01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

41. mál, ekkjutrygging embættismanna

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Launamálanefndin leggur til, að þetta frv. verði samþykt með þeim orðabreytingum á 5. gr., sem nefndin leggur til. Nefndinni fanst það dálítið undarlegt, að í 1. gr. er ekki ætlast til, að hvorki þeir menn greiði þetta gjald, sem giftast eftir fimtugt, nje þeir sem sitja í embættum er lög þessi öðlast gildi og eldri eru en fimtíu ára. Jeg hefi spurst fyrir um þetta hjá hæstv. stjórn, og eftir því, sem jeg hefi næst komist, virðist það hafa vakað fyrir stjórninni, að er menn væru orðnir svo gamlir, hefðu þeir ekki efni á að greiða svona hátt tryggingargjald því það leiðir af sjálfu sjer, að því skemri tíma sem búist er við að maðurinn lifi því hærra verður iðgjaldið. Einhver sagði, en jeg býst við að það hafi verið gletni, að þetta væri gert til þess að fyrirbyggja það, að konur sæktu um of eftir gömlum embættismönnum.

Þetta frv. er nokkuð annað en frv. um stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn, því hjer er farið fram á, að nokkurt tillag falli til ekknanna og barna þeirra, úr landssjóði. Nefndin athugaði þetta vel og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki yrði fram hjá þessu komist. Það er sem sje ekki hægt að ætlast til, að embættismenn geti bæði keypt sjálfum sjer og ekkjum sínum líftryggingu.

Í 5. gr. frv. stóð um börn embættismann, sem mist hafa báða foreldra sína, að konungur geti veitt hverju um sig 100 til 200 kr. uppeldisstyrk árlega, ef það sýndi sig maklegt að njóta. Þótt þetta ákvæði hafi staðið í eldri lögum, þótti nefndinni það svo afkáralegt, að hún vildi ekki halda því lengur í lögunum. Það virðist ekki hægt að segja, eða krefjast þess, að barn innan 16 ára aldurs sýni sig maklegt styrksins eða ekki. Ef barnið hefir sýnt af sjer einhverja óknytti innan 16 ára aldurs, þá væri því fremur ástæða til að veita því styrkinn, ef hann gæti hjálpað því á rjetta leið aftur. Að svo mæltu læt jeg úttalað um þetta mál.