18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki látið vera að segja fáein orð áður en þetta mál fer úr deildinni að fullu og öllu og jeg vona, að það þurfi ekki að koma fyrir sameinað þing. Jeg tel rjett að gera engar breytingar við frv. nú, og býst við að flestir geti við það unað, þó margir kysu að hafa það öðruvísi í ýmsum atriðum.

Það er erfitt að spá nokkru um framtíðina. Menn hafa löngum vonað það og búist við því, að verðlag færi að batna, en sú von virðist ekki ætla að rætast í náinni framtíð. Sú skoðun ryður sjer til rúms meðal kaupsýslumanna, að verðlagið nú sje að festast, og búast megi við, að það raskist lítið úr þessu, að minsta kosti varla til lækkunar. Sje svo, þá er ósanngjarnt að hafa takmarkað svo hærri launin og gert launin yfirleitt sem jöfnust. Enda tel jeg það mestu galla á frv., að það ákveður, að laun og uppbót megi ekki fara fram úr ákveðinni upphæð. En þrátt fyrir þennan galla verða menn að sætta sig við það, sem komið er.

Um einstakar breytingar og brtt. skal jeg ekki tala, en þó vil jeg sjerstaklega mæla með brtt. frá háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), um að fella burtu embættasameiningar í stjórnarfrv. Úr því, sem komið er, þá er þetta alveg rjett. Jeg sá sjerstaklega eftir, að ekki var gert ráð fyrir að fela þjónustu Holdsveikraspítalans ódýrari manni en nú er, þegar um losnaði, sem vonandi er langt að bíða. En þegar þar að kemur, hafði jeg hugsað mjer þennan sparnað.

Það hefir mikið verið þráttað um brtt. á þgskj. 847, um hvort fyrirskipa skuli endurskoðun á þessum lögum. Jeg skal játa, að í fljótu bragði virðist það ekki skaða, en jeg tel brtt. óþarfa. Jeg legg þann skilning í orðin „fyrst um sinn“, að þessi uppbót sje ekki föst og embættismenn geti ekki krafist hennar framvegis. Eins tel jeg varhugavert að skylda þingið 1925 til að endurskoða þetta, ef þess er engin þörf þá, en heimild hefir það vitanlega til þess, og orðin „fyrst um sinn“ gefa því undir fótinn, ef ástandið verður breytt þá. Jeg tel því engan skaða skeðan, þó þessi tillaga falli.

Um verðstuðulinn þarf jeg ekki að tala. Háttv. frsm. (Þór. J.) hefir svarað þar fyllilega. Það er ómögulegt að reikna uppbótina svo, að fullkomin sanngirni fáist, og er þá að taka það, sem næst er sanngirni, og það er að miða við Reykjavík.

Það má segja, að mjer farist ekki að andmæla sparnaðartillögum hjer, því stjórnarfrv. hafi verið lægra en þetta, og er það rjett. En það verður að gæta að því, að langur tími hefir liðið á milli, og á þeim tíma hefir ástandið breyst. Auk þess vildi stjórnin ekki gefa þinginu undir fótinn með að hækka launin alt of mikið; hún vissi sem var, að þau hlytu að hækka í meðferðinni, og gat hún vel sætt sig við það.

Jeg held, að þeir háttv. þm., sem flutt hafa sparnaðartill., hafi ekki tekið nægilegt tillit til verðmætis peninganna nú og þarfa manna. Þeir hafa litið um of á það, að landssjóði yrði ofraun að standast allan þennan kostnað, en nú ætti þeim að vera orðið ljóst, hvernig ástatt er. Jeg vona því, að menn geti sameinast um þetta frv.