23.09.1919
Sameinað þing: 2. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Magnús Torfason:

Eins og háttv. þm. sjá er komin fram breyting frá háttv. allsherjarnefnd efri deildar um að fá lækkað hámark sekta úr 1000 kr. niður í 500 kr. Ástæðan til þessa er sú, að það er enn ekki orðin nein breyting á tilskipun um afplánun fjesekta í öðrum málum en sakamálum. Samkvæmt þeirri tilsk. verður að afplána 1000 kr. sekt með 30 daga fangelsi við vatn og brauð, en 120 daga fangelsi með venjulegu viðurværi.

Þar sem hjer er um tiltölulega litlar yfirsjónir að ræða, þá virðist það ekki rjett að láta smælingja þjóðfjelagsins eiga að afplána þær með þungri refsingu eins og fyrir einhverja stórglæpi, samkvæmt hegningarlögunum. Með þetta fyrir augum fanst háttv. Ed., að hjer væri verið að leggjast á smælingjama. — Þess er og að geta, að það var svo langt frá, að háttv. Ed. vildi ganga svo langt, að það var með herkjum að 500 kr. hámarkið fekst samþykt. Það kom fram tillaga um að hafa það 200 kr., og nærri helmingur deildarinnar var með því.

Af þessu er það augljóst, að það voru ekki nokkur tök á því að fá frv. samþ. með 1000 kr. ákvæðinu. Ef því hefði verið haldið til streitu, þá var frv. fallið og alt sat við sama og áður. Þegar frv. svo kom fram til einnar umr., þá varð það sama uppi á teningnum, að það var ekki hægt að láta það lifa með hærra hámarki en 500 kr.

Jeg lít svo á, að hjer sje um sæmilega hækkun að ræða. Auk þess hefir hæstv. stjórn lýst því yfir, að hún geti sætt sig við það. Jeg veit nú ekki, hvernig hv. þingmenn Nd. líta á málið. En þó vil jeg geta þess, að það er ekki víst, að frv. nái fram að ganga í sameinuðu þingi, ef brtt. verður ekki samþ.