18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

26. mál, laun embættismanna

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg get lýst því yfir, fyrir hönd nefndarinnar, að skoðun hennar fellur saman við álit hæstv. forsætisráðherra, um að þingið hafi ekki með lögum þessum afsalað sjer rjettinum að ákveða dýrtíðaruppbót starfsmanna ríkisins fyrir fult og alt; sjest það á því, að þar sem í 33. gr. frv. er talað um dýrtíðaruppbótina, þá er sagt, að hana skuli veita „fyrst um sinn“. En þyki það vafasamt, hvort þessi skilningur sje lagalega rjettur, þá mundi nefndin ekki hafa á móti því, að það væri skýrt tekið fram, að þennan skilning vill hún leggja í þetta atriði.