18.07.1919
Efri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Frv. þetta er samið og samþykt af bæjarfulltrúum hjer í Reykjavík, og munu þeir sjálfsagt ekki hafa ætlað sjer að setja í það annað en það, er hæfilegt væri. Þess ber og að gæta að verð peninga nú er annað en 1890; það er víst ekki of mikið í lagt að segja, að 400 kr. nú jafngildi 100 kr. þá og um þannig vaxin brot gegn lögreglusamþykt, sem hjer um ræðir, er það víst, að efnamönnum er ekki ofvaxið að greiða alt að 1000 kr. í sekt fyrir þau, hinir fátækari að sjálfsögðu minna, alt eftir efnum og ástæðum. Nefndin hefði líklega fallist á frv. óbreytt, ef ekki hefði þurft að breyta tilsvarandi greinum í tilskipun handa Íslandi um afplánun fjesekta í öðrum málum en sakamálum og koma samræmi á við fjesektaákvæði hegningarlaganna, en það áleit nefndin hlutverk stjórnarinnar að bera fram þar að lútandi frv., og lagði því til að hækka hámarkið.

En um það atriði, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) nefndi, að bæjarbúar þektu ekki lögreglusamþyktina, sem þó er bæði prentuð, auglýst og henni útbýtt sjerprentaðri meðal bæjarbúa, þá er það trassaskapur bæjarbúa, og mega þeir sjálfum sjer um kenna.

Auðvitað er háttv. þm. Ak. (M. K.) frjálst að koma með brtt., en ekki býst jeg við því, að nefndin aðhyllist hana.