18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

26. mál, laun embættismanna

Einar Arnórsson:

Jeg á hjer brtt., á þgskj. 886 er ekki virðist hafa fundið fulla náð fyrir augum háttv. nefndar.

Eins og kunnugt er, mega laun og dýrtíðaruppbót saman lögð, eftir frv. því, sem hjer liggur fyrir, verða 9500 kr. Þar af leiðir, að dómendur hæstarjettar geta ekki hærra komist, nema dómsforseti, sem fær 10 þús. kr. laun, en þá enga dýrtíðaruppbót. En af því leiðir aftur það, að menn, sem hæfir eru, munu ekki fást, því að það er þeim peningatap. Enn fremur er gert ráð fyrir því í greinargerð stjórnarinnar við hæstarjettarfrv., að þeir megi ekki gefa sig við neinn öðru, ekki gegna öðrum störfum utan embættis síns. En af því leiðir, að þeir, sem hæfir eru, fara sumir þangað, sem þeir hafa föst hærri laun, en aðrir þangað, sem þeir hafa svipuð eða jöfn föst laun, en auk þess er í lófa lagið að vinna sjer inn talsvert fje utan hjá.

Afleiðingin yrði því sú, ef óbreytt stæði ákvæðið um laun dómenda hæstarjettar, að góðir menn fengjust ekki í þennan rjett. En það tel jeg með öllu ómögulegt fyrirkomulag, og þess vegna ber jeg fram þessa brtt., sem er svo hógvær, sem mest má verða.

Háttv. deild sker nú úr með atkvgr., hvort hún vill gera þennan dómstól vel úr garði eða ekki, hvort hún vill samþykkja lög um hæstarjett, án þess að sjá honum fyrir dómendum.