07.07.1919
Efri deild: 3. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Forsætisráðherra (J. M.):

Frv. er fram komið fyrir ósk bæjarstjórnarinnar í Reykjavík og fer fram á að hækka sektir fyrir brot gegn lögreglusamþyktum Bæjarstjórnin færir þá ástæðu fyrir málaleitun sinni, að peningar hafi lækkað mjög í verði. Hvort sem það er nú rjett að komast svo að orði, að peningar hafi lækkað í verði, eða hitt er það rjetta, að vörur og kaupgjald hafi hækkað stórum, þá verður útkoman hin sama í þessu máli. Sektarákvæðin geta verið svo lág, að tilvinnandi sje frá hagnaðarins sjónarmiði að fremja brotið og greiða sekt fyrir. Jeg geri því ráð fyrir, að það muni ekki orka tvímælis, að sekir eigi að vera svo háar, að aldrei geti verið hagnaður í því að fremja brotin, heldur komi þær þvert á móti í veg fyrir þau. Hitt kann ef til vill að mæta mótspyrnu, að refsa skuli umsjónarmönnum barna fyrir ávirðingar barnanna. En bæjarstjórn hefir þótt nauðsynlegt að biðja um þetta, og ráðuneytið fundið ástæðu til að verða við því. Jeg geri ráð fyrir, að frv. verði, að umræðunni lokinni, vísað til allsherjarnefndar.