18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Karl Einarsson:

Jeg vil að eins minnast á eitt atriði, er hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hefir gefið tilefni til, þar sem hann rjeðst með hvössum orðum á brtt. nefndarinnar við 4. gr. frv., Meðal annars góðgætis, er hann sagði um það, var „að nefndin gæti ekki skilið það“, að það „væri hreint kák“ og „að skrásetningin væri öll í mestu óreglu“, ásamt fjölmörgu fleiru af líku tægi. Það er óvandur eftirleikur, þegar svo er að manni farið, en auðsjeð er það, að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) þekkir ekkert til málsins.

Nú eru í gildi tvær tilskipanir frá 1869, báðar frá 25. júní, önnur um mælingu skipa, en hin er um skrásetning skipa, og háðar þessar tilskipanir gilda enn þá. Í hinni fyrri eru nákvæmar reglur um mælingu skipanna, og er það mikið verk að setja sig inn í þær reglur. Að þessar mælingar sjeu rjett gerðar er mjög áríðandi; eftir mælingunni er reiknuð stærð skipsins, og við stærðina eru öll gjöld af skipinu miðuð. Þetta er annað aðalmarkmið skrásetningarinnar; hitt, að lýsing skipsins sje svo fullkomin, að ekki verði um vilst, hvert skipið er.

Brtt. nefndarinnar er um, að skrásetningarskrifstofa sú, sem gert er ráð fyrir í frv. að sett verði á fót í Reykjavík verði ekki stofnuð, en að mál þetta verði, eins og verið hefir, í stjórnarráðinu.

Nú er það svo, að þegar einhver vill láta skrásetja skip, þá snýr hann sjer til viðkomandi lögreglustjóra, er gætir þess, að öll skjöl, er að skipinu lúta, svo sein eignarskjöl, þjóðernis o. fl., sjeu í lagi. Þegar það er gert, mælir hann eða lætur mæla skipið og reiknar út stærð þess og sendir síðan stjórnarráðinu skjölin. Stjórnarráðið hefir síðan sent þetta skrifstofu þeirri í Kaupmannahöfn, er þetta annast, og hún endursendir það aftur og gerir breytingar ef þörf er á.

Jeg get skilið það, að stjórnarráðið hafi fundið til þess, að það þurfti mælingarfróða menn til endurskoðunarinnar, því mælingarfróðleikur finst ekki, eins og eðlilegt er, í stjórnarráðinu. En úr þessu er ekkert bætt með frv. eða skrifstofunni. Þeir sem við mælingarnar fást eða lögreglustjórarnir eru jafnómælinafróðir og áður.

Ef sú leið er farin, sem nefndin leggur til, þá sparast nokkurt fje frá því, er frv. gerir ráð fyrir, og mætti þá verja því til að útvega lögreglustjórunum mælingarfróða menn. Það þyrfti ekki fleiri en 6–7 menn, og kostnaðurinn við fræðslu þeirra um þetta hlyti að verða mjög lítill.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hjelt því fram, að það væri ókleift að öðlast þennan fróðleik, nema að láta menn sigla, en jeg tel, að það sjeu svo mælingarfróðir menn hjer, að það sje hreinn óþarfi, og það megi spara þann kostnað. Jeg skal í því sambandi bandi á Pál skólastjóra Halldórsson og Ágúst kaupmann Flygenring.

Þá var hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) að tala um það að skrifstofustjórinn á þessari skrifstofu gæti ferðast um landið til að leiðbeina sýslumönnum. Hvaða gagn heldur hann að þeir hafi af því, þó að til þeirra komi einhver embættismaður úr Reykjavík og lesi yfir þeim tilskipunina frá 1869 eða annað álíka hnoss, eða þótt hann skreppi með þeim niður í eitthvert skip til að sýna þeim mælingu. Vitanlega er ekkert gagn að því. Það verða að vera mælingarfróðir menn á staðnum: annað er þýðingarlaust. Það er innan handar fyrir lögreglustjóra landsins að kynna sjer tilskipunina frá 1869 eða önnur ámóta skjöl: til þess þarf ekki að stofna skrifstofu suður í Reykjavík og senda skrifstofustjórann með miklum hátíðleik í embættisferð um landið.

Jeg mótmæli því, að þessi skrifstofa geti úrskurðað vafaatriði, ef þess þyrfti: til þess þyrfti skrifstofustjórinn að vera lögfræðingur, en lögfræði og mælingar falla ekki saman. Það eru ólíkar fræðigreinar: mælingarnar standa miklu nær skipasmíði t. d.

Eftir því sem verið hefir hin síðari ár, þá mundi þessi skrifstofa kosta 20–30 þús. krónur eftir 2–3 ár, og það tel jeg óþarfa. Stofnunin bæði dýr og óþörf. Skipastóll okkar er því miður ekki svo stór enn, að hann hafi þörf á svo dýrri skrifstofu.

Eins og sakir standa, verður að leggja áherslu á að útvega lögreglustjórunum nóga aðstoð við mælingar skipa, því þeir bera hvort sem er alla ábyrgð á mælingunum.