18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Það getur vel verið, að hv. deildarmönnum hafi hnykt við, er þeir sáu þann mikla fjölda brtt., er frv. fylgja frá nefndinni. En jeg vona samt, að þeir, sem hafa kynt sjer brtt. hafi verið fljótir að jafna sig og sjeð, að meira kvað að fyrirferð brtt. en að eiginlegum efnisbreytingum.

Aðalbreytingin, sem nefndin stingur upp á, er sú, að ekki sje sett á fót skrásetningarskrifstofa sú, sem farið er fram á í 4. gr. frv. Nefndin leit svo á, að ekki væri brýn þörf á skrifstofu þessari. Skipastóll vor er enn ekki svo stór, að taki því að sifja upp heila skrifstofu í þessu skyni. Nefndin játar það, að ólag sje á skrásetningunni, en telur það ekki að kenna vöntum skrásetningarskrifstofu. Skrásetningin fór áður fram í Kaupmannahöfn, og var stjórnarráðið milliliður milli þeirrar skrifstofu og skrásetningarstjóranna, sem sje sýslumanna og bæjarfógeta. Aðalgallinn á skrásetningunni var í því fólginn, að nægilega aðstoð brast til þess að framkvæma mælingarnar eins og greinilegar er sýnt í nál. Enn fremur má geta þess, að nefndin telur rjettara að hliðra sjer hjá að stofna ný og kostnaðarsöm embætti, meðan kostur er, og er í því samdóma stjórninni í greinargerð hennar fyrir 4. gr. Þarf jeg svo ekki að fjölyrða um þetta; býst við, að öllum sje þetta ljóst, hvort sem eru með eða móti.

Við 1. gr. vill nefndin gera samskonar undanþágu sem samþykt var hjer í siglingalögunum fyrir skip, sem skrásett voru fyrir 1. desbr. 1918. Við 1. gr. má og vænta breytinga í samræmi við siglingalögin, eftir því hvaða skilyrði verða sett fyrir því, að skip verði skrásett hjer.

Þá vill nefndin láta hækka sektarákvæði frv. af þeim ástæðum, sem fram eru teknar í nál., bæði að sektirnar eru í sjálfu sjer lágar, og einkum vegna þess, hve lágt er gildi peninga nú.

Jeg hefi nú drepið á efnisbreytingarnar, og kem nú að því, sem fyrirferðinni veldur, en það er orðalag frv. Nefndin þóttist ekki geta komist hjá því að endurskoða málið á frv. Þykist nefndin vita, að frv. sje flýtisverk; er það mest sniðið eftir lögunum 1895, sem að mestu leyti mun hafa verið þýðing á útlendum lögum. Jeg get sparað mjer og hv. deild langan fyrirlestur um þessi efni. Þótti nefndinni svo, að úr því að hún þurfti víða að grípa niður í frv., væri rjett samtímis að fjarlægja óíslenskuleg orð og þunglamalega setningaskipun, en ekki hygg jeg, að í þessum brtt. felist efnisbreyting. Jeg vil að eins benda á það, að eftir 4. brtt. nefndarinnar á orðið „skipsins“ ekki að falla burt, enda segir það sig sjálft. Sömuleiðis hafa tveir stafliðir í 46. brtt nefndarinnar víxlast, en skrifstofan getur væntanlega leiðrjett þetta.

Jeg þykist ekki þurfa að fjölyrða meira um þetta, en ef hv. deildarmönnum sýnist nefndinni hafa í einhverjum atriðum verið mislagðar hendur, er nefndin fús til samvinnu og til breytinga eftir atvikum. Nefndin hefir, eftir atvikum, lagt mikla vinnu í frv. og vonar, að verk hennar verði virt vel og fái góðar viðtökur.