18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er greinilega tekið fram í athugasemdum stjórnarinnar við frv. um skrásetning skipa, að til þess sje ætlast, að maður sá, er stjórni aðalskrásetningarskrifstofunni, eigi að vera mælingarfróður, þar sem þar á bæði að reikna út og endurskoða mælingarnar.

Háttv. þm. Vestm, (K, E.) getur ekki neitað því, að endurskoðun fór fram í Kaupmannahöfn. (K. E.: Nei, hún fór ekki fram þar). Endurskoðunin er aðalhlutverk mælingarskrifstofunnar, auk umsjónar með þeim, sem við mælingar fást. Hvort sem stofnuð verður sjerstök mælingarskrifstofa, eða þeim störfum verður hlaðið á stjórnarráðið, er endurskoðunin aðalatriðið. Stjórnarráðið hefir til þessa ekki haft neitt með endurskoðun að gera. af þeirri einföldu ástæðu, að hún fór fram í Kaupmannahöfn, og hafa þaðan oft verið sendar leiðrjettingar við útreikninga hjeðan, (S. E.: Þær hafa verið mjög lítilfjörlegar).

Hvort sem skrásetningin verður í stjórnarráðinu eða sjerstakri skrifstofu, verður maður að fara utan til að kynna sjer hana, ef hún á ekki að verða hreinasta kák. Hv. þm. (K. E.) sagði, að skrásetningastörfin mundu ekki taka nema „part úr fulltrúa“. Jeg hygg það verði lítið, sem hinir partarnir gera. Að minsta kosti verður það svo eftir skoðun þess manns, er nú hefir það starf á hendi.

Jeg endurtek það, að nefndin hefir algerlega misskilið hlutverk skrásetningarskrifstofunnar, þar sem hún heldur fram, að þar eigi engin endurskoðun að vera, en endurskoðunin er, eins og jeg þegar hefi bent á, aðalhlutverk skrifstofunnar. Þetta hefir hún ekki skilið, og því ekki getað fallist á, að sjerstök skrifstofa sje nauðsynleg; sem og ekki væri ef nefndin hefði lagt rjettan skilning í frv. Jeg er ekki að álasa nefndinni fyrir þennan misskilning. Það getur komið fyrir alla.

Um tvent er að velja, annaðhvort að hafa sjerstaka skrásetningarskrifstofu innan stjórnarráðsins, eða hún verði úti í bæ. Kostnaðurinn býst jeg við að verði líkur. Að hafa sjerstaka skrifstofu hefir meðal annars þá kosti fram yfir hitt að henni verður stjórnað af manni, er ber sjerstaka ábyrgð á því starfi, og auk þess hefir betri skilyrði til þess að leiðbeina lögreglustjórum, ef eitthvað þarf að lagfæra.

Jeg veit, að mjer tekst ekki að sannfæra háttv. nefnd. en reynslan mun sýna, að nái till. hennar fram að ganga, mun þetta verða kák.

Ef háttv. þm. eru hræddir um, að þessi nýja skrifstofa hafi ekki nóg að gera, má benda á það, að t. d. formaður hins nýja sjóvátryggingarfjelags hefir kvartað yfir því, að hjer vantaði „dispacheur“, og mætti þá fela honum það, og gæti hann lært það um leið og hann sigldi til að læra um skipamælingar. Einnig mætti leggja ýms störf undir þessa skrifstofu, er samrýmanleg væru aðaltilgangi hennar.

Jeg vil skjóta því til nefndarinnar, hvort hún vilji ekki. með leyfi hæstv. forseta, taka málið út af dagskrá og tala við menn, er sjerþekkingu hafa á þessu sviði, t. d. Ágúst Flygenring.

Í upphafi var tilhneiging mín, að stjórnarráðið hefði þetta á hendi, vegna kostnaðarins, en er jeg hafði talað við menn, er sjerþekkingu höfðu í þessu efni, sá jeg, að með gamla laginu mundi alt lenda í óreglu, þar sem það með nýja laginu gæti alt verið í röð og reglu.