21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg vil svara hátt v. þm. Ak. (M. K.) því, að ekki er ætlast til að útvega bæjarfjelaginu tekjur með auknum sektum, heldur er farið fram á að hækka þær til þess, að meiri trygging sje fyrir því, að lögreglusamþyktum sje hlýtt. Það er auðvitað, að það bakar ríkissjóði kostnað, ef menn sitja í varðhaldi til að afplána sekt, en það má ekki horfa í það fje, sem gengur til að halda uppi löggæslu og löghlýðni. Lágmark sekta er látið haldast, svo það mun sjaldan koma til, að hæstu sektarákvæðunum verði beitt. En dómarar verða að hafa gott svigrúm til að geta kveðið upp rjettláta dóma eftir málsástæðum. Það verður að vera langt bil á milli hæsta og lægsta sektarákvæðis, til þess að sektir geti verið hlutfallslegar við stærð brota og efnahag sökudólganna.

Viðvíkjandi spurningum háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) skal jeg geta þess, að jeg hefi ekki verið svo lengi hjer í Reykjavík, að jeg sje orðinn kunnugur öllu ástandi. En vafalaust hefir bæjarstjórn haft fulla ástæðu til að koma fram með óskir um hækkun sekta. Það virðist og auðsætt, að ágóði af brotum í einstökum tilfellum geti verið meiri en nemur sektum. t. d. ef menn versla gegn ákvæðum reglugerðarinnar.