18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg tók það fram, er jeg lagði fram frv., að tilskipuninni frá 1869 væri ekki breytt, og var það af því að stjórnin vildi fá upplýsingar frá sjerfróðum manni um það, hvort og þá hvernig ætti að breyta tilskipuninni. Forstöðumaður skrifstofunnar ætti auðvitað að veita þessar leiðbeiningar, eftir að hafa kynt sjer málið ytra. Það mætti t. d. taka upp aðrar mælingaraðferðir. Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að stjórnarráðinu barst nýlega fyrirspurn um eftir hvaða reglum mælingar yrðu framkvæmdar hjer, og var því svarað, að það yrði eftir sömu reglum og hingað til. Hingað til hefir skrifstofan í Kaupmannahöfn endurskoðað mælingarnar (K. E.: Það er ekki rjett. Jú, og hún hefir hvað eftir annað gert athugasemdir og skipaskránni hefir verið breytt samkvæmt því. Þetta gæti þm. sannfærst um, ef hann liti upp í 3. skrifstofu stjórnarráðsins.

Ef frv. þetta verður samþykt þá verða frummælingarnar framkvæmdar, eins og verið hefir, af sýslumönnum eða umboðsmönnum þeirra., en þeir senda síðan skjölin til skrifstofunnar hjer, er athugaði öll skilríki, er að því lytu, eignarskjöl, mælingar o. s. frv. Verði ágreiningur um það, hvort skip hafi rjett til að sigla undir íslenskum fána, þá má skjóta þeim ágreiningi undir dómstólana.

Jeg veit, að það verður ekki komist hjá því að senda mann utan til að læra þessi fræði. Páll skólastjóri Halldórsson segir, að hann yrði að fara utan til þess að auðga þekkingu sína um þetta, og er hann þó fróðastur maður hjer í skipamælingum, ásamt Ág. Flygenring, er auðvitað mundi ekki taka þær að sjer. Og þó brtt. nefndarinnar verði samþykt, þá verður ekki komist hjá því.

Niðurstaðan í þessu máli fer mikið eftir því, hvað menn leggja upp úr, að lögskráningarstarfið sje í góðu lagi. Jeg álít, að slíkt hafi mikla þýðingu, og með öðrum þjóðum er lögð mjög mikil áhersla á það.

Háttv. þm. Vestm. (K. E.) misskildi mig, þar sem jeg sagði, að nefndin hefði misskilið hlutverk skrifstofunnar, og vildi halda því fram, að hún ætti ekki að fást við endurskoðun, en það verður einmitt eitt af aðalstörfum hennar.

Það þýðir ekki að vera að deila um þetta fram og aftur. Hjer er að ræða um 2 leiðir, kákleiðina og endurbótaleiðina. Og þó þingið í ár telji heppilegra að fara kákleiðina, mun mál þetta rísa upp á næstu þingum og þá verða sett í nýtt og betra horf, eins og jeg hefi nú stungið upp á.

Nefndin ætti að taka mál þetta til frekari íhugunar og um fram alt að hafa tal af þeim mönnum, sem sjerþekkingu hafa í þessum efnum, t. d. Ágúst Flygenring.