04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Einar Arnórsson):

Þetta frv. er, eins og menn muna, stjórnarfrv. og borið fyrst fram í háttv. Ed. Háttv. Ed. breytti því að því leyti, að sektahámarkið, sem í stjórnarfrv. var 1000 kr., var lækkað um helming, fært niður í 500 kr. Allsherjarnefnd Nd. hefir ekki getað fallist á þessa breytingu, og þykir rjettara, að hámarkið sje 1000 kr. Það sýnist ekki hafa neina hættu í för með sjer, því að samkvæmt lögum 2. okt. 1891, um ákvarðanir, er snerta nokkur almenn lögreglumál, geta menn venjulega, ef þeir vilja, sloppið hjá dómi með því að greiða hæfilega sekt, og mega þær sektir vera minni en lög kveða á. Svo er og, að þótt málin fari til dóms, er ekki hætt við, að beitt sje háum sektum, nema brotin sjeu mjög alvarleg. Sektaákvæði hin hæstu í hegningarlöggjöf vorri eru yfirleitt ekki notuð, nema brotin sjeu alvarleg.

Að öðru leyti hefir nefndin ekki lagt til neinar breytingar, nema hún vill orða öðruvísi 2. málsgrein frv. Það er engin efnisbreyting, heldur að eins orðabreyting, og er hún í samræmi við 35. gr. hegningarlaganna.