10.09.1919
Efri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefir verið prentuð skýrsla yfir eignir og skuldir ríkisins, sem fylgiskjal með landsreikningnum 1916–17. Samkvæmt þeirri skýrslu eru eignir ríkisins miklu meiri en skuldir þess, og er sá munur um 11 miljónir króna. Þegar litið er til fjárhagsins, eins og hann er nú í augnablikinu, þá er því engan veginn ástæða til þess að barma sjer en óneitanlega virðist mjer það ískyggilegt að gera fjárlögin þannig úr garði að lán verði að taka til þess að greiða halla á þeim.

Ef halda á fjárhag ríkisins í sæmilegum horfum, verður að ganga svo frá fjárlögunum að þau beri sig, og er þá um tvent að velja, annaðhvort að skera af útgjöldunum og ganga þá heldur nálægt framkvæmdum þótt nauðsynlegar sjeu, eða að sjá fyrir tekjuaukum svo jöfnuður geti haldist milli útgjalda og tekna. Virðist mjer að hv. þm. verði að athuga þetta vel.

Skuldir landssjóðs hefi jeg áætlað að mundu við síðustu áramót hafa numið um 5½ milj. kr., að frádregnum lánum til landsverslunarinnar og bókfærðu verði skipanna. Er þá ekki tekið tillit til 1 milj. kr. gróða landsverslunarinnar. Tekjuhalla yfirstandandi árs hefi jeg gert 1 milj., en sú áætlun er ekki ábyggileg. Má gera ráð fyrir miklum tekjum á árinu. En hins vegar má einnig búast við miklum útgjöldum. Síðasta árs útgjöld fóru 3.514 þús. fram yfir áætlun, en gjöldin venjulega meiri síðara ár fjárhagstímabilsins.

Eftir þessu ættu gamlar og nýjar skuldir við áramót með framangreindum frádrætti að nema um 6½ milj., og er varla hægt að telja það mjög vondan fjárhag eftir öllum ástæðum, þar sem á móti standa eins miklar eignir og jeg hefi tekið fram áður, en samkvæmt skýrslu um eignir og skuldir ríkisins má gera ráð fyrir 11 milj. fram yfir skuldir.

En jeg vil fastlega vara við því, að þetta ástand getur breyst til hins verra og það jafnvel á tiltölulega skömmum tíma sjerstaklega ef farið verður inn á þá hálu braut, að taka lán sem eyðslufje. Má í þessu sambandi benda á að fullar líkur eru til, að í fjárlögunum verði 2 milj. kr. halli, ef ekki bætast nýir tekjuaukar við, og er það laglegur skuldaauki.

Það er og ljóst, að á þessu þingi hefir auk þessa verið lagður grundvöllur að miklum skuldaauka. t d. með húsagerðarfrumvarpinu, brúargerðarfrv. og strandgæslufrv., svo að fyrirsjáanlegt er, að skuldirnar aukast við það að miklum mun, en hve langt muni verða þangað til að því rekur, fer eftir því hve mikið þessum framkvæmdum verður hraðað. En þó að hægt verði ef til vill að fá lán til framkvæmda ýmissa þá mun sannast að erfitt verður að fá fje til þess að greiða fjárlagahalla.