis villandi að tala um, að fjárveitingin hafi fallið niður; þegar hún var veitt, var ákveðið að hún skyldi ekki vera til lengri tíma.

Þessi brtt. og röksemdir þm. fyrir henni eru að eins vanmegna tilraun til þess að pikka með títuprjónum í þann þm. (M. Ó.). er hann heldur að sje hvatamaður að því, að þessi styrkur komst inn.

Af því að samverkamaður minn (B. J.) á óhægt um vik að tala um brtt., er snertir hann sjálfan, þá ætla jeg að minnast á hana lítillega. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) er samsekur öðrum hv. þm. um till., en hann er það sekari en aðrir, að hann talar með till. Hann taldi sig gera þetta í greiðaskyni við hv. þm. Dala. (B. J.); hann sagðist gera það til að firra hann eftirtölum og erfiði. Það er margt einkennilegt, sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) finnur upp, þegar hann ver mál sitt. Tilgangur till. virðist eingöngu sá, að gefa hv. þm. tækifæri til að gefa yfirlýsingar og halda ræðu um þetta efni, því till. er tekin aftur, þegar hv. þm. er búinn að tala. Hv. þm. (Sv. Ó.) bar það fram, að óþarfi væri að þýða þetta verk, því það væri til á Norðurlandamálunum. Það eru einkennilegar þjóðernisvarnir, að þýða engin þau rit, sem til eru á Norðurlandamálum, en ætlast til, að allir kunni þau. Hv. þm. (Sv. Ó.) hlynnir einkennilega að íslenskri tungu með því móti, að varna því, að frægustu skáldrit birtist á íslensku, en þurfi að vísa til Norðurlandamála. Jeg hefði getað skilið mótbárur hv. þm. (Sv. Ó.), ef þær hefðu verið reistar á því, að maðurinn væri ekki fær um að þýða verkið. Þær hefðu verið afsakanlegar, því þar hefði að eins verið um vanþekkingu að ræða. En hin ástæðan er að eins yfirskin, að eins tylliástæða eða annað verra, sem ekki er hægt að taka til greina.

Þá var hv. þm Barð. (H. K.) að mæla með sinni brtt., og er honum þar vorkunn. En hann vildi ekki taka þær ástæður til greina, sem jeg gat um, en taldi nefndina vera á móti till. sinni af annari ástæðu. (H. K.: Það er ekki rjett skýrt frá. E. A.: Það gerir ekkert til.) Jeg hefi skrifað það upp eftir hv. þm. Jeg ætla að taka upp aftur ástæður nefndarinnar, því að hv. þm. (H. K.) virðist ekki hafa hlustað eftir þeim. Jeg sýndi fram á að engin gögn lægju frammi í málinu, á engu væri að byggja, og þess vegna gæti nefndin ekki forsvarað það, að vera með till. Hv. þm (H. K.) kom heldur ekki með neitt, sem gæti orðið máli hans til styrktar, og verð jeg því enn að halda fast við það, sem jeg sagði áður. Skal jeg þó drepa á ástæður hans hinar helstu.

Hv. þm. (H. K.) mintist á sjúkrahúsið á Patreksfirði; kvað hann það mjög af sjer gengið, grunnur þess þyrfti mikillar aðgerðar, vatnsleiðslupípur væru bilaðar, kítta þyrfti glugga, en mála stofur og veggfóðra. Þetta alt bendir á, að sýslunefnd hafi ekki haft sem best eftirlit með hirðingu hússins, og er varla til þess að ætlast, að landið haldi slíkum húsum við eða bæti úr vanhirðu á þeim Hjeruðunum er venjulega veittur styrkur til að koma upp sjúkrahúsum, alt að 1/3 byggingarkostnaðar, en ekki hefir þingið hingað til veitt fje til viðhalds húsa þessara, eða til minni háttar viðgerða á þeim, enda mundi það vera hál braut að fara út á. Ef hv. þm. (H. K) hefði borið fram tillögu um að byggja að nýju sjúkrahús á Patreksfirði, þá var málið þannig vaxið, að þingið hefði orðið að taka það til alvarlegrar athugunar. En þessi málaleitun hv. þm (H. K.) er þannig undirbúin, að eigi er hægt að taka hana til greina. Auk þess sem hjer er um smáviðgerðir að ræða, eftir frásögn háttv. þm. (H. K.) þá er eitt formsatriði, sem nefndin verður að halda við og vill ekki víkja frá. Hjer vantar með öllu áætlun um verkið, sem hv. þm. (H. K.) segir að enn hafi eigi komið frá hans „ágæta“ yfirvaldi. Mjer finst þetta fremur benda til þess að hlutaðeigendur sjeu ekki eins áfram um málið eins og háttv. þm. (H. K.) lætur í veðri vaka. Hv. þm. (H. K.) undraði á því, að svona væri tekið í málið, þar sem læknir hefði orð fyrir nefndinni. Þetta er þó ekki svo undarlegt; læknir á einmitt að vera því kunnugastur, hver stefna og tilhögun er og á að vera á þessum málum heima í hjeraði, og þar af leiðandi einnig hvernig rjettast sje að þingið taki í þau.

Jeg man svo ekki, að jeg hafi fleira að segja um þetta; þó læt jeg þess getið, að hefði hv. þm. (H. K.) komið með tillögu sína til nefndarinnar og getað gefið henni betri upplýsingar en hjer liggja fyrir, þá má vera, að öðruvísi hefði verið hægt að taka í málið en nefndin sjer sjer nú fært. Jeg tel rjettast fyrir hv. þm. (H. K.) að taka till. sína aftur að þessu sinni og reyna að afla sjer betri upplýsinga: gæti hann þá reynt að leggja málið fyrir hv. Ed., eða jafnvel þessa deild, þegar fjárlögin koma hingað aftur.

Jeg vona, að jeg þurfi ekki að taka aftur til máls við þessa umræðu fjárlaganna, en óska að hv. deild sýni brtt. nefndarinnar og þeim brtt., sem hún mælir með, sömu velvild og sanngirni, sem hún sýndi till. nefndarinnar við 2. umr.