18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Hv. þm. Vestm. (K. E.) hefir tekið af mjer ómakið og gert mjög ljóslega grein fyrir ástæðum nefndarinnar. Er það því betra, þar sem jeg verð að kannast við að vera sístur postulanna í þessum efnum, en gat fallist á röksemdir samnefndarmanna minna.

Í tilefni af ræðu hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), þar sem hann sagði, að alstaðar annarsstaðar (Fjármálaráðherra: Víðast hvar) væru hafðar sjerstakar skrifstofur, er fjölluðu um þetta mál, skal jeg taka það fram, að það sannar ekkert, að svo þurfi einnig að vera hjer. Því okkar skipastóll er svo miklu minni en annara landa, að þar sem aðrar þjóðir telja skip sín í þúsundum, teljum við okkar í tugum. Jeg get ekki ímyndað mjer, að þetta sje of mikið verk, enn sem komið er, — hvað sem endurskoðuninni líður — til þess, að það sje haft í stjórnarráðinu, en auðvitað geng jeg út frá því gefnu, að einhver sjerstakur maður verði hafður til að sinna því.

Hvað hinu viðvíkur, að ólag hafi verið á lögskráningunni, þá er um að gera, að tekið sje fyrir rótina á meininu. En það verður ekki gert með því að stofna sjerstaka skrásetningarstofu — slíkt er að grípa á skökkum stað — heldur með því að reyna að koma því þannig fyrir, að frumfrágangurinn sje í sem bestu lagi. Hitt nær ekki nokkurri átt, að nefndin hafi ekki viljað, að þetta væri í sem bestu lagi, og von mín er sú, að skipastóllinn vaxi svo, að í framtíðinni kunni að verða þörf á sjerstakri skrásetningarstofu, en nú er það ótímabært.

Jeg tel ekki nauðsynlegt að fara út í deilur um orð, en vil fyrir hönd nefndarinnar leggja það til, að tillögur hennar nái fram að ganga í hv. deild.