07.07.1919
Efri deild: 3. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Magnús Torfason:

Jeg styð till. háttv. þm. Ak. (M. K.) Og geta má þess, að rjett virðist, að tekin væru í þessu sambandi til athugunar í sjávarútvegsnefndinni atriði, sem að þessu lúta. Það er rjett, að skrásetningu skipa hjer á landi er allmjög áfátt, eins og hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) drap á, en þar mun mestu um valda, að mæling skipa er í miður góðu lagi, enda vart við því að búast, með því að einungis nokkur hundruð króna eru ætluð til mælingamanns hjer í Reykjavík, en alls ekkert úti um land, þótt þangað komi talsvert af ómældum skipum.

Það er einnig vegna vinnubragða í deildinni, að jeg tel rjettara að vísa málinu til sjávarútvegsnefndar en til allsherjarnefndar. En að vísa málinu til lausanefndar hlýtur að verða til þess að rugla fastanefndastörfin. Og það því fremur, sem nú er í ráði að skipa þrjár allveigamiklar lausanefndir til þess að fjalla um umfangsmikil mál, mun ekki hjá því komist: en því óráðlegra verður að vísa til þeirra nefnda öðrum málum en þeim, sem bein og brýn þörf er á.