18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

26. mál, laun embættismanna

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það er fátt sem jeg þarf að taka hjer fram fyrir nefndarinnar hönd. Það, sem aðallega hefir vakað fyrir nefndinni er að stofna málinu ekki í hættu, og slaka þá heldur til en að gera smámuni að ágreiningsatriðum.

Viðvíkjandi hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og brtt. hans skal jeg geta þess, að nefndin getur ekki á þær fallist. Hv. þm. (Sv. Ó.) taldi sanngjarnara að miða verðstuðulinn við verð í fjórum aðalkaupstöðunum heldur en í Reykjavík einni. Um þennan stuðul er það að segja, að sanngjarnast væri að miða hann við verð í hverjum kaupstað og veita uppbótina eftir því, hvar menn væru búsettir. En þessu verður ekki komið við. Ef miðað er við Reykjavík eina, þá fá nokkrir embættismenn úti um land hærri uppbót en þeim ber, en ef fjórir aðalkaupstaðirnir eru teknir, þá fá embættismenn í Reykjavík lægri uppbót, og þeir eru fleiri. Það virðist því sanngjarnast að miða við Reykjavík eina, úr því að ekki er hægt að fara svo nákvæmlega út í þetta, að full sanngirni verði. En það er ekki hægt.

Um prestana þarf jeg ekki að fjölyrða. Þó að laun þeirra hafi ef til vill verið sanngjörn áður, þá eru þau það ekki framar nú. Það er orðið dýrt að koma upp búi, og arðurinn ekki meiri en svo, að óvíst er, að það borgi sig fyrir presta, enda á ekki að vera svo í garðinn búið, að prestar þurfi að stunda einhvern sjerstakan atvinnuveg til að halda í sjer lífinu.

Um læknishjeruðin get jeg líka verið stuttorður. Nefndin bygði á læknafundinum í þeim efnum, enda hafði hann meiri þekkingu til að bera en hún. Það var einnig sett undirnefnd, og komst hún að sömu niðurstöðu.

Þá kem jeg að brtt. frá hv. 1 þm. Skagf. (M. G.), um að nema úr gildi þau lög, er nú gilda um dýrtíðaruppbót. Nefndin hefir haft þetta til athugunar. Fjárlögin fjalla um ýmsu starfsmenn, sem heyra ekki undir þetta frv., og hjelt nefndin þess vegna að gamla uppbótin þyrfti ef til vill að gilda. En ef fult tillit verður tekið til þessara manna í fjárlögunum, þá verða gömlu lögin vitanlega þýðingarlaus.

Annars er óþarfi að ræða þetta mál frekar: umræður verða ekkert annað en endurtekningar úr þessu. Hv. deildarmönnum munu vera orðin kunn öll atriði málsins, og eiga þeir nú við sjálfa sig, hvort þeir vilja stofna því í hættu eða ekki.